Gengistrygging er sú tegund verðtryggingar þar sem fjárskuldbindingar eða greiðslur vegna þeirra taka breytingum miðað við þróun á gengi ákveðins gjaldmiðils, t.d. evru, bandaríkjadals eða jena, eða svokallaðri myntkörfu sem samanstendur af fleiri en einum gjaldmiðli í mismunandi hlutföllum. Þann 16. júní 2010 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þess efnis að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimiluðu eingöngu verðtryggingu lánsfjár miðað við vísitölu neysluverðs, og þar af leiðandi væri óheimilt að nota skilmála um gengistryggingu í lánasamningum. [1]

Sögulegt yfirlit

breyta

Í lok 3. kafla greinar Eyvindar G. Gunnarssonar um gengistryggð lán og verðtryggingu tekur höfundurinn saman að "heimild til gengisbindingar lánsfjár í íslenskum krónum [hafi ávallt verið] háð miklum takmörkunum á meðan hún var til staðar í íslenskum rétti". Í stuttu máli var gengistrygging að meginreglu óheimil en með breytingum á lögum árið 1979 voru gerðar undantekningar þar sem tekið var fram sérstaklega undir hvaða kringumstæðum slík undantekning væri heimil. Þar áður höfðu lög frá 1966 aðeins gert ráð fyrir undantekningum í tveimur tilfellum: 1. Ef innlendir aðilar tóku á sig lögmætar skuldbindingar gagnvart aðilum búsettum erlendis. 2. Sá sem endurlánaði erlent lánsfé var heimilt að áskilja að hið innlenda lán ásamt vöxtum skyldi miðast við sama gengi og gilti um erlenda lánið. Meðal þeirra undantekninga sem komu inn árið 1979 var að Alþingi og Seðlabankanum, eða síðar Viðskiptaráðherra var heimilt að leyfa gengistryggingu með lögum eða reglugerð. Eyvindur tekur þó fram að Alþingi setti aldrei slík lög. Seðlabankinn hins vegar setti fyrst fram reglugerð á þessum grunni árið 1987. Þá næstu árið 1995 og að lokum aðra árið 1999.[2]

Lagaumhverfi við efnahagshrunið 2008. Þá giltu ákvæði laga um vexti og verðtrygginu nr. 38/2001. Heimild seðlabankans/viðskiptaráðherra til að leyfa gengistryggingu í reglugerð var felld á brott. Í staðinn var samtímis lögunum sett reglugerð nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í 13. og 14. gr. laganna segir: 13. gr.) Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla. 14. gr.) Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir. Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Hæstiréttur staðfesti svo 16. júní 2010 að túlka skyldi þessar greinar sem svo að aðeins væri heimilt að miða verðtryggingu við innlenda vísitölu neysluverðs. Gengistrygging væri því óheimil.

Lagaumhverfi eftir hrun: Lögunum um vexti og verðtryggingu var breytt með lögum 151/2011 til að takast á við niðurstöðu hæstaréttar og leiðbeina um endurreikning þeirra samninga sem höfðu miðað við hina ólögmætu gengistryggingu. Ásamt því að sett var á stofn sérstakt embætti umboðsmanns skuldara.

Lagaumgjörð

breyta

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Gengistryggingin dæmd óheimil; grein af Mbl.is 16.06 2010
  2. Eyvindur G. Gunnarsson (2009). „Um gengistryggð lán og verðtryggingu“.

Tengt efni

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.