Neytendalán er lán samkvæmt lánssamningi sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur. Þar á meðal eru flest lán sem almenningur tekur jafnan hjá bönkum og öðrum fyrirtækjum eða aðilum sem stunda lánastarfsemi, svo sem vegna kaupa á fasteignum, farartækjum og öðru lausafé eða til hverskonar einkanota.

Lög um neytendalán

breyta

Á Íslandi gilda sérstök lög um neytendalán en með þeim hafa sameiginlegar reglur evrópska efnahagssvæðisins um neytendalán verið innleiddar í íslenskan rétt. Slík lög voru fyrst sett árið 1993 í tengslum við gerð EES-samningsins til þess að samræma íslenskan rétt við þann samevrópska, en meginefni þeirra lýtur að skýrleika samninga og upplýsingagjöf til neytenda. Lögin um neytendalán hafa síðan þá tekið ýmsum breytingum, til að mynda árið 2000 þegar Alþingi samþykkti að nýta það svigrúm sem evrópsku reglurnar veita til aukinnar neytendaverndar, með því að útvíkka skilgreiningu neytendalána þannig að hún næði eftirleiðis meðal annars til yfirdráttarlána sem og fasteignaveðlána líkt og á hinum Norðurlöndunum.[1] Eftirlit með neytendalánum var upphaflega á höndum þáverandi Samkeppnisstofnunar, eða þar til í júlí 2005 þegar sérstakri stofnun, Neytendastofu, var komið á fót og falið að hafa eftirlit með framkvæmd laga á sviði neytendaverndar, og hefur hún allar götur síðan haft eftirlit með neytendalánum hér á landi.

Endurskoðun laga um neytendalán

breyta

Við heildarendurskoðun laganna árið 2013 með hliðsjón af nýrri tilskipun um neytendalán var kveðið á um það nýmæli að skilgreina okur þannig að kostnaður við neytendalán mætti ekki verða hærri en sem svarar til 50% ársávöxtunar að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, en þar áður hafði um þriggja áratuga skeið ríkt algjört vaxtafrelsi á íslenskum lánamarkaði.[2] Jafnframt var kveðið á um skyldu lánveitenda til að leggja mat á lánshæfi og greiðslugetu neytenda, og bann við lánveitingu til neytanda sem ekki stenst slíkt mat nema að framlögðu fullnægjandi veði eða öðrum tryggingum fyrir endurgreiðslu lánsins. Einnig var þá tekið af skarið um að svokallaðir eignaleigusamningar teldust til neytendalána, en aftur á móti voru undanskilin lögunum yfirdráttarlán til skemri tíma en eins mánaðar, lán sem bera engan eða lægri kostnað en almennt gengur og gerist á lánamarkaði, lán sem veitt eru í þeim tilgangi að neytandi geti átt viðskipti með fjármálagerninga, og veðlán gegn handveði í lausafé þar sem ábyrgð neytanda takmarkast við veðið. Frá og með 1. apríl 2017 færðust fasteignalán til neytenda undir gilddissvið nýrra sérlaga um slík lán sem eru nokkuð svipuð lögum um neytendalán en innihalda að auki ýmis ákvæði vegna sérstöðu fasteignaveðlána og áhrifa þeirra á fjármálastöðugleika.

