Bjarnaborg að Hverfisgötu 83 var fyrsta fjölbýlishúsið sem byggt var á Íslandi. Húsið var byggt árið 1902 af Bjarna Jónssyni. Húsið var keypt af Reykjavíkurborg árið 1916 og hafði fátækranefnd umsjón með því sem fyrsta félagslega húsnæðið á landinu.[1]

Bjarnaborg árið 2006

Bjarni Jónsson snikkari, timburkaupmaður, fátækrafulltrúi og húsasmiður reisti húsið á árunum 1901 og 1902. Hann er talinn hafa reist að minnsta kosti 140 hús í Reykjavík og vildi reisa húsið sem minnisvarða um sig sjálfan. Bjarnaborg var þá í útjaðri Reykjavíkur og lét Bjarni grafa brunn austan við húsið til að sjá íbúum fyrir vatni þar til Vatnsveitan leysti hann af hólmi árið 1909. Rafmagni var síðan komið á árið 1922.

Bjarni seld húsið árið 1905 Þorvaldi Bjarnarsyni í skiptum fyrir býlið Þorvaldseyri[2] og eftir það voru herbergi og íbúðir leigðar út þar til húsið var í heild sinni selt Reykjavíkurborg 1916. Fátækranefnd borgarinnar hafði húsið undir umsjón sinni og var það leigt fólki sem stóð í húsnæðishraki og fengu margir íbúanna húsaleigustyrk.

Bjarnaborg einkennist af því að hafa verið fyrsta fjölbýlishús landsins þegar þéttbýli var að myndast í Reykjavík, og bjuggu þar til að mynda 168 manns árið 1917.[3]

Heimildir

breyta
  1. Morgunblaðið, Bjarnaborg, Skoðað 16. mars 2015.
  2. thorvaldseyri.is, Saga Þorvaldseyrar, Skoðað 16. mars 2015.
  3. Helgarpósturinn, Bjarnaborg, Skoðað 16. mars 2015.