Daniel Burley Woolfall

Daniel Burley Woolfall (15. júní 185224. október 1918) var enskur íþróttafrömuður. Hann var annar forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA og einn af forystumönnum Enska knattspyrnusambandsins.

Daniel Burley Woolfall
Woolfall árið 1908.
Fæddur16. júní 1852
Dáinn24. júlí 1918 (66 ára)
ÞjóðerniEnskur
StörfÍþróttaforkólfur
Þekktur fyrirað vera forseti FIFA

Ferill og störf

breyta

Woolfall fæddist í Blackburn, sonur pípulagningarmanns. Hann þótti hafa námsgáfur og var sendur til náms í latínuskóla borgarinnar og var í hópi pilta úr skólanum sem stofnuðu knattspyrnufélagið Blackburn Rovers árið 1875. Woolfall var virkur í starfi félagsins, en þó fremur sem félagsmálamaður en á fótboltavellinum.

Hann var starfsmaður hjá bresku skattheimtunni og átti færni hans í bókhaldi vafalítið stóran þátt í að hann var gerður að gjaldkera Enska knattspyrnusambandsins árið 1901. Fjárhagsstaða sambandsins var fjarri því góð um þær mundir, en Woofall átti sinn þátt í að koma því á réttan kjöl. Sem stjórnarmaður í knattspyrnusambandinu átti Woofall m.a. þátt í því að velja leikmenn í enska landsliðið.

Forseti FIFA

breyta

Woolfall var í bresku sendinefndinni sem mætti á FIFA-þingið árið 1906. Knattspyrnusamböndin á Bretlandseyjum höfðu ekki verið í hópi stofnenda FIFA og voru efins um fela hinu nýstofnaða sambandi stjórn íþróttarinnar. Að lokum féllust þau á að taka þátt í störfum sambandsins, þótt enn um hríð væri deilt um hvort bresku löndin skyldu vera undir einum hatti innan FIFA eða hvert í sínu lagi.

Þegar ljóst var að Robert Guérin hyggðist stíga til hliðar eftir aðeins eitt kjörtímabil varð úr að Woolfall tæki við embættinu. Var það talið mikilvægt til þess að bresku fulltrúarnir tækju sambandið í sátt.

Í forsetatíð Woolfalls var mikið starf unnið í að samrýma reglur knattspyrnuíþróttarinnar á alþjóðavísu og koma skikki á hvað teldust fullgildir landsleikir í greininni. Innan tíðar var svo komið að engir freistuðu þess lengur að gera tilkall til þess að halda landsleiki án þess að njóta samþykkis FIFA. Á þessum árum gengu líka fyrstu löndin utan Evrópu í sambandið, Suður-Afríka, Argentína, Síle og Bandaríkin. Woolfall knúði líka í gegn, þrátt fyrir mikla óánægju Þjóðverja og í trássi við samþykktir FIFA, að hvert knattspyrnusambandanna frá Bretlandseyjum skyldu teljast sjálfstæðir meðlimir sambandsins. Á sama hátt stóð hann gegn því að Alþjóðaknattspyrnusambandinu yrði einu falið að taka ákvarðanir um framtíðarbreytingar á knattspyrnulögunum, en bresku knattspyrnusamböndin vildu halda því valdi í ljósi hefðarréttar.

FIFA kom að skipulagningu knattspyrnukeppninnar á Ólympíuleikunum 1908 og 1912. Í báðum tilvikum var þar þó gerð krafa um að þátttakendur væru áhugamenn í íþróttinni, en deilurnar um áhugamennsku eða atvinnumennsku voru þungar í vöfum innan FIFA á þessum árum. Fyrri heimsstyrjöldin varð til þess að fresta frekari framþróun millilandakeppni í knattspyrnu, en Woolfall lést áður en stríðinu lauk.

Heimildir

breyta