William Petty (26.maí 1623 - 16.desember 1687) var enskur hagfræðingur, vísindamaður og heimspekingur. Petty var meðlimur í konunglega breska vísindafélaginu. Petty var atkvæðamikill í stjórnmálum í valdatíð Oliver Cromwell, Karls II, og Jakobs II. [1]

William Petty

Æviágrip

breyta

Lífsferill Petty var mjög skrautlegur. Hann ólst upp í Romsey á Englandi en þar ráku faðir hans og afi vefnaðarvöruviðskipti, en hljópst 13 ára gamall að heiman. Eftir ár á sjó endaði hann í Jesúítaskóla í Caen í Frakklandi, þar sem hann vakti athygli fyrir gáfur sínar og fróðleiksfýsn. Að námi loknu snéri Petty til Englands og eyddi næstu árum við ýmis störf. Hann var á sjó, starfaði sem augnlæknir í Hollandi, og sem einkaritari Thomas Hobbes í París þar sem hann var virkur þátttakandi í samræðum helstu hugsuða álfunnar. [2]

Petty var skipaður prófessor í læknisfræði við Oxford árið 1650, en fylgdi her Cromwell til Írlands árið 1652 og var árið 1654 settur yfir landmælingar og manntal sem lágu til grundvallar stórfelldu landnámi Englendinga á írsku landi. Petty auðgaðist gríðarlega á Írlandi og var sakaður um ýmsa spillingu, en þær öftruðu ekki frama hans. Petty var aðlaður árið 1661.[3]

Landnám í Írlandi

breyta

Petty yfirgaf Oxford árið 1652 til að sinna læknisstörfum í her Cromwell á Írlandi. Her Cromwell starfaði við að fylgja eftir nýrri löggjöf Englendinga en hún fól í sér landnám á írsku landi sem afleiðing á átökum þeirra við Englendinga. Þeir neyddu einnig fjölmarga Íra til flutninga í héraðið Connaught. Englendingarnir seldu hluta af landinu sem þeir tóku yfir en nýttu einnig hluta af því til að verðlauna hermenn sína í staðinn fyrir að borga þeim í peningum. [4]

Benjamin Worsley var fenginn til að kortleggja og verðmeta þetta nýja land sem þeir höfðu öðlast en vegna starfshátta hans var álitið að það myndi taka rúmlega 13 ár. Petty sóttist eftir þessu hlutverki Worsley og eftir tvö ár af sannfæringu var honum treyst fyrir verkinu. Worsley notaði einungis nokkra mjög hæfa starfsmenn við verðmat sitt en Petty fékk þúsundir hermanna með sér í lið ásamt nokkrum kortagerðarmönnum og kláraði verkið á rúmum 13 mánuðum.

Þessi aðferð hjá Petty varð að þekktu fyrirbæri sem bar heitið “Down Survey” og var notað sem staðlaða aðferðin við verðmat á landi langt inn í 19. öldina. Petty auðgaðist verulega á þessu tímabili en hann eignaðist land sem var samtals rúmlega 50.000 hektara að stærð. Hluti af auði hans fékk hann sem verðlaun fyrir störf sín en restina eignaðist hann með því að kaupa land af hermönnunum sem vildu frekar fá pening fyrir sín störf. [3] [5]

Ásakanir um spillingu

breyta

Petty varð fyrir verulegum ásökunum um spillingu og svik á þessum tíma vegna þátttöku hans í yfirtöku Englendinga á írsku landi. Stór hluti af þessum ásökunum átti rétt á sér en þær voru einnig að miklu leiti afleiðing pólitísks ágreinings á milli Henry Cromwell og Charles Fleetwood.[3] [6]

Framlög til hagfræði

breyta

Petty er talinn einn fremsti hagfræðingur Englands á 17. öld. Hann er þekktastur sem frumkvöðull í gerð hagtalna og þjóðhagsreikninga sem hann nefndi „Political Arithmetic“. Hann taldi að hægt væri að beita vísindalegri aðferð við greiningu efnahagslegra viðfangsefna. Taldi Petty að til efnahagsleg- og lýðfræðilega tölfræði væri forsenda giftusællar hagstjórnar. Aðferðafræði Petty við hagtölugerð var engu að síður mjög frumstæð, enda áreiðanlegar hagtölur af skornum skammti. Adam Smith hafnaði því hugmyndum Petty um nauðsyn hagtalna við greiningu hagfræðilegra álitaefna.

