Bókmenntarýni í fornöld

Bókmenntarýni í fornöld er bókmenntarýni sú er ástunduð var í fornöld. Bókmenntarýni felur í sér rannsókn á, umfjöllun um, mat og túlkun á bókmenntum. Sennilega er bókmenntarýni jafngömul bókmenntunum en vestræn bókmenntarýni á rætur að rekja til forngrískra höfunda sem hófu fræðilega ástundun bókmenntarýni.

Saga bókmenntarýninnar í fornöld breyta

Upphaf bókmenntarýninnar breyta

Eitt elsta og mikilvægasta rit um bókmenntarýni í fornöld er gamanleikur Aristófanesar Froskarnir en það vann til verðlauna á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 405 f.Kr. Í leikritinu etur Aristófanes saman harmleikjaskáldunum Æskýlosi og Evrípídesi og ber saman ólíkan stíl þeirra og viðhorf. Evripídes og Æskýlos, sem eru báðir látnir í leikritinu, keppa um sæti mesta harmleikjaskáldsins við kvöldverðarborið í Hadesarheimum. Guðinn Díonýsos, sem var kominn að sækja Evripídes vegna skorts á skáldum í uppheimum, á að dæma. Evripídes heldur því fram að persónur sínar séu betri vegna þess að þær eru rökréttari og raunsærri en Æskýlos telur að fullkomnari persónur í leikritum sínum séu betri því þær séu betri fyrirmyndir. Æskýlos vinnur keppnina og fær að fara með Díonýsosi en lætur Sófóklesi eftir sæti sitt meðan hann er í burtu.

Árásir Platons á skáldskapinn sem annars stigs eftirlíkingu, sem væri einskis virði, voru lengi afar áhrifamiklar. Þær er einkum að finna í 2., 3. og 10. bók samræðunnar Ríkið en svo virðist sem afstaða hans í garð skáldskapar hafi síðar mildast þónokkuð. Samræðan Jón er einnig mikilvæg en hún fjallar um skáldlegan innblástur og það hvort skáldskapur sé listgrein eða kunnáttugrein (tekne) eða ekki.

Á 4. öld f.Kr. skrifaði Aristóteles Um skáldskaparlistina, bók um bókmenntir og bókmenntagreinar með ítarlegri umfjöllun um ýmis samtímaverk. Aristóteles var jákvæðari í garð skáldskapar en lærifaðir hans, Platon. Í Um skáldskaparlistina beitir Aristóteles í fyrsta sinn hugtökunum „mimesis“ (eftirlíking) og „kaþarsis“ (hreinsun), sem enn eru mikilvæg í bókmenntafærði. Um skáldskaparlistina var mikilvægasta rit bókmenntafræðinnar alveg fram á 19. öld. Ritgerð rómverska skáldsins Hóratíusar, Skáldskaparlistin (Ars poetica) er samin í anda Aristótelesar.[1]

Helleníski tíminn breyta

Á helleníska tímanum stunduðu fræðimenn í Alexandríu bókmenntarýni og textafræði af mikilli natni. Það er ekki síst þeim að þakka að margir textar grískra bókmennta hafa varðveist til okkar dags, t.d. Ilíonskviða og Ódysseifskviða Hómers. Merkastir alexandrísku fræðimannanna voru Zenódótos, Aristófanes frá Býzantíon og Aristarkos frá Samóþrake.

Díonýsíos frá Halikarnassos er mikilvæg heimild frá 1. öld f.Kr. Hann samdi m.a. ýmsar ritgerðir um mælskufræði. Rit hans Um orðaskipan (Περι Συνθησεως Ονοματων) fjallaði um orðaröð í mismunandi gerðum kveðskapar. Um eftirlíkingu (Περι Μιμησεως) fjallar um bestu fyrirmyndirnar í ólíkum bókmenntagreinum og hvernig bæri að líkja eftir þeim. Hann samdi einnig skýringarrit við ræður attísku ræðumannanna (Περι των Αττικων Ρητορων) sem fjallaði einkum um stíl og efnistök Lýsíasar, Ísajosar og Ísókratesar. Verkið Um hinn aðdáunarverða stíl Demosþenesar (Περι λεκτικης Δημοσθενους δεινοτητος) fjallaði um stíl Demosþenesar sérstaklega.

Bókmenntarýni á keisaratímanum í Róm og í síðfornöld breyta

Tveir mikilvægir bókmenntarýnar 1. aldar voru Longínos og Quintilianus. Verk Longínosar, Um hið háleita (Περὶ ὕψους), fjallar einkum um áhrifamátt góðra bókmennta og er ásamt riti Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, mikilvægasta rit fornaldar um bókmenntarýni. Marcus Fabius Quintilianus var rómverskur kennari í mælskufræði. Hann samdi rit um menntun og vitsmunalegt uppeldi ræðumanna en í ritinu, Um menntun ræðumannsins (Institutio oratoria), er að finna margvíslega umfjöllun um bæði grískan og latneskan kveðskap, sagnaritun, heimspeki og ræðumennsku. Mat Quintilianusar á fornum höfundum hefur verið afar áhrifamikið og var snar þáttur í mótun smekks nútímamanna á verkum fornaldar.

Neðanmálsgreinar breyta

  1. Skáldskaparlistin er annað heiti á verkinu Epistula ad Pisones eða Bréf til Písónanna.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Literary criticism“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 25. júlí 2006.

  • Murray, Chris (ritstj.), Encyclopedia of Literary Critics and Criticism (London: Fitzroy Dearborn, 1999).

Frekara lesefni breyta

Ford, Andrew, The Origins of Criticism. Literary Culture and Poetic Theory in Classical Greece (Princeton: Princeton University Press, 2002).

Tenglar breyta