Borgarspítalinn

sjúkrahús í Reykjavík

Borgarspítalinn var sjúkrahús sem rekið var í Fossvogi í Reykjavík frá 1967 til 1996 þegar það sameinaðist St. Jósefsspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur voru stofnuð. Sjúkrahús Reykjavíkur sameinuðust síðan Landspítala árið 2000 þegar Landspítali Íslands - Háskólasjúkrahús var stofnaður.

Vetrarmynd frá Fossvogi þar sem spítalinn sést hægra megin.

Eftir sameiningu heitir Borgarspítalinn Landspítalinn Fossvogi, þótt sumir noti enn gamla heitið. Þar eru bráðamóttaka, gjörgæsla og ónæmisdeildir Landspítala, ásamt öðrum deildum, en til stendur að sameina starfsemi spítalans við Hringbraut.

Saga breyta

Ákvörðun um byggingu borgarsjúkrahúss var tekin af borgarráði Reykjavíkur árið 1948 þegar mikill skortur var á sjúkrarúmum í borginni, en engin áform voru uppi um stækkun Landspítalans. Ákvað undirbúningsnefnd að ráðst skyldi í gerð sjúkrahúss með 325 rúmum í Fossvogsdal. Arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson voru fengnir til að hanna spítalabygginguna og héldu þeir til útlanda til að kynna sér sambærileg mannvirki erlendis. Gunnar lést á árinu 1959 og lauk Einar því einn við hönnun hússins.

Grunnur spítalans var grafinn árið 1952 og hófst steypuvinna tveimur árum síðar. Framkvæmdir tóku langan tíma og spilaði þar eflaust inn í að um sama leyti var loksins ráðist í stækkun á Landspítalanum, sem ríkissjóður stóð alfarið undir á sama tíma og ríkið greiddi stærstan hluta af byggingu Borgarspítala.

Á meðan beðið var eftir hinu nýja sjúkrahúsi var ákveðið að innrétta tvær efstu hæðir Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg sem spítala. Nefndist sú starfsemi í fyrstu Bæjarspítalinn en Borgarspítalinn frá árinu 1962 þegar nafni Reykjavíkurbæjar var breytt í Reykjavíkurborg.

Fyrsti sjúklingurinn lagðist inn á Borgarspítalann í Fossvogi þann 28. september 1967. Þangað fluttust í kjölfarið ýmsar helbrigðisstofnanir sem reknar höfðu verið á vegum borgarinnar, svo sem slysavarðstofa og rannsóknarstofa sem áður voru í Heilsuverndarstöðinni, geðdeild sem áður var í Farsóttarhúsinu og sjúkrahúsrekstur sá sem Hvítabandið hafði haft með höndum við Skólavörðustíg. Árið 1973 fékk spítalinn til umráða allstórt húsnæði í nágrenninu sem notað var til endurhæfingar og hlaut nafnið Grensásdeild. Ýmis önnur útibú hafa verið starfrækt í gegnum tíðina utan aðalbyggingarinnar, s.s. fæðingarheimili, langtímavistun fyrir geðsjúka og öldrunardeild.

Nýrri álmu fyrir bráðamóttöku á þremur hæðum var bætt við 1978.

Heimildir breyta

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.