Einar Sveinsson

íslenskur arkitekt

Einar Sveinsson (16. nóvember 190612. mars 1973) var arkitekt sem átti ríkan þátt í að móta ásýnd Reykjavíkur á 20. öld.

Einar Sveinsson fæddist í Reykjavík og útskrifaðist úr MR. Hann tók lokapróf frá tækniháskólanum í Darmstadt, Þýskalandi árið 1932 og fluttist þá til Reykjavíkur og hóf rekstur teiknistofu. Árið 1934 var Einar ráðinn húsameistari Reykjavíkur og gegndi því starfi til æviloka árið 1973.

Einar gerði drög að heildarskipulagi Reykjavíkur innan Elliðaáa og skipulagði ásamt samstarfsmönnum mörg þekkt íbúðarhverfi í Reykjavík. Hann setti svip sinn á Melahverfið í Vesturbænum (107), Norðurmýrina og eldri hluta Hlíðanna (105). Hann var helsti brautryðjandi fúnskjónalismans eða Funkisstíls á Íslandi og bera þessi hverfi svipaða eiginleika. Auk þess að teikna opinberar byggingar var Einar Sveinsson merkur brautryðjandi í hönnun íbúðarhúsa og höfðu hugmyndir hans víðtæk áhrif á reykvíska húsagerð um og eftir seinni heimstyrjöld. Hann teiknaði fyrstu fjölbýlishúsin með nútímasniði við Hringbraut árið 1942 og rúmum áratug síðar hannaði hann fyrsta íbúðarháhýsið í Reykjavík á vegum Byggingarsamvinnufélags prentara, en það er blokkin á horni Laugarnesvegar og Kleppsvegar. Einnig teiknaði hann Prentarabústaðina við Hagamel.

Helstu byggingar sem hann teiknaði fyrir borgina voru: Laugarnesskóli, Melaskóli, Langholtsskóli, Heilsuverndarstöð Reykjavíkur að innanverðu (teiknuð ásamt Gunnari H. Ólafssyni), Borgarspítalinn, Vogaskóli og Sundlaugarnar í Laugardal. Þá var hann annar tveggja arkitekta Íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu.

Tenglar breyta