Þó Petty sé iðulega talinn til merkantílískra hagfræðinga taldi hann utanríkisviðskipti og jákvæðan viðskiptajöfnuð ekki uppsprettu auðs, heldur væri hún í raunhagkerfinu, landi og vinnu. Hann er einnig talinn einn fyrsti hagfræðingurinn, ásamt Cantillon og Quesnay til að líta á hagkerfið sem hringrásakerfi.[7] [8]

Hagfræðiverk og kenningar

breyta

Tveir menn höfðu afgerandi áhrif á hagfræðikenningar Petty. Sá fyrsti var Thomas Hobbes, sem var enskur heimspekingur, en Petty starfaði sem persónulegur ritari fyrir hann. Seinni aðilinn var maður að nafni Francis Bacon en hann var einnig enskur heimspekingur sem var gjarnan kallaður faðir raunhyggjunnar.

Áhrif Francis Bacon á Petty voru mikil. Bacon, ásamt Hobbes, var sannfærður að stærðfræði hlyti að vera undirstaða allra skynsamlegra vísinda. Þessi áhersla á nákvæmni leiddi til þess að Petty lýsti eftirminnilega yfir því að hann myndi aðeins nota mælanleg fyrirbæri í sínum vísindastörfum og myndi leitast eftir mælanlegri nákvæmni, frekar en að treysta á samanburðarhætti. Þetta skapaði nýtt viðfangsefni sem hann nefndi "Political Arithmetic". [9]

Skrif Petty áttu sér stað fyrir raunverulega þróun stjórnmálahagfræðinnar og voru því margar fullyrðingar hans um nákvæmni ekki fullnægjandi. Engu að síður skrifaði Petty þrjú aðalverk um hagfræði en þau voru: Treatise of Taxes and Contributions (skrifuð 1662), Verbum Sapienti (1665) og Quantulumcunque Concerning Money (1682). Þessi verk, sem fengu mikla athygli árið 1690, sýndu fram á kenningar hans á stórum sviðum sem myndu síðan þróast í fyrirbærið hagfræði.  [7]

Peningamagn

breyta

Petty taldi að það væri ákveðin upphæð sem þjóð þyrfti til að knýja fram viðskipti sín. Þess vegna var hægt að hafa of lítið af peningum í umferð í hagkerfinu, sem myndi þýða að fólk þyrfti að reiða sig á viðskipti. Það væri líka mögulegt að of miklir peningar væru í hagkerfinu. En aðal spurningin var, eins og hann spyr í 3. kafla Verbum Sapienti, myndu 6 milljónir punda duga til að knýja fram viðskipti þjóðar, sérstaklega ef konungurinn vildi afla aukafjár fyrir stríðið við Holland? Svarið hans Petty lá í hraða peningaflæðisins. Með því að gera ráð fyrir peningamagnskenningunni sem hefur oft verið kennd við John Locke, þar sem hagræn framleiðsla (Y) * verðlag (p) = peningamagn (MS) * hringrásarhraði (v), sagði Petty að ef hagræn framleiðsla ætti að geta aukist fyrir tiltekið peningamagn og verðlag, þyrftu „byltingar“ að eiga sér stað í smærri hringjum (þ.e.a.s. hringrásarhraði verður að vera meiri).

Það væri hægt að gera með því að stofna banka. Hann sagði beinlínis í Verbum Sapienti "né vilja peningar svara öllum endum vel stjórnaðs ríkis, þrátt fyrir mikla lækkun þeirra sem hafa orðið á þessum tuttugu árum"[10] og að meiri hraði er svarið. Hann nefnir líka að það sé ekkert einstakt við gull og silfur þegar það kemur að því að gegna hlutverki peninga og að peningar séu leiðin að markmiðinu, en ekki markmiðið sjálft. Það sem er sláandi við þessa kafla er vitsmunaleg þröngsýni hans, sem setti hann langt á undan verslunarhöfundum fyrr á öldinni. [11]

Virðiskenningin

breyta

Petty hélt áfram með hugmyndir Aristóteles um verðmæti og kom þá með Virðiskenninguna (e.Theory of value): “Verðmæti allra hluta skulu vera metnir út frá landi eða vinnuafli”. Hvort tveggja væri megin tekjustofn ríkisins. Hann tók það þó fram að framleiðni varð einnig við listir og iðnað. Hann bætti einnig rentu við kenningu sína um virði. Auðlindarenta lands var framleiðni vinnumanns á ári umfram það sem hann neytti sjálfur eða stundaði viðskipti með til eigin neyslu.[12]

