Suðursjávarbólan
Suðursjávarbólan er flókinn atburður í fjármálasögunni þar sem stjórnmálafræðilegir, lögfræðilegir og fjármálaþættir skárust og mynduðu eina verstu markaðsbólu sögunnar.
Upphafið
breytaSuðursjávarkompaníið var stofnað árið 1711 með því yfirlýsta markmiði að stunda viðskipti við nýlendur Spánverja í Ameríku. Almenningur hafði heyrt af þeim miklu gull- og silfurnámum í bæði Perú og Mexíco og töldu að viðskiptin myndu borga sig hundraðfallt um leið og Breskir framleiðendur kæmust í námurnar og að Bretar gætu einnig grætt á viðskiptum með klæðnað úr flísi og ull. Viðræður að samningum voru settar á fót en niðurstaðan varð sú að samningar voru gerðir um viðskipti með þræla og eitt flutningaskip á ári. Í raunveruleikanum var aðalmarkmið fyrirtækisins að stuðla að fjármögnun breskra ríkisskulda en ekki eiga viðskipti við útlönd.
Í byrjun 18 aldar voru Bretar stórveldi og velmegun þeirra og ríkidæmi dafnaði. Stór hluti fólks átti næga peninga til að fjárfesta og voru í leit að tækifærum til þess. Eftir stríð Breta og Frakka við hvora aðra stóðu Bretar þó í talsverðri skuld og horfðu Bretar til lausna Frakka í því sambandi þar sem John Law nokkur hafði komið af stað enduskipulagningu franska fjármálakerfisins með því að breyta ríkisskuldum í hlutabréf í Mississippi félaginu. Eftir að hafa horft upp á velgengni Mississippi félagsins ákváðu Bretar að koma af stað samskonar áætlun til þess að endufjármagna skuldir sínar og fór af stað einskonar kapphlaup landanna á milli. Gegn því að kaupa skuldir Breta og breyta í hlutafé fékk Suðursjávarfélagið einkaleyfi fyrir viðskiptunum góðu við nýlendur Spánverja. Þessi samningur kom sér einkar vel fyrir báða aðila þar sem ríkið græddi lægri vexti og flóknum skuldabréfum þeirra var breytt í einsleitari og meðfærilegri verðbréf. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem slíkt var á Englandi gert en bæði höfðu Englandsbanki og Austur-Indíafélagið gert slíkt hið sama. Suðursjávarfélagið tók yfir skuldir sem tengdar voru Spænsku erfðastríðunum þegar það var stofnað og 21. Mars, árið 1720 tók það yfir skuldir breska ríkisins. Félagið féllst á að greiða ríkinu allt að 7,5 milljónum punda ef það næði að umbreyta skuldunum yfir í hlutabréf. Auk þess að taka yfir skuldir fyrir 31 milljón pund frá Breska ríkinu mútaði félagið þingmönnum og öðrum stjórnmálamönnum kóngsins sem svaraði 1,3 milljónum punda. Vextirnir sem ríkið greiddi fyrir skuldir til Suðursjávarfélagsins voru áætlaðir 5 % þangað til 1727 en eftir það yrðu þeir 4 % sem var mun minna en ríkið hefði annars greitt.[1] Félagið mútaði þingmönnum og stjórnmálamönnum fyrir stuðning þeirra en alls námu múturnar 1,3 milljónum sem fyrirtækið fjármagnaði með útgáfu nýs hlutafés. Stuðningur stjórnmálamann ýtti undir traust almennings á félaginu en þeir höfðu enga ástæðu til að koma í veg fyrir viðskipti félags sem þeir sjálfir áttu hlut í.[2] Árið 1720 var verð hlutabréfanna um 120 fyrir hvert 100 pund og fréttir breiddust út af yfirtöku ríkisskulda fyrir 31 milljón punda. Verð bréfanna tók að hækka og rauk upp í 350 um leið og þingið samþykkti áform félagsins og hækkaði enn meir eftir að tilkynnt var um 10 % arðgreiðslur til félaga í eiginhlutabréfum. Ríkisskuldir Breta lækkuðu í kjölfarið umtalsvert, fyrrum lánadrottnar sáu verð bréfa sinna hækka og Suðursjávarfélagið kom út í töluverðum gróða.
