Minjasafnið á Akureyri

héraðs- og byggðasafn Eyfirðinga

Minjasafnið á Akureyri er héraðs- og byggðasafn Eyfirðinga. Það opnaði 17. júlí árið 1963 til húsa við Aðalstræti 58 á Akureyri. Markmið safnsins er að safna, varðveita og rannsaka menningarsögulegar minjar, einkum þær sem eru lýsandi fyrir daglegt líf og atvinnuvegi í Eyjafirði. Í fjölbreyttum viðburðum og sýningum safnsins er leitast við að gefa góða innsýn í sögu og menningu héraðsins. Starfsemin grundvallast hins vegar á að safna, varðveita, rannsaka og fræða. Meginsýningarsalir safnsins er að Kirkjuhvoll sem er reisulegt þriggja hæða íbúðarhús frá árinu 1934. Í því og sýningarsölunum sem byggðir voru við húsið árið 1978 eru sýningar safnsins.

Minjasafnið á Akureyri er héraðs- og byggðasafn Eyfirðinga. Það er til húsa við Aðalstræti 58 á Akureyri.

Safnakostur Minjasafnsins er fjölbreyttur og hefur aukist mjög frá stofnun. Hann eru menningarsögulegar minjar frá daglegu lífi og atvinnuvegum í Eyjafirði. Starfsemin fer fram á nokkrum stöðum; í húsnæði safnsins við Aðalstræti 58, Nonnahúsi, Davíðshúsi, Minjasafnskirkjunni, gamla bænum að Laufási og varðveislumiðstöð safngripa á Naustum.[1]

Stærsti gripur safnsins er Minjasafnskirkjan á Akureyri, sem er svartbikuð timburkirkja sem stendur norðan við Minjasafnsgarðinn og stóð upphaflega á Svalbarði austanmegin Eyjafjarðar. Hana byggði kirkjusmiðurinn Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni árið 1846 og er hún gott dæmi um íslenskar sveitakirkjur sem reistar voru á Íslandi um miðbik nítjándu aldar.[2]

Minjasafnið er sjálfseignarstofnun sem er rekin af Akureyrarbæ með fjárframlögum frá þeim fimm sveitarfélögum sem standa að safninu, þ.e. Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppi, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Akureyrarbæ. Auk þess sækir safnið styrki til safnaráðs (Safnalög nr. 141/2011) bæði til rekstursins eða afmarkaðra verkefna.[3]

Safnið hefur notið aðstoðar frá Stoðvinum Minjasafnsins á Akureyri, félagi sem var stofnað 2002 með því markmiði að vera minjasafninu innan handar, styðja við starfsemi þess og aðstoða á viðburðum safnsins. Safnið hefur verið leiðandi í samstarfi, bæði við önnur söfn bæði á Akureyri og í starfsemi Eyfirska safnaklasans.[4]

Saga breyta

Um miðbik síðustu aldar var í landinu mikil umræða um að koma á fót byggðasöfnum til að bjarga þjóðlegum menningarverðmætum frá glötun.[5]

Þegar árið 1949 var tekið að ræða um nauðsyn þess að koma á fót við Eyjafjörð safni gamalla muna og merkisgripa, sem þeir yrðu varðveittir frá skemmdum og glötun. Þórarinn Eldjárn á Tjörn og Eiður Guðmundsson á Þúfnavöllum lögðu fram tillaga um Norðlenskt byggðasafn á aðalfundi Mjólkursamlags KEA og síðar á aðalfundi KEA árið 1949. Þremur árum síðar réði KEA Snorra Sigfússon til þess að ferðast um héraðið og safna munum. Einnig söfnuðu Ragnar Ásgeirsson og Helgi Eiríksson frá Þórustöðum í Öngulsstaðahreppi munum.

Árið 1952 tókst samstarf með KEA, Akureyrarbæ og Eyjafjarðarsýslu um safnmálið. Árið 1962 urðu straumhvörf þegar húseignin Aðalstræti 58 á Akureyri, ásamt eignarlóð, var keypt af Baldvin Ryen. Húsinu var breytt nokkuð og tekið að setja upp munina. Ráðinn var safnvörður, Þórður Friðbjarnarson, byggingarmeistari. Safnið var gert að sjálfseignarstofnun þar sem Akureyrarbær fór með 3/5 hluta, Eyjafjarðarsýsla 1/5 og KEA 1/5.[6] [7] Fljótlega eftir að safnið opnaði fyrir almenning var nafni þess breytt úr Norðlenska byggðasafninu á Akureyri í Minjasafnið á Akureyri.[8]

Tenglar breyta

Tilvitnanir breyta

  1. Arnar Þór Jóhannesson Rannveig Gústafsdóttir (janúar 2020). „Samstarf safna - ábyrgðarsöfn sameining og samvinna safna á Eyþingssvæðinu Janúar 2020“ (PDF). RHA-Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri 2020. Sótt 9. mars 2021.
  2. Minjasafnið á Akureyri. „Minjasafnskirkjan“. Sótt 9. mars 2021.
  3. Arnar Þór Jóhannesson Rannveig Gústafsdóttir (janúar 2020). „Samstarf safna - ábyrgðarsöfn sameining og samvinna safna á Eyþingssvæðinu Janúar 2020“ (PDF). RHA-Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri 2020. Sótt 9. mars 2021.
  4. Arnar Þór Jóhannesson Rannveig Gústafsdóttir (janúar 2020). „Samstarf safna - ábyrgðarsöfn sameining og samvinna safna á Eyþingssvæðinu Janúar 2020“ (PDF). RHA-Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri 2020. Sótt 9. mars 2021.
  5. Ragnar Ásgeirsson (1. desember 1963). „Minjasafnið á Akureyri“. Freyr - 23. - 24. tölublað (01.12.1963). bls. 431-435. Sótt 9. mars 2021.
  6. Tíminn - 158. Tölublað (18.07.1963) (18. júlí 1963). „Minjasafn á Akureyri“. Tíminn - 158. Tölublað (18.07.1963). bls. 15. Sótt 9. mars 2021.
  7. Morgunblaðið - 159. tölublað (18.07.1963) (18. júlí 1963). „Minjasafnið á Akureyri var opnað í gær“. Morgunblaðið - 159. tölublað (18.07.1963. bls. 24. Sótt 9. mars 2021.
  8. Dagur - 46. tölublað (09.08.1963) (9. ágúst 1963). „Frá bæjarstjórn“. Dagur - 46. tölublað (09.08.1963). bls. 2. Sótt 9. mars 2021.