Meginefni laga um neytendalán

breyta

Evrópsku reglurnar um neytendalán eru að miklu leyti byggðar á fyrirmyndum úr norrænni og germanskri löggjöf um neytendalán. Þeim er ekki ætlað að skerða samningsfrelsi þannig að almennt leggja þær ekki sérstakar skorður á efni samninga um neytendalán og skilmála þeirra, heldur er þess í stað lögð megináhersla á að upplýsa skuli neytendur vel um þá skilmála og áhrif þeirra á hagsmuni neytenda. Kjarninn í þeirri upplýsingagjöf lýtur að kostnaði sem fylgir lántöku, en lykilatriði í því sambandi er svokölluð árleg hlutfallstala kostnaðar sem gefur til kynna vaxtaígildi lánsins og gerir neytendum kleift að bera saman ólíka valkosti óháð því hvernig lánaskilmálar eru útfærðir í mismunandi lánum eða hjá mismunandi lánveitendum. Þannig þjónar upplýsingagjöfin ekki einungis þeim tilgangi að stuðla að gegnsæi og upplýstri neytendahegðun, heldur einnig virkri samkeppni lánveitenda sem er fyrir vikið til þess fallin að stuðla almennt að lægri lántökukostnaði fyrir neytendur.

Meðal þeirra upplýsinga sem samkvæmt lögunum eiga að koma fram í samningi um neytendalán eru auk árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu, útlánsvextir og skilyrði um beitingu þeirra og ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem geta haft áhrif á upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum, fjárhæðir, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á (greiðsluáætlun), heildarlántökukostnaður, gildandi dráttarvexti og vanskilakostnaður. Einnig skal upplýsa um afleiðingar vegna vangoldinna greiðslna, kostnað sem neytandi kann að þurfa að greiða vegna þinglýsingar eða skráningar lánssamnings, tilskildar tryggingar ef við á, rétt til að falla frá samningi, rétt til greiðslu fyrir gjalddaga eða hraðar en samningur kveður á um og skilyrði þess, málsmeðferð sem fylgja skal við uppsögn lánssamnings, kæruleiðir utan dómstóla fyrir neytendur, og fleira eftir því sem á við um tilteknar tegundir lána.

Lög um fasteignalán til neytenda

breyta

Haustið 2016 samþykkti Alþingi ný lög um fasteignalán til neytenda, sem gilda frá og með 1. apríl 2017. Með þeim er í fyrsta sinn sköpuð sérstök lagaumgjörð um íslenskan húsnæðislánamarkað í heild sinni. Lögin taka mið af EES-tilskipun um fasteignalán og lögum um neytendalán, en frá og með gildistöku þeirra verða fasteignalán undanþegin frá gildissviði almennu laganna um neytendalán og falla þess í stað undir nýju lögin. Nýju lögunum svipar að mörgu leyti til gildandi laga um neytendalán en eru þó mun ítarlegri, meðal annars varðandi upplýsingaskyldu um lánskostnað í auglýsingum, á afgreiðslustöðum, í lánstilboðum og samningum. Meðal helstu nýmæla eru reglur um góða viðskiptahætti, starfskjarastefnu lánveitenda og lánaráðgjöf til viðskiptavina. Einnig er kveðið á um sérstaka skyldu til að útskýra lánasamninga fyrir neytendum, bann við hlutfallslegum lántökugjöldum[3] og sérstakar skyldur lánveitenda í tengslum við fullnustu, þar á meðal að bjóða upp á endurskipulagningu skulda áður en krafist er nauðungarsölu og samninga um uppgjör eftirstæðra krafna í kjölfar nauðungarsölu. Þá eru enn fremur heimildir í lögunum til að setja reglur um hámarksveðsetningarhlutföll og tekjuviðmið greiðslumats.[4] Eftirlit með lögunum er að mestu leyti á verksviði Neytendastofu en að hluta til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Lagaumgjörð

breyta

Úrlausnir og dómar

breyta

Tenglar

breyta

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við frumvarp til laga nr. 179/2000 um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán.
  2. „Seðlabanki Íslands. Peningamál 2002/1. Halldór Sveinn Kristinsson. Skuldabréfamarkaður á Íslandi (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. nóvember 2020. Sótt 14. febrúar 2022.
  3. Samkeppniseftirlitið, 24.10.2016. Lántökugjöld sem hlutfall af lánsfjárhæð heyra sögunni til.
  4. „Seðlabankinn - Takmarkanir á fasteignalánum“. sedlabanki.is. Sótt 15. júní 2022.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.