Tilraunafélagið
Tilraunafélagið var stofnað í Reykjavík 1905 til að sinna sálarrannsóknum og spíritisma. Félagið hélt miðilsfundi sem fóru fram í heimahúsum og voru ýmis miðilsefni prófuð. Mesta miðilshæfileika þótti Indriði Indriðason hafa. Tilraunafélagið fékkst aðallega við rannsóknir á miðilshæfileikum Indriða. Indriði lést úr berklum árið 1912 og þá hætti félagið starfsemi.
Félagið var leynilegt en af heimildum má ráða að félagsmenn hafi m.a. verið Björn Jónsson ritstjóri Ísafoldar sem var ráðherra 1909-1911, Einar H. Kvaran rithöfundur og ritstjóri Fjallkonunnar, Haraldur Níelsson Prestaskólakennara, síðar prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, Skúli Thoroddsen ritstjóri Þjóðviljans og alþingismaður, Björn Kristjánsson kaupmaður og bankastjóri, Indriði Einarsson hagfræðingur og rithöfundur, Páll Einarsson borgarstjóri, Brynjólfur Þorláksson organisti, Ólafur Rósenkranz kennari, Jón Jónsson Aðils sagnfræðingur, Ásgeir Sigurðsson, stórkaupmaður og breskur konsúll, læknarnir Björn Ólafsson og Guðmundur Hannesson, síðar prófessor og Þórður Sveinsson síðar yfirlæknir á Kleppspítalanum og Guðmundur Finnbogason heimspekingur
Tilraunafélagið kom sér upp húsi fyrir starfsemi sína og þar bjó miðillinn og voru honum tryggð laun. Á miðilsfundi komu oft um 70 manns en félagsmenn munu hafa verið 80-100. Félagsmenn borguðu árgjald og inntökugjald og var það svo hátt að það var ekki á færi alþýðumanna að vera í félaginu.
Út kom bókin Úr dularheimum en sú bók var sögð rituð með ósjálfráðri skrift af einum að miðilsefnum félagsins, menntaskólanema Guðmundi Jónssyni að nafni en hann gerðist seinna rithöfundur og kallaði sig þá Guðmund Kamban.
Miklar blaðadeilur urðu um spíritisma frá 1905 og voru heldri menn bæjarins sakaðir um galdra og kukl.