Almennir vextir
Almennir vextir eru vextir sem skal greiða af af peningaláni eða sambærilegri fjárskuldbindingu. Á Íslandi ríkir almennt samningsfrelsi um vexti en að meginreglu er aðeins heimilt að innheimta fyrirfram umsamda vexti og geta samningsákvæði þar að lútandi verið með margvíslegu móti. Hafi hinsvegar verið samið um vexti en vaxtaviðmiðun eða prósenta þeirra ekki tilgreind, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum útlánum hjá lánastofnunum.
Samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 ber lánastofnunum að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim, jafnt verðtryggðum sem óverðtryggðum, og eru þær upplýsingar lagðar til grundvallar ákvörðunum um almenna vexti til viðmiðunar. Þannig er bæði um að ræða mælikvarða á vaxtakjör á lánamarkaði, og í senn opinbera viðmiðunarvexti. Vegna hlutverks seðlabankans í ákvörðun þeirra vaxta hafa þeir stundum verið kallaðir seðlabankavextir í daglegu tali.
Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands í júní 2010 þess efnis að óheimilt væri að tengja fjárskuldbindingar við gengi erlendra gjaldmiðla með svokallaðri gengistryggingu, var lögum um vexti og verðtryggingu breytt með lögum nr. 151/2010. Var þá meðal annars kveðið á um að í slíkum tilvikum skyldi endurreikna lán eins og ef það hefði borið almenna vexti Seðlabanka Íslands frá upphafi og skyldi það jafnframt bera þá vexti til framtíðar, en þeir vextir höfðu sögulega verið talsvert hærri en hinir umsömdu vextir slíkra lána í flestum tilvikum. Var breytingin því mjög umdeild og meðal annars gagnrýnd fyrir inngrip í áður gerða samninga. Auk þess færi hún gegn 1. mgr. 14. laga um neytendalán nr. 121/1994[1] og 36. gr. c. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936[2], sem væru sérákvæði á sviði neytendaréttar og ættu því að ganga framar almennum vaxtalögum þegar um neytendalán væri að ræða. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011[3] var komist að þeirri niðurstöðu að það færi gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár[4] að beita lögunum með afturvirkum hætti sem væri íþyngjandi fyrir skuldara, enda hefði hann fengið ígildi fullnaðarkvittunar fyrir greiðslu vaxta fyrir liðna tíð í hvert sinn sem greitt var af láninu. Þessi sjónarmið hafa síðan verið staðfest í fleiri dómum.
Tenglar
breytaTengt efni
breytaTilvísanir
breyta- ↑ http://www.althingi.is/lagas/142/1994121.html#G14 Lög um neytendalán, nr. 121/1994, 1. mgr. 14. gr.: Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.
- ↑ http://www.althingi.is/lagas/nuna/1936007.html#G36C Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, 3. mgr. 36. gr. c.: Ef ósanngjörnum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
- ↑ http://www.haestirettur.is/domar?nr=7876 Hæstiréttur Íslands, 15. febrúar 2012. Dómur í máli nr. 600/2011. Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira Mendez Pinedo gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.
- ↑ http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html#G72 Lög um stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. 1. mgr. 72. gr.: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.