„Varið land“ var undirskriftasöfnun, sem stóð frá 15. janúar til 20. febrúar 1974. Markmiðið var að sýna stuðning landsmanna við veru varnarliðsins á Íslandi eftir að ríkisstjórnin hafði farið fram á endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin. Söfnunin fór þannig fram að sjálfboðaliðar um allt land söfnuðu undirskriftum á sérprentaða, tölusetta lista sem skilað var á skrifstofu "Varins lands". Þegar listunum hafði verið skilað var farið yfir þá til að kanna hvort viðkomandi hefði náð tvítugsaldri, hvort hann fyndist á því heimilisfangi sem tilgreint var, og hvort hann hefði ritað undir oftar en einu sinni. Alls söfnuðust 55.522 gildar undirskriftir kosningabærra manna, eða 49% þeirra sem atkvæði greiddu í alþingiskosningum sama ár. Undirskriftirnar voru afhentar Alþingi 21. mars sama ár. Þessi áskorun Varins lands til alþingismanna olli miklum úlfaþyt og deilum í þjóðfélaginu, en herstöðvaandstæðingar gagnrýndu forgöngumenn undirskriftasöfnunarinnar harkalega fyrir það sem þeir töldu óþjóðlega starfsemi, runna undan rifjum bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Einnig voru forvígismenn undirskriftasöfnunarinnar sakaðir um að ætla að afhenda undirskriftagögnin tilteknum stjórnmálaflokki til stuðnings í komandi alþingiskosningum. Þá voru þeir gagnrýndir fyrir að neita að taka þátt í umræðum, en þeir svöruðu að málið væri landsmönnum gagnkunnugt.

Árið eftir höfðuðu forgöngumenn söfnunarinnar meiðyrðamál á hendur þeim, sem þeir töldu hafa borið þá ósæmilegum sökum, þ.á m. stúdenta við háskólann, sem höfðu verið stóryrtir í skólablaðinu og m.a. krafist þess að þeim forgöngumönnum sem væru starfsmenn háskólans yrði sagt upp stöðum sínum. Nokkrir andstæðingar stofnuðu í framhaldi málfrelsissjóð til að standa straum af kostnaði vegna hugsanlegra og fallinna dóma. 152 háskólamenn og aðrir góðborgarar rituðu nafn sitt undir harðorða yfirlýsingu gegn forvígismönnum undirskriftarsöfnunarinnar. Alls voru höfðuð þrettán dómsmál sem flest enduðu fyrir Hæstarétti. Í öllum málunum voru ummæli ómerkt. Í tólf málum var sakborningum dæmt að greiða málskostnað, í átta málum voru dæmdar sektir og í þremur miskabætur.

Útdráttur úr tilkynningu breyta

 
Við undirritaðir skorum á ríkisstjórn og Alþingi að standa vörð um öryggi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar með því að treysta samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins, en leggja á hilluna ótímabær áform um uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin og brottvísun varnarliðsins.
 
 
— Tilkynning Varins lands, send út 15. janúar 1974

Forgöngumennirnir, 14 talsins undirrituðu tilkynninguna.

Forgöngumenn „Varins lands“ breyta

 • Bjarni Helgason jarðvegsfræðingur
 • Björn Stefánsson skrifstofustjóri
 • Hreggviður Jónsson forstöðumaður
 • Hörður Einarsson hæstaréttarlögmaður
 • Jónatan Þórmundsson prófessor
 • Ólafur Ingólfsson B.A.
 • Óttar Yngvason héraðsdómslögmaður
 • Ragnar Ingimarsson prófessor
 • Stefán Skarphéðinsson framkvæmdastjóri
 • Unnar Stefánsson viðskiptafræðingur
 • Valdimar Magnússon framkvæmdastjóri
 • Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur
 • Þorvaldur Búason eðlisfræðingur
 • Þór Vilhjálmsson prófessor

Ummæli breyta

 
Fallegur er kassinn, hvað sem segja má um innihaldið.
 
 
Ólafur Jóhannesson, þegar honum var afhentur kassi með undirskriftum rúmlega 55 þúsund Íslendinga, sem safnað var í undirskriftasöfnuninni „Varið land“

Tengt efni breyta

Heimildir breyta