Wikipedia:Grein mánaðarins/05, 2017
Falklandseyjastríðið var tíu vikna stríð milli Breta og Argentínumanna um yfirráð yfir Falklandseyjum og Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyjum í Suður-Atlantshafinu á vormánuðum 1982. Deilur um yfirráð yfir eyjunum höfðu staðið lengi og herforingjastjórnin í Argentínu hugsaði sér að draga athygli almennings frá bágu efnahagsástandi og mannréttindabrotum með því að leggja eyjarnar undir sig með skjótum hætti og nýta sér þannig þjóðernishyggju til að þjappa þjóðinni saman við bakið á stjórninni. Argentínumenn töldu sig eiga stuðning annarra ríkja vísan, einkum Bandaríkjamanna.
Stríðið hófst með innrás hers Argentínumanna á eyjunni Suður-Georgíu 19. mars 1982 og hernámi Falklandseyja og lauk með uppgjöf Argentínu 14. júní 1982. Hvorugur aðili gaf út formlega stríðsyfirlýsingu. Argentínumenn litu á aðgerðir sínar sem endurtöku eigin lands og Bretar litu á þetta sem innrás á breskt yfirráðasvæði.