Vextir

breyta

Auðlindarentuhlutfall er mjög náið hugmyndum hans um okurvexti. Á þeim tíma voru margir trúarritarar sem að fordæmdu vexti og töldu þá vera hreinlega syndsamlega. Petty vildi hins vegar meina að vextir væru umbun fyrir lánveitandann og væru því fullkomlega réttlætanlegir. Í kenningu Petty kemur fram að þar sem engin áhætta er, þá eiga vextir að vera jafnir þeirri rentu sem myndast af ákveðnu landi, sem seinna meir er nokkurn veginn þannig sem að við horfum á fjárfestingar í dag. Því meiri áhætta sem er tekin því hærri ávöxtun viljum fá af fjárfestingu. [13]

Skattar

breyta

Hvað varðar hækkun skatta, lagði Petty mikla áherslu á neysluskatta. Hann mælti með því að almennt ættu skattar að nægja til að mæta hinum ýmsu tegundum opinberra gjalda. Petty var talsmaður hlutfallslega skatta og hann fordæmdi skatta sem voru fastar upphæðir óháðar tekjum einstaklinga. Petty trúði því að innfluttar vörur ættu að vera skattlagðar en aðeins upp að því marki sem myndi setja innfluttar vörur og innlendar vörur á sama grundvöll. Hann trúði þar með því að innfluttar og innlendar vörur ættu að vera á sama grundvelli verðlags til að skapa sem sanngjörnustu samkeppnina. Á tíma Petty var hagkerfi að þróast úr svokölluðu “vöruviðskipta hagkerfi” í “peningahagkerfi”. Í tengslum við þetta og meðvitaður um skort peningamagns taldi Petty að skattar ættu að vera greiddir í öðru formi en gulli eða silfri.[14]

Laissez-faire

breyta

Í skrifum Petty ritaði hann oft um “Laissez-faire” eða frjálshyggju ríkisstjórn en hann varaði við of miklum afskiptum ríkisins af hagkerfinu og hvað það gæti leitt af sér. Einokun, útflutningur auðs og vöruviðskipti voru allt fyrirbæri sem Petty taldi vera bæði tilgangslaus og skaðleg fyrir þjóðir. Petty talaði einnig um mikilvægi stærðarhagkvæmni og sagði að vara yrði bæði gæðameiri og ódýrari ef fleiri starfsmenn koma að framleiðslu hennar. Hann sagði að ágóðinn yrði stærri eftir því sem framleiðslan sjálf stækkar.[15]

Verkaskipting

breyta

Verkaskipting er hugtak sem lýsir sérhæfingu verkefna og hluta innan ákveðins framleiðsluferils. Verkaskipting er grundvallarhugtak í hagfræði og gegnir mikilvægu hlutverki við að auka framleiðni og hagkvæmni í ýmsum atvinnugreinum. Verkaskipting felst í því að skipta framleiðsluferli á vöru niður í minni sértækari verkefni. Í staðinn fyrir að einn einstaklingur eða smár hópur framleiði eina heila vöru þá einblína þau frekar á einn sértækari hluta í framleiðsluferlinu.

Í riti Petty, “Political Arithmetick”, framkvæmdi hann hagnýta rannsókn um verkaskiptingu þar sem hann sýndi fram á tilveru og gagnsemi hennar í hollenskum slipp. Venjulega verkferlið í slipp er þannig háttað að verkamenn smíða heilt skip og klára það alfarið áður en þeir hefja vinnu á öðru. Ferlið hjá Hollendingunum var hins vegar þannig að þeir höfðu skipað nokkur minni teymi sem einbeittu sér öll að mismunandi verkum í framleiðslu skipanna.

Petty notaði verkaskiptingu eftirminnilega í verðmati sínu á Írlandi (sjá kaflann Landnám í Írlandi fyrir frekari upplýsingar) en þar skipti hann upp verkinu til þess að tryggja að fólk þyrfti enga sérþekkingu til leggja sitt af mörkum. Þessi byltingarkennda aðferð leiddi til þess að hann gat fengið gríðarlegan fjölda af fólki til að hjálpa sér og klára verkið á mettíma.[16]

Arfleið

breyta

Petty er helst minnst fyrir efnahagssögu sína og tölfræðiskrif sem hann gerði fyrir tíð Adam Smith, og fyrir að vera stofnmeðlimur Konunglega breska vísindafélagsins. Sérstaklega áhugaverðar voru sóknir hans í tölfræðigreiningu. Verk Petty í pólitík, ásamt verkum John Graunt, lagði grunninn að nútíma manntalstækni ( e. census techniques). Vinna hans í tölfræðilegri greiningu, sem var svo útvíkkað af mönnum eins og Josiah Child, skráði nokkrar af fyrstu útlistunum á nútíma tryggingum. Vernon Louis Parrington bendir á að hann hafi snemma útskýrt vinnukenninguna um gildi eins og fjallað var um í Treatise of Taxes árið 1692.

