Vinstriflokkurinn (Þýskaland)
Vinstriflokkurinn eða Vinstrið (þýska: Die Linke) er þýskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður árið 2007 með samruna Lýðræðislega sósíalistaflokksins og WASG, klofningshreyfingar úr Jafnaðarmannaflokknum. Í gegnum Lýðræðislega sósíalistaflokkinn er Vinstriflokkurinn beinn arftaki Sósíalíska einingarflokksins, sem stýrði kommúnísku flokksræði í Austur-Þýskalandi frá 1948 til 1989.
Vinstriflokkurinn Die Linke | |
---|---|
Fylgi | 4,9%¹ |
Formaður | Janine Wissler Susanne Hennig-Wellsow |
Varaformaður | |
Stofnár | 16. júní 2007 |
Höfuðstöðvar | Karl-Liebknecht-Haus Kleine Alexanderstraße 28 D-10178 Berlín |
Félagatal | 60.350[1] |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Sósíalismi, vinstri-popúlismi, andkapítalismi, andfasismi, friðarhyggja |
Einkennislitur | Fjólublár |
Sæti á sambandsþinginu | |
Sæti á sambandsráðinu | |
Sæti á Evrópuþinginu | |
Vefsíða | die-linke.de |
¹Fylgi í þingkosningum 2021 |
Vinstriflokkurinn kennir sig við andkapítalisma, andfasisma og friðarhyggju. Flokkurinn er hlutlaus í afstöðu sinni til Evrópusamruna. Þar sem flokkurinn er sá vinstrisinnaðasti af flokkunum á þýska sambandsþinginu er hann stundum skilgreindur sem öfgavinstriflokkur eða vinstrisinnaður popúlistaflokkur. Flokkurinn er stofnaðili að Evrópska vinstriflokknum.
Söguágrip
breytaLýðræðislegi sósíalistaflokkurinn (þ. Partei des Demokratischen Sozialismus) var sósíalískur stjórnmálaflokkur sem var myndaður sem lagalegur arftaki Sósíalíska einingarflokksins (þ. Sozialistische Einheitspartei Deutschlands eða SED), hins kommúníska stjórnarflokks þýska alþýðulýðveldisins. Lýðræðislegi sósíalistaflokkurinn var myndaður við endalok kommúnistastjórnarinnar í Austur-Þýskalandi og hélt áfram störfum eftir sameiningu Þýskalands árið 1991.
Grasrótarhreyfing lýðræðissinna sem þvingaði austur-þýska kommúnistaleiðtogann Erich Honecker til að segja af sér árið 1989 leiddi einnig af sér uppgang kynslóðar ungra umbótasinna innan SED sem litu til umbótastefnu Míkhaíls Gorbatsjov í Sovétríkjunum (perestrojka og glasnost) sem fyrirmynd að nýrri stjórnarstefnu. Umbótasinnar á borð við rithöfundana Stefan Heym og Christu Wolf og mannréttindalögfræðinginn Gregor Gysi brutust fljótt til áhrifa innan flokksins og þegar Sósíalíski einingarflokkurinn var leystur upp í lok ársins 1989 höfðu allir gömlu meðlimir miðstjórnarinnar sagt af sér.
Undir nýrri stjórn skipti flokkurinn um nafn og tók upp nafnið Lýðræðislega sósíalistaflokkinn til að draga úr tengslum við kommúníska valdboðsstefnu í fortíð sinni. Frá árinu 1990 skilgreindi flokkurinn sig ekki lengur sem marx-lenínískan flokk, þótt áfram hafi verið minnihlutahópur meðlima innan hans sem enn skilgreindu sig sem kommúnista.
Þann 17. júlí árið 2005 gekk Lýðræðislegi sósíalistaflokkurinn í kosningabandalag undir nafninu Vinstriflokkurinn (þ. Die Linkspartei) ásamt stjórnmálahreyfingunni WASG (Arbeit und soziale Gerechtigkeit – Die Wahlalternative). Oskar Lafontaine, fyrrum áhrifamaður innan Jafnaðarmannaflokksins, hafði myndað WASG vegna ágreinings við Gerhard Schröder kanslara, sem Lafontaine taldi hafa vikið Jafnaðarmannaflokknum of langt til hægri á stjórnartíð sinni. Kosningabandalag flokkanna tveggja bauð fram í fyrsta sinn í þingkosningum Þýskalands árið 2005 og hlaut þá rúm átta prósent atkvæðanna.[2] Flokkarnir tveir sameinuðust formlega þann 16. júní 2007 undir nafninu Die Linke.[3]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Parteimitglieder: Grüne legen zu, AfD und SPD verlieren“. RedaktionsNetzwerk Deutschland (þýska). 14. febrúar 2021.
- ↑ Arthúr Björgvin Bollason (19. september 2005). „Söguleg úrslit“. Morgunblaðið. bls. 26-27.
- ↑ Hlynur Halldórsson (15. júní 2007). „Vinstriflokkurinn formlega stofnaður á morgun“. Morgunblaðið. bls. 10.