Bannárin

(Endurbeint frá Vínbannið)

Bannárin vísa til áfengisbanns sem var við lýði aðallega á fyrri hluta 20. aldar.

Ýmsar þjóðir hafa bannað sölu og neyslu áfengis. Kanadíska lögreglan gerir áfengi upptækt, 1925.

Vestræn ríki á fyrri hluta 20. aldar

breyta

Nokkur vestræn ríki komu á áfengisbanni á fyrri hluta 20. aldar:

  • 1907-1948 á eyju Játvarðs prins í Kanada,[1] um skemmri tíma á öðrum svæðum í Kanada
  • 1907-1992 í Færeyjum, takmarkaður innflutningur frá Danmörku var leyfður frá 1928
  • 1914-1925[2] í Sovétríkjunum
  • 1915-1933 á Íslandi (bjór bannaður fram til 1989)[3]
  • 1916-1927 í Noregi
  • 1919 í Ungverjalandi
  • 1919-1932 í Finnlandi
  • 1920-1933 í Bandaríkjunum

Vínbannið á Íslandi

breyta

Fyrsta góðtemplarareglan á Íslandi var stofnuð á Akureyri í janúar 1884. Starfsemi reglurnar efldist smám saman um land allt og varð áhrifamikið afl í íslenskum stjórnmálum. Árið 1908 var gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort banna ætti sölu og neyslu áfengis á Íslandi. Bannið var samþykkt með um 60% atkvæða. Alþingi þæfði málið nokkuð en samþykkti það árið eftir, en lögin komu til framkvæmda í upphafi árs 1915.

Áfengisbann stóð yfir í 20 ár (eða 7 ár eftir því hvernig á málið er litið). Bannið tók til þess að framleiða og selja áfenga drykki. Sala léttra vína var þó leyfð aftur árið 1922 (Spánarvín), en áfengisbannið var síðan afnumið alveg 1935. Bjór sem hafði verið leyfður fyrir 1915 var þó ekki leyfður aftur á Íslandi fyrr en 1. mars 1989. Þjóðaratkvæðagreiðslur voru haldnar um áfengisbann 1908 og 1933.

Áfengisauglýsingar voru bannaðar á Íslandi með lögum frá árinu 1928 meðan áfengisbannið var enn í gildi. Áfengisbanninu var svo aflétt 7 árum seinna, en auglýsingabannið hefur haldist síðan.[4]

Sigurður Grímsson, lögfræðingur og þýðandi, sagði frá því í viðtali í Morgunblaðinu árið 1974, þegar Alþingi samþykkti innflutning á Spánarvínum 1922. Hann var þá þingfréttaritari og lýsti þá einnig hvernig aðstæður höfðu verið áður en banninu var aflétt:

Á þingritaraárum mínum var ég viðstaddur þann sögufræga fund sem samþykkti innflutning á Spánarvínunum. Þá hafði verið algert vínbann í nokkur ár með hörmulegum afleiðingum, smygli, þefi, sektum, þrætum, kærum og bruggi. Þá varð maður að bjarga sér á ýmsa lund t.d. með svokölluðum hundaskömmtum hjá læknum, en það voru 210 grömm af hreinum spíra. En þessi fundur var ákaflega skemmtilegur. Forseti sameinaðs þings, Magnús Kristjánsson, var alltaf að ruglast í ríminu, og Benedikt Sveinsson og Guðmundur Björnsson landlæknir, leiðréttu hann í sífellu, spruttu á fætur og kölluðu til skiptis: „Herra forseti,... herra forseti.“ Þeir voru báðir góðglaðir, og það sem verra var olíulampinn í skrifstofu landlæknis hafði ósað allmikið og bar Guðmundur þess ljós merki.[5]

Jónas Jónsson frá Hriflu og Tryggvi Þórhallsson kusu gegn afléttingu bannsins árið 1922. Jónas sagði í grein í Tímanum 1939:

Þegar Spánarvínin voru leyfð, var ég annar af þeim tveim þingmönnum, sem greiddi atkvæði gegn undanhaldinu við Spánverja. Og árið 1928 undirbjó ég hina síðustu sókn, sem Alþingi gerði í löggjöf um áfengismálin. Með tilstyrk þeirrar löggjafar var læknabrennivínið og skipabrennivínið upprætt. En þjóðin þoldi ekki þetta aðhald. Jafnvel ungmennafélögin höfðu afnumið bindindisheitið, og tvær stærstu hátíðir félaganna voru orðnar landskunnar fyrir opinbera stórdrykkju.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. Heath, Dwight B. (1995). International handbook on alcohol and culture. Westport, CT. Greenwood Publishing Group, p. 21 There seems to be agreement in the literature for 1948 but various dates are given for the initiation of PEI's prohibition legislation. 1907 is the latest. 1900, 1901 and 1902 are given by others.
  2. "Sobering effect: What happened when Russia banned booze"
  3. Associated Press, Beer (Soon) for Icelanders, New York Times, May 11, 1988
  4. Morgunblaðið 1995
  5. Fulltrúi á erlendu kommúnistaþingi; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1974
  6. Um innblástur; grein í Tímanum 1939

Tenglar

breyta
   Þessi sögugrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.