Þverárvirkjun er vatnsaflsvirkjun í Steingrímsfirði á Ströndum byggð á árunum 1951–1953. Hún var fyrst gangsett þann 15. desember 1953 og vígð með viðhöfn þann 4. september 1954. Þiðriksvallavatn er miðlunarlónið fyrir virkjunina sem stendur við Húsadalsá.

Bygging

breyta

Þverá sem áður rann úr Þiðriksvallavatni var stífluð og tekin í gegnum vatnspípu niður að Þverárvirkjun og rennur nú út í Húsadalsá í gegnum virkjunina. Stíflan sem upphaflega var byggð í gjúfri Þverár var að hluta til bogastífla, 17 metra löng og 10 metra há, sú fyrsta sinnar tegundar á landinu. Veggþykkt í boganum var 60 sm og heildarlengd stíflunnar var 34 metrar. Við þessar framkvæmdir hækkaði vatnsyfirborð Þiðriksvallavatns úr 78,5 m hæð yfir sjávarmáli í 82,5 metra og vatnið stækkaði úr 1,55 í 1,8 ferkílómetra. Tún bæjanna Þiðriksvalla og Vatnshorns framan við Þiðriksvallavatn fóru þá undir vatn, en þeir höfðu skömmu áður farið í eyði. Stíflan var svo hækkuð lítilega í nokkrum áföngum næstu áratugina, m.a. 1963.

Á árunum 1999–2002 var Þverárvirkjun endurnýjuð að miklu leyti og stóð Orkubú Vestfjarða fyrir þeim framkvæmdum. Þá var byggð ný stífla og stöðvarhúsið stækkað og breytt, skipt um hluta af þrýstivatnspípu og ný vél sett niður. Við það tækifæri voru rannsakaðar fornleifar á Þiðriksvöllum og fundust þar ummerki um landnámsbæ.

Ný 500 metra löng jarðvegsstífla var byggð af Ístak árið 2000 og er gamla steypta stíflan hluti af henni. Með byggingu stíflunnar hækkaði yfirborð Þiðriksvallavatns um 6 metra og vatnsmagnið sem nýtist virkjuninni tvöfaldaðist. Yfirborð vatnsins er við þessa breytingu orðið 90 metrar yfir sjávarmáli og flatarmálið 2,7 ferkílómetrar. Náttúrulegt yfirfall fyrir virkjunina er í svonefndu Kotskarði. Hugmyndin er að með þessum framkvæmdum tvöfaldist árleg orkuframleiðsla Þverárvirkjunar og verði um 8,5 gígavattstundir.

Heimildir

breyta
  • Helgi M. Sigurðsson (2002). Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, Reykjavík. bls. 66-69.

Tenglar

breyta

Þverárvirkjun á vef Orkubús Vestfjarða