Petty lagði grunninn fyrir nokkra hagfræðinga sem komu síðar við sögu, þar á meðal voru  Richard Cantillon, Adam Smith og Karl Marx. Petty og Smith deildu sömu hugmyndafræði um náttúrulögin. Þeir voru með sameiginlega trú á náttúrulegt frelsi og jafnrétti. Þeir sáu einnig báðir kosti sérhæfingar og verkaskiptingar.

Karl Marx tók upp trú Petty á að heildarvinna hóps venjulegra verkamanna skilaði mun stærra framlag til hagkerfisins en hugmyndir samtímans gerðu sér grein fyrir. Þessi trú leiddi til þess að Petty komst að þeirri niðurstöðu um  að vinnuafl skilaði mestu auðæfunum. Marx trúði því hins vegar að umfram vinnuafl væri uppspretta alls gróða og að verkamaðurinn væri firrtur umfram ábata sínum og þar með samfélaginu.

Hið mikla álit Marx á Adam Smith endurspeglast í skoðun hans á greiningu Petty, sem ótal tilvitnanir í aðalverki hans Das Kapital staðfesta einnig. John Maynard Keynes sýndi fram á hvernig stjórnvöld gætu stjórnað heildareftirspurn til að örva framleiðslu og atvinnu, eins og Petty hafði gert með einfaldari dæmum á 17. öld. Keynes betrumbætti margfaldarann hans Petty ("£100-through-100-hands multiplier") og inleiddi inn í sitt eigið líkan.

Sumir telja að afrek Petty hafi komið fyrir heppni. Petty var prófessor í tónlist áður en hann lærði hjá hinum frábæra Thomas Hobbes. Hann þróaði "laissez-faire" sýn sína á hagfræði á tímum mikils tækifæra og vaxtar í sístækkandi breska heimsveldinu. Laissez-faire stefnur stóðu í beinni andstöðu við félagssáttmála Hobbes, sem þróaðist út frá reynslu Hobbes í mestu kreppu í sögu Englands.[17]

Helstu verk

breyta
  • The Advice to Hartlib (1647)
  • A Declaration Concerning the newly invented Art of Double Writing (1648)
  • Proceedings between Sankey and Petty (1659)
  • Reflections upon Ireland (1660)
  • A Treatise of Taxes & Contributions (1662)
  • Political Arithmetic (skrifuð u.þ.b. 1676, kom út að honum látnum 1690)
  • Verbum Sapienti (skrifuð 1664, kom út að honum látnum 1691)
  • Political Anatomy of Ireland (skrifuð 1672, kom út að honum látnum 1691)
  • Quantulumcunque Concerning Money (skrifuð 1682, kom út að honum látnum 1695)
  • An Essay Concerning the Multiplication of Mankind (1682)

Heimildir

breyta
  • Backhaus, Jürgen Georg (2012). Handbook of the History of Economic Thought, Insights on the Founders of Modern Economics. Springer.
  • Petty, William (1970). The political anatomy of Ireland. Irish University Press.
  • Sandelin, B., Trautwein, H.M., Wundrak, R. (2014). A Short History of Economic Thought. Routledge.
  • Medema, Steven G., Samuels, Warren J. (ritstj.) (2003). The History of Economic Thought: A Reader. Routledge.

Tilvísanir

breyta
  1. Medema og Samuels, (2003)
  2. William Petty, Wikipedia, (2023)
  3. 3,0 3,1 3,2 „HET: William Petty“. www.hetwebsite.net. Sótt 6. september 2022.
  4. Sandelin o.fl., 2014, bls. 11
  5. William Petty, Wikipedia, (2023)
  6. William Petty, Wikipedia, (2023)
  7. 7,0 7,1 Brewer, Anthony, „Pre-Classical Economics in Britain“, A Companion to the History of Economic Thought, Blackwell Publishing Ltd, bls. 78–93, doi:10.1002/9780470999059.ch6
  8. William Petty, Wikipedia, (2023)
  9. William Petty, Wikipedia, (2023)
  10. Petty, Willam (1970)
  11. William Petty, Wikipedia, (2023)
  12. Backhaus, (2012)
  13. William Petty, Wikipedia, (2023)
  14. William Petty, Wikipedia, (2023)
  15. William Petty, Wikipedia, (2023)
  16. William Petty, Wikipedia, (2023)
  17. William Petty, Wikipedia, (2023)