Andrej Sakharov
Andrej Dmítríjevítsj Sakharov (rússneska: Андре́й Дми́триевич Са́харов; 21. maí 1921 – 14. desember 1989) var sovéskur kjarneðlisfræðingur, aðgerðasinni og mannréttindafrömuður. Hann tók þátt í þróun fyrstu sovésku kjarnorkusprengjunnar og er þekktur sem höfundur þriðju hugmyndar Sakharovs. Á 6. áratugnum stakk hann upp á tæki fyrir stýrðan kjarnasamruna, Tokamak, sem síðar var smíðaður af hópi vísindamanna undir stjórn Lev Artsímovítsj. Eftir 1965 hóf hann rannsóknir á sviði öreindafræði og heimsfræði.
Í upphafi 7. áratugarins hóf hann baráttu sína gegn útbreiðslu kjarnavopna og fyrir auknum mannréttindum í Sovétríkjunum. Afleiðingin var sú að hann lenti undir smásjá yfirvalda og eftir að hann var tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels 1973 stimpluðu fjölmiðlar í Sovétríkjunum hann svikara ásamt Aleksandr Solzhenítsyn. Honum voru veitt friðarverðlaunin árið 1975 en fékk ekki að taka við þeim. Þann 22. janúar 1980 var hann handtekinn í kjölfar mótmæla gegn innrás Sovétríkjanna í Afganistan. Hann var sendur í útlegð til borgarinnar Nízhníj Novgorod þar sem lögreglan fylgdist grannt með honum. Tvisvar, 1984 og 1985, fór hann í hungurverkfall til að knýja á um að eiginkona hans, Jelena Bonner, fengi að fara til hjartaskurðlæknis í Bandaríkjunum en í bæði skiptin var hann fluttur á spítala og matur neyddur ofan í hann.
Árið 1985 stofnaði Evrópuþingið Sakharov-verðlaunin fyrir skoðanafrelsi og árið eftir lauk útlegð hans þegar Míkhaíl Gorbatsjov bauð honum að snúa aftur til Moskvu. Þar átti hann þátt í stofnun stjórnmálasamtaka sem voru virk í stjórnarandstöðu síðustu ár Sovétríkjanna.