Látrar (Aðalvík)

Látrar eru eyðibyggð í Aðalvík á Hornströndum og voru nyrsta byggðin í víkinni. Staðurinn mun draga nafn af sellátrum á skerjum út af Látranesi. Þar utan við er há og sjóbrött hlíð, Straumneshlíð, sem endar í Straumnesi norðan við Aðalvík. Þar var reistur viti, Straumnesviti, árið 1922, en þar skammt frá strandaði Goðafoss, fyrsta skip Eimskipafélags Íslands, árið 1916 og má enn sjá flakið þar.

Upprunalega stóð Látrabærinn innar en var fluttur út á Látranes 1878 eftir að skriður féllu nærri gamla bæjarstæðinu. Sæmileg lending var á Látrum nema í vestanáttum og þaðan voru löngum stundaðir róðrar. Hafnaraðstaða var þó engin og þurfti að draga báta á land þegar illa viðraði.

Snemma á 20. öld myndaðist á Látrum vísir að sjávarþorpi og varð staðurinn löggiltur verslunarstaður árið 1905. Um 1920 bjuggu þar átján fjölskyldur. Á Látrum var barnaskóli frá því um 1900 en Látramenn sóttu kirkju að Stað í vestanveðri víkinni. Þegar flest var, á fyrri hluta fjórða áratugsins, bjuggu í Látraþorpinu 120-130 manns sem lifðu af sjósókn og landbúnaði.

Íbúum fækkaði mjög á fimmta áratugnum og síðasti ábúandinn flutti frá Látrum 1952.

Heimildir breyta

  • Aðalvík. Vestfjarðavefurinn, skoðað 17. janúar 2012“.