Sigvarður Þéttmarsson

Sigvarður Þéttmarsson (d. 1268) var biskup í Skálholti frá 1238. Hann var norskur og hafði verið ábóti í Selju. Biskupslaust varð á báðum biskupsstólunum og kusu Íslendingar biskupsefni og sendu til erkibiskups en hvorugt biskupsefnið fékk vígslu. Sá sem kjörinn var til biskups í Skálholti var Magnús sonur Guðmundar gríss. Hákon konungur vildi efla áhrif sín á Íslandi og fékk erkibiskup til að setja Norðmenn á báða biskupsstólana. Sigvarður flæktist fljótt inn í ýmis deilumál Sturlungaaldar og í janúar 1242, þegar Órækja Snorrason réðist að Gissuri Þorvaldssyni, sem þá var staddur í Skálholti, stöðvaði Sigvarður bardagann með því að koma alskrýddur út úr kirkjunni ásamt prestum sínum og hefja bannsöng yfir Órækju.

Sigvarður biskup var erlendis á árunum 1250-1254 og gegndi þá Brandur Jónsson biskupsembættinu á meðan. Þegar Jörundur Þorsteinsson var vígður til biskups á Hólum 1267 var Sigvarður biskup orðinn svo aldraður og vanheill að Jörundur var skipaður yfir allt landið. Sendi hann Árna Þorláksson í Skálholt sem fulltrúa sinn, Sigvarði til liðsinnis, og var Árni svo kosinn biskup þegar Sigvarður andaðist ári síðar.


Fyrirrennari:
Magnús Gissurarson
Skálholtsbiskup
(1238 – 1268)
Eftirmaður:
Árni Þorláksson