Bresk enska er sú enska mállýska sem er töluð og rituð á Bretlandi, eða í víðari skilningi, á Bretlandseyjum. Þó nokkur tilbrigði séu í því staðalritmáli sem notað er á Bretlandi er það að mestu leyti einsleitt og það kallast bresk enska. Hins vegar er töluverð meiri fjölbreytni í bresku talmáli en þekkist annars staðar í heiminum og hæpið er að nota hugtakið „bresk enska“ í því samhengi.

Þegar orðið „bresk enska“ er notað í andstæðu við bandaríska ensku getur það einnig átt við um þær ensku mállýskur sem talaðar eru í Breska samveldinu.

Enska er vesturgermanskt mál ættað frá þeim engilfrísnesku mállýskum sem germanskir landnemar tóku með sér frá norðurhlutum Þýskalands og Hollandi þegar þeir settust að á Bretlandseyjum. Fyrir landnám Germanna töluðu flestir íbúar Bretlandseyja bresku. Breska var eyjakeltnesk mállýska sem hafði sætt áhrifum frá hertöku Rómverja. Eyjakeltnesku málin (velska, korníska og kumbríska) lifðu í sambýli við ensku dagsins í dag en höfðu lítið áhrif á ensku sökum þess hvað þær voru ólíkar henni. Þó hefur verið deilt um keltnesk áhrif á ensku og nýlega hefur verið lagt fram að þær umfangsmiklu nýjungar sem greina ensku frá hinum vesturgermönsku málunum séu þessum áhrifum að þakka.

Fornenska var fjölbreyttur hópur ólíkra enskra mállýskna sem endurspegluðu uppruna sína í hinum ýmsu engilsaxnesku konungsveldum Englands. Ein þessarar mállýskna, vestursaxneska, varð ráðandi. Tvær bylgjur hertöku höfðu sín áhrif á fornensku: í fyrsta lagi Víkingar sem töluðu fornnorrænu og hertóku hluta Bretlandseyja á 8. og 9. öld og í öðru lagi Normannar á 11. öld sem töluðu normannafrönsku. Þessar tvær stóru innrásir festu í sess hefð fyrir að taka orð að láni úr öðrum málum.

Sú hversdaglega og lýsandi enska á engilsaxneskan uppruna. Aftur á móti hefur sú fræðilega og óhlutstæða enska uppruna sinn í frönsku og latínu. Sambýli við Norðurlandabúa leiddi til þess að enska glataði beygingarkerfi sínu að miklu leyti þó einhver merki séu eftir af því. Ofan á þennan germanska kjarna lagðist stór forði orða ættaðra úr rómönsku málunum. Normannafrönsk áhrif komu að mestu leyti í gegnum konungsgarðinn og ríkisstjórnina.

Mállýskur

breyta

Mikil fjölbreytni er mállýskum og hreimi sem fyrirfinnst í þeim fjórum löndum sem heyra undir Bretland. Auk þess er mikill fjölbreytileiki innan hvers lands fyrir sig.

Breskum mállýskum er oft skipt upp í enska ensku, velska ensku (ekki má rugla saman við velsku), írska ensku og skoska ensku (ekki má rugla saman við skosku). Í hverri mállýsku er einnig munur á hvaða orð hafa verið fengin að láni úr öðrum málum.

Flestir Bretar tala með svæðisbundum hreimi eða mállýsku. Aftur á móti tala um það bil 2% Breta með svokölluðu „received pronunciation“ (kallast oftast „Oxford-enska“ eða „drottningarenska“ á íslensku). Sú mállýska á uppruna í mállýskum Miðhéraða og Suður-Englands á 19. öld.

Á Suðuraustur-Englandi eru töluvert mismunandi mállýskur. Til dæmis er Cockney, mállýska sem var sögulega töluð í Austur-London, mjög ólík Oxford-ensku. Cockney-rímslangur er oft, eins og ætlað er, mjög torskildur þeim sem eru ekki þaðan. Notkun svokallaðrar árósarenska (e. Estuary English) hefur verið á uppleið undanfarin ár. Þessi mállýska ber merki bæði Cockney-mállýskunnar og Oxford-ensku. London-mállýskan er í sífellri endurmótun en hefur sætt miklum áhrifum frá mállýskum Karíbahafseyja á undanförnum árum.

Einkenni

breyta

Raddglufulokhljóð

breyta

Á mörgum ensku mállýskum er hljóðanið [/t/] oft borið fram sem raddglufulokhljóð [ʔ] á milli sérhljóða. Þetta framburðareinkenni var einu sinni bundið við Cockney-mállýskuna en hefur breiðst mikið út undanfarin ár. Enn er litið niður á notkun þess inni í orðum eins og later, en það er orðið mjög algengt í lok orða eins og not (eins og í til dæmis no[ʔ] interested). Á Cockney-mállýskunni geta orðið p og k einnig raddglufast milli sérhljóða.

R-brotfall

breyta

Á flestum hlutum Bretlands fyrir utan Skotland er samhljóðið R ekki borið fram nema sérhljóð fylgi. Á þessum svæðum er einnig tilhneiging til að skjóta R-i inn á milli orðs sem endar á sérhljóði og orðs sem byrjar á sérhljóði (t.d. my idea is… > my idear is…).

Tvíhljóðun

breyta

Einhver munur er milli breskra mállýskna hvað varðar tvíhljóðun langra sérhljóða. Í suðurmállýskum eru þau yfirleitt tvíhljóðuð en varðveitast í mörgum norðurmállýskum.

Tengt efni

breyta