Þórunn Erna Clausen

Þórunn Erna Clausen (f. 12. september 1975) er íslensk leikkona.

Þórunn Erna er dóttir hins dansk ættaða Hauks Clausen (8. nóvember 1928 – 1. maí 2003), tannlæknis og frjálsíþróttamanns, og konu hans Elínar Hrefnu Thorarensen (f. 17. febrúar 1944). Hún lærði leiklist við Webber Douglas Academy í London og útskrifaðist þaðan árið 2001.

Þórunn Erna hefur meðal annars leikið Rauðhettu í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Dóru í Lykli um hálsinn í Vesturporti. Hún lék einnig í einleiknum Ferðir Guðríðar í Skemmtihúsinum, bæði á ensku og þýsku, og í söng- og spunasýningunni Le Sing á Broadway. Hún lék Nansí í söngleiknum Ólíver hjá Leikfélagi Akureyrar og Sue í Dýrlingagenginu sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur og hlaut fyrir það tilnefningu til Grímunnar árið 2003 sem leikkona ársins í aukahlutverki.

Hún var tilnefnd til Edduverðlauna árið 2004 fyrir aukahlutverk í kvikmyndinni Dís og árið 2005 fyrir aðalhlutverk í sjónvarpsþáttunum Reykjavíkurnætur. Af öðrum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum má nefna Mannaveiðar, Maður eins og ég, Going up, Fjölskyldu og Rétt 2.

Þórunn Erna hefur lengst af starfað við Þjóðleikhúsið og meðal annars leikið þar í Syngjandi í rigningunni, Ragnheiði Birnu í Þetta er allt að koma, Reyndar í Leitinni að jólunum, í Virkjuninni, Sælueyjunni, móðurina í Sitji guðs englar, bangsann í Góðu kvöldi og Tínu í Konan áður. Í Borgarleikhúsinu lék Þórunn Erna systur Margréti í Söngvaseið og var aðstoðarleikstjóri í leiksýningunni Fjölskyldan – ágúst í Osage-sýslu.

Þórunn Erna leikur nú í nýrri leikgerð af einleiknum um Guðríði Þorbjarnardóttur, Ferðasögu Guðríðar á íslensku í Víkingaheimum í Reykjanesbæ.

Þórunn Erna var gift tónlistarmanninum Sigurjóni Brink, en saman sömdu þau lagið Aftur heim, sem var framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2011. Sigurjón lést skyndilega þann 17. janúar 2011.

Ár Kvikmynd/Þáttur Hlutverk Athugasemdir og verðlaun
1999 Citizen Cam Tessa Thorleitsdottir
2002 Maður eins og ég Kynlífsstelpa
2004 Dís Magga Tilnefnd til Eddunnar sem leikari/leikkona ársins í aukahlutverki

2005 Reykjavíkurnætur (Dóra) Sjónvarpsþættir fyrir stöð 2. (Tilnefnd til Edduverðlaunanna/Eddunnar sem leikari/leikkona ársins í aðalhlutverki 2007 Mannaveiðar sjónvarpsþættir fyrir RUV 2008 Going Up stuttmynd eftir Óskar Jónasson 2010 Réttur 2 sjónvarpsþættir fyrir stöð 2

Tenglar

breyta