Vilhjálmur 2. Englandskonungur

(Endurbeint frá Vilhjálmur rauður)

Vilhjálmur 2. (um 10562. ágúst 1100) eða Vilhjálmur rauður (enska: William II Rufus, franska: Guillaume II d'Angleterre) var konungur Englands frá 1087 til dauðadags. Talið er líklegt að hann hafi fengið auknefni sitt af því að hann hafi verið rjóður í framan.

Vilhjálmur 2. Mynd frá 13. öld.

Vilhjálmur var fæddur í Normandí einhverntíma á árunum 1056-1060, þriðji í röðinni af fjórum sonum Vilhjálms hertoga og síðar Englandskonungs og Matthildar af Flæmingjalandi. Elsti bróðirinn, Róbert stuttsokkur, átti að erfa Normandí, sá næsti, Ríkharður, átti að fá England í sinn hlut, en þegar Ríkharður lést um 1080 stóð Vilhjálmur næstur til erfða. Hann var eftirlætissonur föður síns en átti eins og hann löngum í útistöðum við elsta bróðurinn, Róbert.

Þegar Vilhjálmur bastarður dó og lönd hans skiptust milli sonanna kom það sér illa fyrir marga normannska aðalsmenn sem áttu lendur beggja vegna Ermarsunds, ekki síst vegna fjandskapsins milli bræðranna, því þeir þurftu nú að þjóna tveimur herrum. Þeir sáu þá lausn að sameina England og Normandí að nýju undir einum þjóðhöfðingja og gerðu því uppreisn gegn Vilhjálmi 1088 undir forystu Odos biskups af Bayeux, hálfbróður Vilhjálms bastarðar. En Róbert kom ekki til Englands til að leiða menn sína og Vilhjálmi tókst að vinna aðalsmennina á sitt band með fjáraustri og loforðum um betri stjórn. Árið 1091 réðist hann svo inn í Normandí, vann sigur á her bróður síns og neyddi hann til að afsala sér hluta af löndum sínum. Þeir sættust þó á endanum og Vilhjálmur stýrði nú öflugasta konungsríki í Evrópu.

Helsti ráðgjafi Vilhjálms bastarðs, sem hafði einnig verið aðalkennari Vilhjálms 2., Lanfranc, erkibiskup af Kantaraborg, lést tveimur árum eftir að Vilhjálmur tók við völdum og hann dró í mörg ár að útnefna nýjan erkibiskup og hirti sjálfur tekjur af erkibiskupsdæminu. Árið 1093 veiktist konungur alvarlega, óttaðist um líf sitt og útnefndi nýjan erkibiskup, Anselm (síðar heilagur Anselm af Kantaraborg), sem talinn var helsti guðfræðingur síns tíma, en þeir urðu fljótt ósammála um margt og árið 1097 fór Anselm í útlegð og leitaði á náðir Úrbans II páfa. Það dugði þó ekki til því að páfi gerði samkomulag við Vilhjálm, sem fékk að hirða tekjur af erkibiskupsdæminu allt til dauðadags.

Vilhjálmur þótti harður í horn að taka í innanlandsmálum og miskunnarlaus stjórnandi. Hann hafði lítið álit á Engilsöxum eins og margir af hans ætt og var óvinsæll konungur. Þegar Róbert bróðir hans ákvað að halda í Fyrstu krossferðina 1096 skorti hann fé til að fjármagna herförina og veðsetti bróður sínum hertogadæmið Normandí fyrir 10.000 mörk, sem var um fjórðungur af árlegum skatttekjum Vilhjálms. Vilhjálmur lagði þungan aukaskatt á allt England til að afla fjárins. Hann stýrði svo Normandí sem ríkisstjóri á meðan Róbert var fjarverandi en hann sneri raunar ekki aftur fyrr en mánuði eftir lát Vilhjálms.

Vilhjálmur varð fyrir örvarskoti og beið bana á veiðum í Nýskógum (New Forest) en óvíst er hvernig það bar að höndum, hver skaut örinni eða hvort það var slysaskot eða viljaverk. Þegar fréttist af láti hans hélt yngsti bróðir hans, Hinrik, þegar til London og lét krýna sig konung, þar sem Róbert hafði enn ekki snúið aftur úr krossferðinni.

Vilhjálmur kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. Ýmislegt er talið benda til þess að hann hafi verið samkynhneigður.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Vilhjálmur 1.
Konungur Englands
(1087 – 1100)
Eftirmaður:
Hinrik 1.