Wikipedia:Grein mánaðarins/02, 2016

Ódýrir fjölskyldubílar á borð við Fiat 600 og Fiat 500 urðu gríðarvinsælir um allan heim í efnahagsuppgangnum á 6. áratugnum.

Fiat S.p.A. (upphaflega skammstöfun: Fabbrica Italiana Automobili Torino) er ítalskur bílaframleiðandi með höfuðstöðvar í Tórínó. Fyrirtækið var stofnað árið 1899 af Giovanni Agnelli og hópi fjárfesta. Fyrsti bíllinn sem fyrirtækið framleiddi var Fiat 4 HP. Í upphafi 20. aldar óx fyrirtækið hratt, það hóf framleiðslu flugvélahreyfla og Fiat 1 sem náði vinsældum sem leigubíll í Evrópu og Bandaríkjunum eftir 1908. Árið 1910 var Fiat orðinn stærsti bifreiðaframleiðandi Evrópu.

Árið 1921 tóku verkamenn sem aðhylltust hinn nýja kommúnistaflokk, sem Antonio Gramsci og fleiri sósíalistar frá Tórínó höfðu stofnað sama ár, verksmiðjuna yfir sem leiddi til afsagnar Agnellis. Ítalski sósíalistaflokkurinn og Almenna verkalýðssambandið (CGIL) skipuðu verkamönnunum að hætta yfirtökunni. Árið eftir var Lingotto-bílaverksmiðjan í Tórínó byggð. Það var fyrsta verksmiðjan á Ítalíu sem var hönnuð fyrir fjöldaframleiðslu með samsetningarlínu. Fiat framleiddi hergögn í síðari heimsstyrjöld, einkum orrustuflugvélar á borð við Fiat CR.42 og létta skriðdreka. …lesa meira