Listasafnið á Akureyri
Listasafnið á Akureyri er stærsta safn sinnar tegundar á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins. Það opnaði 29. ágúst árið 1993 og þar hafa verk fjölda þekktra listamanna verið sýnd. Meðal þeirra eru Rembrandt, Louisa Matthíasdóttir, Erró og Henri Cartier-Bresson. Safnið er til húsa við Kaupvangsstræti 12 í Listagilinu á Akureyri.
Hugmyndin að stofnun listasafns á Akureyri kom upphaflega fram í grein Jónasar Jónssonar frá Hriflu í dagblaðinu Degi á Akureyri 15.maí 1960. Þrír áratugir liðu uns hugmyndin um Listasafnið á Akureyri komst aftur í umræðuna og varð hún loksins að veruleika á afmælisdegi Akureyrarbæjar þann 29.ágúst 1993. Listasafnið á Akureyri er til húsa þar sem áður var Mjólkursamlag KEA.
Þórir Baldvinsson arkitekt hjá Sambandinu hannaði bygginguna sem er undir sterkum áhrifum frá Bauhaus-skólanum og hinni alþjóðlegu funkis hreyfingu. Byrjað var að reisa húsið árið 1937 og tveimur árum síðar hófst starfsemi mjólkurvinnslunnar þar, en því hlutverki gengdi húsið fram til 1980. Í lok síðari heimsstyrjaldar var bætt við geymslu fyrir osta og er það húsnæði nú vestursalur listasafnsins. Fyrsti forstöðumaður Listasafnsins var Haraldur Ingi Haraldsson og gengdi hann starfinu til 1.júní 1999, en Hannes Sigurðsson listfræðingur hefur verið forstöðumaður safnsins síðan þá. Erika Lind Isaksen er safnfulltrúi, en ásamt henni koma margir aðrir að starfseminni, uppsetningarmenn, yfirsetufólk, textasmiðir, hönnuðir og fjöldi annarra aðila.
Listasafnið á Akureyri hefur staðið að útgáfu bóka í tengslum við margar af sýningum safnsins.
Tenglar
breyta- Vefur Listasafnsins á Akureyri Geymt 10 febrúar 2010 í Wayback Machine