Anna Borg

íslensk leikkona (1903-1963)

Anna Borg (30. júlí 1903 - 14. apríl 1963) var íslensk leikkona. Ásamt Haraldi Björnssyni var hún fyrst Íslendinga til að leggja stund á nám í leiklist við leiklistarskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn.

Æviferill

breyta

Anna hét fullu nafni Anna Guðmundína Guðrún Borgþórsdóttir og var dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu og Borgþórs Jósefssonar bæjargjaldkera í Reykjavík. Hún kom fyrst fram á leiksviði sem barn, m.a. átta ára gömul sem Tóta í Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar, sem Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi 1911. Hún tók þátt í leikferð móður sinnar um Íslendingabyggðir í Vesturheimi 1920-1921 en fyrsta hlutverk hennar hjá Leikfélaginu utan barnahlutverka var Signý í Veislunni á Sólhaugnum eftir Henrik Ibsen í desember 1924. Í apríl 1925 lék Anna á móti danska leikaranum og leikstjóranum Adam Poulsen í ævintýraleiknum Einu sinni var eftir Holger Drachmann, en Poulsen leikstýrði sýningunni sem gestur félagsins. Með stuðningi hans fékk Anna ásamt Haraldi Björnssyni inngöngu í leiklistarskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn og luku þau þaðan prófi 1927.

Haraldur hélt til Íslands eftir útskrift, en Anna varð um kyrrt í Danmörku og var ráðin leikkona við Konunglega leikhúsið 1929. Þar starfaði hún til dauðadags að undanskildum árunum 1934-1938 þegar hún lék við Dagmar-leikhúsið i Kaupmannahöfn. Meðal þekktustu hlutverka hennar á dönsku leiksviði má nefna Margréti í Faust Goethes, Dóttur Indra í Draumleik eftir August Strindberg, Elísabetu Englandsdrottningu í Maríu Stuart eftir Schiller og Lauru í Föður Strindbergs. Anna kom öðru hverju til Íslands og lék, t.d. Höllu í uppsetningu Haraldar Björnssonar á Fjalla-Eyvindi 1930 og Jóhönnu af Örk í sýningu Þjóðleikhússins á verki George Bernard Shaw, Heilög Jóhanna 1951.

Árið 1932 giftist Anna Poul Reumert, einum helsta leikara og leikstjóra Dana. Þau hjónin léku töluvert saman og komu nokkrum sinnum til Íslands í leikferðir. Anna lék í tveimur dönskum kvikmyndum árið 1945, Affæren Birte og De Kloge og vi Gale, í bæði skiptin á móti eiginmanni sínum.

Upp úr 1950 tóku skjaldkirtilsveikindi að hrjá Önnu og af þeim sökum hætti hún um tíma að leika. Síðustu árin urðu hlutverkin færri og hún sneri sér í auknum mæli að leikstjórn og kennslu. Auk leikstjórnar á leikritum og óperum leikstýrði hún tveimur sjónvarpsmyndum.

Anna Borg hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1938, dönsku orðuna Ingenio et arti 1941 og hina sænsku Litteris et Artibus 1932.

Anna fórst í Hrímfaxa-slysinu á páskadag 1963 þegar flugvél Flugfélags Íslands hrapaði í aðflugi að Fornebu-flugvelli í Osló.

Endurminningar Önnu Borg komu út á dönsku 1964 og á íslensku ári síðar.

Heimildir

breyta

Anna Borg. Endurminningar. Poul Reumert safnaði og gaf út. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1965.

Jón Viðar Jónsson. "Poul Reumert og Anna Borg." Vefsíða Minningarsjóðs Stefaníu Guðmundsdóttur. Geymt 30 ágúst 2018 í Wayback Machine