Jón Ásgeirsson frá Þingeyrum
Jón Ásgeirsson (16. mars 1839 – 29. júlí 1898) var íslenskur bóndi á 19. öld. Hann fæddist í Kollafjarðarnesi á Ströndum, sonur Ásgeirs Einarssonar, (f. 23. júlí 1809, d. 15. nóvember 1885) og konu hans Guðlaugar Jónsdóttur frá Melum í Hrútafirði. Hann var eina barna þeirra hjóna.
Jón hóf búskap í Kollafjarðarnesi. Kona Jóns var Ingunn Jónsdóttir frá Melum í Hrútafirði. Jón eignaðist tvö börn með konu sinni, Guðjón bónda á Leysingjastöðum, og Ásgeir Magnús, bónda á Sellátrum í Reyðarfirði. Þá átti hann fimm börn með Guðbjörgu Árnadóttur frá Sigríðastöðum, þær Láru og Jenny báðar ógiftar og barnlausar, Fanny konu Jóhanns bónda Guðmundssonar í Holti í Svínadal, Ásgeir Lárus ráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands og Magnús bókbindara í Reykjavík. Að auki átti hann þrjú önnur börn; Jakobínu sem fór til Ameríku, Jónínu konu Helga Jónssonar frá Sellátrum við Reyðarfjörð og Ásgeir frá Gottorp með Signýju Hallgrímsdóttur, en til hennar á hann að hafa ort þessa vísu ;
- Gleymdu ekki góðum vin,
- þó gefist aðrir nýir,
- þeir eru eins og skúraskin,
- skyndilega hlýir.
Árið 1861 flutti hann að Þingeyrum í Húnaþingi. Hann var annálaður hesta- kvenna- vín- og vísnamaður, en eftir hann er vísan þjóðkunna:
- Nú er hlátur nývakinn,
- nú er grátur tregur,
- nú er ég kátur nafni minn,
- nú er ég mátulegur.
Kunningi Jóns kom til hans og leitaði ráða með brúnan hest sem hann átti og hélt hann væri gæðingsefni. Þegar Jón hafði reynt hestinn, kastaði hann fram þessari vísu:
- Brúnn á gangi gerist rýr
- garp sem ber óhrelldan.
- Gjöktir eins og gamal kýr.
- Gerðu það fyrir mig: Seld´ ´ann.
Fleiri vísur eru eftir Jón:
- Við skulum koma í Valadal,
- vaskan að finna Pétur.
- Mínum góða gjarðaval
- gefur enginn betur.
Eftir viðskipti Jóns og Sæmundsens verslunarstjóra á Blönduósi vegna selveiða við Bjargaós, þar sem Jón gerði upp skuld sína við hinn síðarnefnda á eftirminnilegan hátt, reið Jón burt frá Blönduósi og kastaði fram vísu þessari:
- Héðan burtu held nú frá
- húsum Mammons vina
- skuldafrí og skelli á
- skeið um veröldina.