Þorgerður Ingólfsdóttir
Þorgerður Ingólfsdóttir (fædd í Reykjavík 5. nóvember 1943) er tónlistarkennari og kórstjóri. Hún stofnaði Kór Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1967 og Hamrahlíðarkórinn árið 1982.
Þorgerður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963, tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og nam tónvísindi og kórstjórn á meistarastigi við University of Illinois í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig stundað tónlistarnám í Austurríki, Bretlandi, Ísrael, Noregi og Sviss og nam auk þess guðfræði við Háskóla Íslands. [1]
Þorgerður hefur haldið tónleika víða um heim með Hamrahlíðarkórunum og hefur lagt ríka áherslu á að kynna íslenska tónlist. Hún var aðalstjórnandi æskukórsins Radda Evrópu sem var viðamesta samstarfsverkefni menningarborga Evrópu árið 2000. Kórinn hélt tónleika um alla Evrópu og frumflutti m.a. tónverkið „...which was the son of“ eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt en verkið er tileinkað Þorgerði.
Hún hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín og list þ.á m. riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1985 og stórriddarakross konunglegu norsku heiðursorðuna. Árið 2018 var Þorgerður útnefnd heiðursborgari Reykjavíkurborgar. Þorgerður hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði tónlistar og situr í ráðgjafanefnd Europa Cantat kórahátíðarinnar, hún á sæti í dómnefnd Ólympíuleikanna í kórtónlist og er fulltrúi Íslands í norrænu tónlistarnefndinni, Nomus.
Fjölmörg tónskáld, bæði íslensk og erlend hafa samið verk fyrir Þorgerði og kórana hennar sem hafa frumflutt yfir 100 ný verk. Fyrr- og núverandi meðlimir telja nú eitthvað um 2000 manns.
Tilvísanir
breyta- ↑ Mbl.is, „Þorgerður heiðursborgari Reykjavíkur“ (skoðað 24. júlí 2019)