Jón Ásgeirsson frá Þingeyrum

Jón Ásgeirsson (16. mars 183929. júlí 1898) var íslenskur bóndi á 19. öld. Hann fæddist í Kollafjarðarnesi á Ströndum, sonur Ásgeirs Einarssonar, (f. 23. júlí 1809, d. 15. nóvember 1885) og konu hans Guðlaugar Jónsdóttur frá Melum í Hrútafirði. Hann var eina barna þeirra hjóna.

Jón hóf búskap í Kollafjarðarnesi. Kona Jóns var Ingunn Jónsdóttir frá Melum í Hrútafirði. Jón eignaðist tvö börn með konu sinni, Guðjón bónda á Leysingjastöðum, og Ásgeir Magnús, bónda á Sellátrum í Reyðarfirði. Þá átti hann fimm börn með Guðbjörgu Árnadóttur frá Sigríðastöðum, þær Láru og Jenny báðar ógiftar og barnlausar, Fanny konu Jóhanns bónda Guðmundssonar í Holti í Svínadal, Ásgeir Lárus ráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands og Magnús bókbindara í Reykjavík. Að auki átti hann þrjú önnur börn; Jakobínu sem fór til Ameríku, Jónínu konu Helga Jónssonar frá Sellátrum við Reyðarfjörð og Ásgeir frá Gottorp með Signýju Hallgrímsdóttur, en til hennar á hann að hafa ort þessa vísu ;

Gleymdu ekki góðum vin,
þó gefist aðrir nýir,
þeir eru eins og skúraskin,
skyndilega hlýir.

Árið 1861 flutti hann að Þingeyrum í Húnaþingi. Hann var annálaður hesta- kvenna- vín- og vísnamaður, en eftir hann er vísan þjóðkunna:

Nú er hlátur nývakinn,
nú er grátur tregur,
nú er ég kátur nafni minn,
nú er ég mátulegur.

Kunningi Jóns kom til hans og leitaði ráða með brúnan hest sem hann átti og hélt hann væri gæðingsefni. Þegar Jón hafði reynt hestinn, kastaði hann fram þessari vísu:

Brúnn á gangi gerist rýr
garp sem ber óhrelldan.
Gjöktir eins og gamal kýr.
Gerðu það fyrir mig: Seld´ ´ann.

Fleiri vísur eru eftir Jón:

Við skulum koma í Valadal,
vaskan að finna Pétur.
Mínum góða gjarðaval
gefur enginn betur.

Eftir viðskipti Jóns og Sæmundsens verslunarstjóra á Blönduósi vegna selveiða við Bjargaós, þar sem Jón gerði upp skuld sína við hinn síðarnefnda á eftirminnilegan hátt, reið Jón burt frá Blönduósi og kastaði fram vísu þessari:

Héðan burtu held nú frá
húsum Mammons vina
skuldafrí og skelli á
skeið um veröldina.


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.