William "Bill" Alison Anders (fæddur 17. október 1933, dáinn 7. júní 2024) var bandarískur geimfari og síðar sendiherra. Hann var tunglferjuflugmaður í þriggja manna áhöfn Apollo 8 leiðangursins árið 1968, ásamt Frank Borman og Jim Lovell. Þeir þrír voru fyrstir til að yfirgefa sporbraut Jarðar, fljúga til og fara á sporbraut um Tunglið. Þeir voru einnig fyrstir til að sjá bakhlið tunglsins. Á braut um Tunglið tók Bill hina frægu ljósmynd „Jarðarupprás“. Galen Rowell hjá National Geographic tímaritinu hefur kallað myndina þá áhrifamestu sem tekin hefur verið af jörðinni.[1] Auk þess varð Bill fyrstur manna til að taka mynd af jörðinni í heild sinni, en menn höfðu þá aldrei ferðast jafn langt frá jörðinni.[2] Bill var í varaáhöfn Apollo 11 leiðangursins árið 1969. Hann er einn af aðeins 24 einstaklingum sem flogið hafa til tunglsins.[3] Anders lést í flugslysi, níræður að aldri, árið 2024. [4]

William Alison Anders
Bill Anders á Íslandi árið 2013.
Bill Anders á Íslandi árið 2013.
Fæddur 17. október 1933(1933-10-17)
Hong Kong
Látin(n) 6. júlí 2024
San Juan, Washingtonfylki
Flugslys
Tími í geimnum 6 dagar, 3 klukkustundir, 0 mínútur og 42 sekúndur
Verkefni Apollo 8

Æfingar á Íslandi

breyta

Aðalgrein: Æfingar tunglfara í Þingeyjarsýslum

Árið 1965 kom hópur bandarískra geimfara til æfinga á Íslandi og var Bill Anders meðal þeirra. Hann hafði áður dvalið við skyldustörf í herstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og var því kunnugur staðháttum. Hann kom aftur til æfinga á Íslandi árið 1967 og var félagi hans Neil Armstrong þá með í för.[5] Árið 2013 heimsótti Bill Ísland á ný og fór á gömlu æfingarstaði geimfaranna, m.a. í Nautagil, Drekagil og Öskju.

Apollo 8

breyta

Apollo 8 var fyrsta flugið til tunglsins. Leiðangurinn lagði af stað 21. desember 1968 og fór á braut um tunglið að kvöldi 23. desember. Geimfarið fór tíu hringi kringum tunglið áður en því var skotið aftur til jarðar. Áhöfnin lenti heilu og höldnu í Kyrrahafinu þann 27. desember 1968. Neil Armstrong og Buzz Aldrin voru í varaáhöfn Apollo 8 ásamt Fred W. Haise og þjálfuðu þeir með áhöfn Apollo 8 fyrir leiðangurinn.

Tilvísanir

breyta
  1. Steve Kessinger. „Earthise“. Heritage Flight Museum. http://www.heritageflight.org/content/about-2/our-history/earthrise/ Geymt 6 október 2013 í Wayback Machine. (Skoðað 1.10.2013).
  2. Apollo 8. NASA. http://www.nasa.gov/mission_pages/apollo/missions/apollo8.html. (Skoðað 1.10.2013).
  3. „Project Apollo“. NASA. http://www.nasa.gov/mission_pages/apollo/index.html Geymt 3 janúar 2018 í Wayback Machine. (Skoðað 1.10.2013).
  4. Nasa Earthrise astronaut dies at 90 in planecrash BBC, sótt 8. júní 2024
  5. Örlygur Hnefill Örlygsson. „The day Neil Armstrong set his foot on Iceland“. goIceland. http://www.goiceland.is/2012/08/the-day-neil-armstrong-set-his-foot-on-iceland/ Geymt 3 nóvember 2013 í Wayback Machine. (Skoðað 1.10.2013).

Tenglar

breyta