Beate Klarsfeld
Beate Klarsfeld, fædd undir nafninu Beate Auguste Künzel (13. febrúar 1939) er þýskur blaðamaður sem varð fræg á 20. öld fyrir að vinna ásamt eiginmanni sínum, Serge Klarsfeld, að því að rannsaka og afhjúpa stríðsglæpamenn úr röðum nasista.
Beate Klarsfeld | |
---|---|
Fædd | 13. febrúar 1939 |
Þjóðerni | Þýsk |
Störf | Blaðamaður, aðgerðasinni |
Maki | Serge Klarsfeld (g. 1963) |
Börn | 2 |
Klarsfeld vakti athygli vegna harðrar andstöðu sinnar gegn gömlum nasistum sem reyndu að sitja áfram í valdastöðum í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Á flokksþingi Kristilega demókrataflokksins þann 7. nóvember árið 1968 löðrungaði hún kanslara Þýskalands, Kurt Georg Kiesinger, og kallaði hann nasista.[1] Næst beindi hún spjótum sínum gegn Ernst Achenbach, sem var þá þingmaður á þýska ríkisþinginu en hafði verið nasisti til ársins 1945 og hafði átt þátt í því að safna saman og flytja Gyðinga frá Frakklandi í útrýmingarbúðir.[2][3] Þýsk stjórnvöld hugðust útnefna Achenbach í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins en útnefning hans var dregin til baka eftir að Klarsfeld vakti athygli á máli hans. Aðgerðir Klarsfeld settu sterkan svip á þýskt stjórnmálalíf á sjöunda og áttunda áratuginum.
Ásamt frönskum eiginmanni sínum, Serge, benti Klarsfeld í blaðagreinum og á mótmælasamkomum á fyrrum nasista sem gengu frjálsir í Þýskalandi þrátt fyrir að hafa verið dæmdir sekir fyrir stríðsglæpi af frönskum dómstólum. Meðal gömlu nasistanna sem hún benti á voru:
- Kurt Lischka, liðsmaður SS-sveitanna sem hafði safnað saman Gyðingum í París í júlí árið 1942. Árið 1971 reyndi Klarsfeld að ræna Lischka og flytja hann til Frakklands svo hægt yrði að rétta yfir honum þar. Henni mistókst ætlunarverkið og var dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir uppátækið.[4]
- Herbert Hagen, skipuleggjandi sem hafði unnið við gerð áróðurs gegn Gyðingum fyrir SS-sveitirnar og staðið fyrir útflutningi Gyðinga frá Bordeaux í janúar árið 1942.
- Klaus Barbie, leiðtogi Gestapo í Lyon sem hafði skipað flutning 44 barna af Gyðingaættum í útrýmingarbúðir í Izieu.
Með stuðningi Alþjóðaráðs gyðinga stofnaði Klarsfeld Beate Klarsfeld-stofnunina og tók þátt í ýmsum aðgerðum til að halda minningunni um Helförina á lofti. Hún var lýst riddari frönsku heiðursorðunnar árið 1984 og var sæmd riddaraorðu frönsku heiðursfylkingarinnar árið 2007[5] af Jacques Chirac Frakklandsforseta. Hún hlaut riddarakross frönsku heiðursorðunnar í maí árið 2011.[6]
Í febrúar árið 2012 studdi þýski Vinstriflokkurinn framboð Klarsfeld í embætti forseta Þýskalands.[7] Hún tapaði fyrir prestinum og mannréttindafrömuðinum Joachim Gauck, sem hlaut 991 atkvæði á sambandsþinginu en Klarsfeld aðeins 126.[8]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Fyrst sló hún kanzlarann... -nú býður hún sig fram gegn honum“. Alþýðublaðið. 20. maí 1969. Sótt 13. maí 2019.
- ↑ „Zeitungsartikel zur Bürobesetzung am 4“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. maí 2019. Sótt 13. maí 2019.
- ↑ „Achenbach – Hinn svarti sauður Bonn-stjórnar“. Alþýðublaðið. 2. ágúst 1974. Sótt 13. maí 2019.
- ↑ „Beate Klarsfeld dæmd í tveggja mánaða fangelsi“. Þjóðviljinn. 13. júlí 1974. Sótt 13. maí 2019.
- ↑ Journal officiel n° 84 du 8 avril 2007, page 6583
- ↑ Decret du 13 mai 2011. J.O. du 15 mai 2011.
- ↑ „Nasistaveiðarinn sem löðrungaði kanslarann“. Morgunblaðið. 4. mars 2012. Sótt 13. maí 2019.
- ↑ Entscheidung in Berlin – Joachim Gauck ist Bundespräsident In: Spiegel Online, bls. 18.