Vilhjálmur frá Skáholti

Vilhjálmur frá Skáholti (Vilhjálmur Björgvin Guðmundsson; 29. desember 19074. ágúst 1963) var íslenskt skáld sem kenndi sig við húsið Skáholt við Bræðraborgarstíg í Reykjavík þar sem hann fæddist, yngstur átta systkina.[1] Fyrsta ljóðabókin hans, Næturljóð, kom út 1931. Á eftir fylgdu Vort daglega brauð (1935), Sól og menn (1948) og Blóð og vín (1957). Hann var vinur Sigfúsar Halldórssonar og samdi ljóðin við lög Sigfúsar, „Litla flugan“ og „Íslenskt ástarljóð“. Önnur ljóð eftir Vilhjálm sem urðu þekkt dægurlög eru „Simbi sjómaður“, „Ó borg mín borg“, „Jesús Kristur og ég“ og „Herbergið mitt“.

Vilhjálmur var þekktur fyrir drykkjuskap sem gat staðið lengi, þótt hann tæki líka tímabil þar sem hann vann erfiðisvinnu. Bróðir hans, Sigurður Guðmundsson, stofnaði Blómatorgið við Birkimel árið 1949, og Vilhjálmur seldi lengi blóm og jólatré þaðan í Austurstræti. Árið 1960 stofnaði hann litla verslun með skrautmuni í Aðalstræti. Síðustu árin bjó hann í tvílyftum bragga á Hjarðarhaga. Hann hrasaði þar og féll niður stiga og rak höfuðið í miðstöðvarofn, sem dró hann til dauða. Samkvæmt annarri sögu lést hann eftir að hafa dottið í stiga í Bjarnaborg við Hverfisgötu.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. Helgi Jónsson (4. apríl 2019). „Vilhjálmur frá Skáholti (1907-1963)“. Glatkistan.
  2. Bragi Kristjónsson (28. ágúst 2014). „Skáldið mitt, ekkert röfl, út með þig!“. Herðubreið.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.