Wikipedia:Grein mánaðarins/09, 2021

Amharar (amharíska: አማራ, amara, ge'ez: አምሐራ) eru þjóðarbrot í Eþíópíu sem búa aðallega í Amhara-héraði landsins og tala amharísku. Amharar eru um 20 milljónir talsins og eru um 20% Eþíópíumanna. Þeir voru taldir næststærsti þjóðflokkurinn innan landsins í manntali árið 2007 á eftir Orómóum.

Amharaþjóðin hefur sögulega byggt norðurhluta, miðhluta og vesturhluta Eþíópíu. Flestir Amharar eru bændur og raunar eru Amharar taldir meðal fyrstu landbúnaðarþjóða ríkisins. Talið er að þeir hafi hafið landbúnaðarsögu sína með rækt á korni í heimahéruðum sínum, meðal annars á hvingresi og nígerurtarfræum.

Flestir Amharar eru kristnir og eþíópíska rétttrúnaðarkirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í menningu þeirra. Samkvæmt manntali ársins 2007 eru 82,5% íbúa Amharahéraðsins meðlimir í eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni; 17,2% eru múslimar (aðallega í Wollo-héraðinu), 0,2% voru mótmælendur og 0,5 gyðingar.