Vetrargarðurinn var veitingaskáli innan Tívólís í Reykjavík. Tívólíð var í einkaeigu frá 1946 til 1952 en þá keypti íþróttafélagið ÍR allar eignir þess í þeim tilgangi að reka skemmtigarðinn og Vetrargarðinn áfram og nota ágóðann til uppbyggingar íþróttamannvirkja. Fyrstu árin voru góðar tekjur af Tívólí og þá fyrst og fremst af Vetrargarðinum. Í Vetrargarðinum voru oft hátíðarhöld svo sem vegna þjóðhátíðardags, verslunarmannahelgi og sjómannadags. Skrúðgöngur enduðu þar jafnan og þar voru haldnar mjög vinsælar fegurðarsamkeppnir. Miðvikudagskvöld á Vetrargarðinum voru kölluð Kanakvöld en þá komu þar margir hermenn á Keflavíkurvelli og voru til miðnættis en miðvikudagskvöld voru einu kvöldin sem hermennirnir máttu vera utan vallar.

Tekjur af rekstri Vetrargarðsins drógust seinna saman, verslunarmenn fóru að halda fríhelgi sína út í sveit og fegurðarsamkeppnir fluttust annað. ÍR reyndi að sporna við tekjutapinu með að koma upp vísi að dýragarði í Tívolí og voru ljón, tígrisdýr, slöngur, apar og sjaldbökur flutt til Íslands og höfð til sýnis yfir sumarmánuðina og send út aftur þegar kólnaði. Árið 1962 var svo komið að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur veitti aðeins bráðabirgðaleyfi fyrir veitingarekstri í Vetrargarðinum og var það framlengd til áramóta en eftir þar var Vetrargarðinum lokað. ÍR bauð Reykjavíkurborg Tívoli til kaups árið í október 1963 en því var hafnað. Enginn rekstur var í Tívolí árið 1963 en árið 1964 voru eignirnar seldar til skipafélagsins Hafskips sem ætlaði að nota byggingarnar fyrir birgðageymslu.

Vetrargarðurinn var staðsettur í norðurenda Tívólí skemmtigarðins og var á einni hæð með turn fyrir miðju. Framhliðin sem sneri inn í Tívólí var að mestu leyti úr gleri. Hljómsveitir sem spiluðu þar voru á upphækkuðum palli fyrir miðju salarins. Skemmtigarðurinn Tívolí var þegar frá leið aðeins opinn á kvöldin og um helgar. Vetrargarðurinn var opinn flest kvöld. Vetrargarðurinn hafði aldrei vínveitingaleyfi.

Heimildir

breyta