Burrhus Frederic Skinner

(Endurbeint frá B. F. Skinner)

Burrhus Frederic Skinner (20. mars 190418. ágúst 1990) var bandarískur sálfræðingur sem oft er talinn upphafsmaður róttækrar atferlishyggju. Kenningar hans höfðu mikil áhrif á sálfræði á 20. öld en voru mjög gagnrýndar fyrir miðja öld, meðal annars vegna þess að aðferðir hans þóttu ómannúðlegar, en mikilvægi hans hefur aukist á síðari tímum, til dæmis innan hugfræði.

Æviágrip

breyta

Skinner fæddist í smábænum Susquehanna í Bandaríkjunum. Eftir að skólagöngu hans lauk ákvað Skinner að gerast rithöfundur en skrifaði lítið. Hann starfaði sem afgreiðslumaður í bókabúð þar sem hann komst m.a. í kynni við sálfræðikenningar Pavlovs og Watsons. 24 ára skráði hann sig í framhaldsnám í sálfræði við Harvard-háskóla.

Skinner bjó til svokallað Skinnerbúr þar sem hann gat mælt viðbrögð rotta. Þar komst hann að því að hegðun rottanna stjórnaðist af afleiðingum sínum. Í framhaldinu setti Skinner fram kenninguna um virka skilyrðingu. Skinner fékk svo rannsóknarstyrk og gat þannig einbeitt sér að rannsóknum sínum. Þær birti hann árið 1938 í bók sinni Hegðun lífvera (en: The Behavior of Organisms).

Þegar Skinner var 32 ára fékk hann starf sem kennari í Minnesota. Í Heimsstyrjöldinni síðari vann hann að rannsóknum á því hvernig ætti að fá dúfur til að stjórna flugskeytum. Þeim rannsóknum var hætt vegna þess að herinn fór að einbeita sér að ratsjám, en Skinner hélt þó áfram rannsóknum sínum á dúfum.

Árið 1948 var Skinner boðin staða við Harvard þar sem hann hélt fyrirlestra fyrir nýnema. Fyrirlestrarnir voru síðan gefnir út í bókinni Science and Human Behavior árið 1953. Af honum er sögð sú saga að dag einn árið 1953 hafi hann farið með dóttur sinni í skólann til að fylgjast með henni í stærðfræðitíma (það var feðradagur). Þar sá hann að aðferðir kennarans brutu í bága við nánast allar kenningar Skinners um árangursríkt nám. Í virkri skilyrðingu ræðst hegðunin af afleiðingum sínum. Umbuna verður fyrir rétta hegðun en hundsa ranga hegðun. Í skólanum voru viðbrögð við því sem nemendur gerðu aftur á móti handahófskennd, að mati Skinners. Sumir nemendur lærðu hratt og spændu í gegnum verkefni, sumir skildu lítið og gátu ekki leyst verkefnin. Þar sem kennarinn þurfti að hafa umsjón með tuttugu til þrjátíu nemendum gat hann ekki fylgt þeim öllum og nemendurnir fengu svörin seint, jafnvel ekki fyrr en næsta dag.

Skinner hóf að einbeita sér að því hvernig menn læra og hvernig best væri að kenna þeim. Þremur árum síðar hafði hann búið til forrit þar sem verkefni voru bútuð niður eftir getu fólks og forritið líktist helst kennara sem hlýddi einum nemanda yfir í einu, sem virtist augljós framför frá þrjátíu manna bekk. Í byrjun voru gefnar vísbendingar sem smám saman fækkaði eftir því sem námsefnið þyngdist. Rannsóknir hans vöktu mikla athygli en vegna skorts á peningum, og sérstaklega vegna vanþróaðrar tölvutækni, náði það ekki mikilli útbreiðslu. Árið 1968, sama ár og Skinner gaf út bók um nám, var framleiðslu efnisins hætt.

Á síðari árum sneri Skinner sér að heimspekilegri vangaveltum og hann var virkur í ræðu og riti allt þar til hann lést.

Áhrif Skinners voru mikil og hann er einn af frægustu sálfræðingum 20. aldar. Hann hafði mikil áhrif á sálfræðina og átti sinn þátt í að beina sjónum þeirra frá sálaraflskenningum og frá hinu dularfulla innra sálarlífi þess tíma og í átt að því mælanlega: Hegðun mannsins.

Skinner gagnrýndur

breyta

Hugmyndir Skinners og annarra atferlissinna voru nær allsráðandi í sálfræði á fyrri hluta 20. aldar. Um miðbik aldarinnar fóru þó að heyrast gagnrýnisraddir. Málfræðingurinn Noam Chomsky er líklega einn þekktasti gagnrýnandi Skinners. Hann taldi að lögmál atferlissinna gætu ekki skýrt hvernig fólk lærði tungumál, og væru því ekki nægjanleg til að skýra allt mannlegt nám. Þessi atburður er oft talinn marka upphaf annarrar stefnu innan sálfræðinnar, hugfræðinnar.

Ritstörf

breyta

Tenglar

breyta
  • „Hver var Burrhus Frederic Skinner og hvert var framlag hans til vísindanna?“. Vísindavefurinn.