Vaxandi vinsældir
breytaStjórnandi félagsins John Blunt stóð sig vel í því starfi að skrúfa verð bréfanna sem mest upp með ýmsum aðferðum og hafði m.a. greiðan aðgang að fjölmiðlum sem dreifðu sögusögnum um væntanlegan gróða fyrirtækisins. Orðspor félagsins óx og starfsmenn þess ýktu velgengni fyrirtækisins í augum fjárfesta og slóu ryki í augun á þeim með ríkulegum skrifstofum og íburði. Það komst í tísku að að eiga hlut í Suðursjávarkompaníinu og fjárfestar flykktust að. Félagið bauð reglulega út nýtt hlutafé og reyndi að fækka bréfum á eftirmarkaði á þann máta að afhenda kaupendum ekki bréfin samstundis, í kjölfarið urðu framvirkir samningar á bréf Suðursjávarfélagsins vinsælir. Þessar vinsældir og gríðarleg sala á hlutabréfum á suðursjávarfélaginu náðist án þess að félagið sýndi nokkurn tímann upp á einhvern raunverulegann alvöru rekstur. Til að ná að borga út arð þurfti suðursjávarfélagið stöðugt að fá meira hlutafé og þurfti einnig á því að halda að verð á hlutabréfum þess færi stöðugt upp á við. Í rauninni virkaði félagið eins og það sem er þekkt í dag sem ponzi svikamylla. Þær einkennast af því að fjárfestum er greidd ávöxtun með þeirra eigin fé frekar heldur en að fé þeirra sé notað í fjárfestingar sem skili svo arði sem hægt er að deila út til fjárfesta.[3] Þeir sem höfðu fjárfest hvað fyrst í hlutafé félagsins höfðu stórgrætt þegar leið á og komið var sumar og höfðu margir fjárfestar sex eða sjö faldað höfuðstól sinn.[4]
Í kjölfar vinsælda hlutabréfa í suðursjávarfélaginu þá braust út mikið hlutabréfaæði á Englandi. Fyrirtæki með lítinn sem engin rekstraráform eða jafnvel í hæsta máta óvenjulegar hugmyndir um rekstur spruttu upp. Má þar meðal annars nefna fyrirtæki sem ætlaði að finna upp eilífðarvél, annað sem ætlaði að framleiða ferhyrndar byssukúlur, fyrirtæki sem ætlaði að tryggja framtíðarvelferð barna og eitt það undarlegasta af þeim öllum, Fyrirtæki um mjög gróðavænlegan atvinnurekstur sem enginn fær að vita hver er. Þó ótrúlegt megi virðast þá var fjárfest fyrir 2000 pund í síðast nefnda fyrirtækinu.[5]
Bólulögin
breytaÍ kjölfar vinsælda þessara fyrirtækja fóru stjórnendur Suðursjávarfélagsins að hafa áhyggjur af því að verða af fé til þeirra sem annars hefði verið varið í hlutabréf Suðursjávarfélagsins. Um mitt sumar byrjuðu þeir því að reka áróður fyrir því að bannað yrði að stofna ný hlutafélög nema gegn sérstöku samþykki þingsins. Þetta fór ekki á þann veg sem þeir ætluðu þar sem þingið samykkti lög sem höfðu mun tilþrifameiri áhrif en þeir höfðu búist við. Lögin kváðu á um það að ekki mætti stofna nýtt hlutafélag nema með samþykki breska samveldisins. Allar tilraunir félagsins til að halda verði verðbréfanna uppi mistókust hrapalega og urðu bréf blöðrufyrirtækjanna verðlaus ásamt að draga niður með sér verð í traustum félögum svosem Englandsbanka sem hafði fylgt með í verðhækkuninni. Allur hlutabréfamarkaðurinn hrundi í kjölfarið, verðmæti bréfa hríðféll, ekki bara í hinum bólufyrirtækjunum eins og stjórnendur Suðursjávarfélagsins höfðu vonast til heldur einnig í þeirra eigin félagi. Leiddi þetta til fjölda gjaldþrota fólks í Englandi og var reiði fólks út gagnvart stjórnendum Suðursjávarfélagsins eins og gefur að skilja mjög mikil. Fjöldi fólks úr efri stéttum, eignamenn og jafnvel hirðmenn konungs urðu gjaldþrota og einhverjir gengu algjörlega af göflunum eða frömdu sjálfsmorð. Á einu ári hafði verð hlutabréfa Suðursjávarfélagsins risið úr 100 pundum upp í 1000 pund í byrjun ágústs sama ár. Í september var verðið komið niður í 150 pund og urðu þá bankar og gullsmiðir gjaldþrota þar sem þeir gátu ekki innheimt skuldir fólks sem hafði farið illa útúr hruninu. Einn af þeim sem lét glepjast og keypti hlut í Suðursjávarfélaginu var vísindamaðurinn Isaac Newton. Hann ákvað að selja hlut sinn snemma í bólunni með gróða upp á 7000 pund vegna efasemda, snérist honum hugur og keypti stærri hlut seinna í bólunni og endaði á að tapa 20.000 pundum sem var umtalsverð fjárhæð á þessum tíma. Fræg ummæli voru tekin frá honum í tenglsum við bóluna þar sem hann mælti svo; „Ég get reiknað út hreyfingar stjarnanna en ekki brjálæði mannanna“.[6]
Endalok bólunnar og afleiðingar
breytaAllur hlutabréfamarkaðurinn hrundi í kjölfarið, verðmæti bréfa hríðféll, ekki bara í hinum bólufyrirtækjunum eins og stjórnendur Suðursjávarfélagsins höfðu vonast til heldur einnig í þeirra eigin félagi. Leiddi þetta til fjölda gjaldþrota fólks í Englandi og var reiði fólks gagnvart stjórnendum Suðursjávarfélagsins eins og gefur að skilja mjög mikil.
Afleiðingar í kjölfar þessarar bólu voru meðal annars þær að hlutabréfaformið var nærri því gert útlægt í Bretlandi í heila öld. Þetta varð hins vegar einnig til þess að regluverkinu í kringum slík viðskipti var breytt til hins betra í Bretlandi, sem varð þess valdandi að þegar lengra leið frá því að bólan sprakk, voru Bretar jafnvel betur settir en þeir hefðu annars verið. Annað en til að mynda Frakkar sem fóru mjög illa út úr Mississippi bólunni.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „South Sea Company“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. janúar 2013.
- ↑ Garber, P. M. (1990). Famous first bubbles. The Journal of Economic Perspectives, bindi. 4, nr. 2., bls. 35-54.
- ↑ Garber, P. M. (1990). Famous first bubbles. The Journal of Economic Perspectives, bindi. 4, nr. 2., bls. 35-54.
- ↑ „Ponzi svikamyllur“[óvirkur tengill] af www.deiglan.com Skoðað 30. jan 2013
- ↑ Magnús Sveinn Helgason. (2007, 26. október). Suðursjávarblaðran: Hlutabréfaæði gekk yfir England og hlutabréfaviðskipti urðu helsta umræðuefni fólks Viðskiptablaðið, bls. 23.
- ↑ „South Sea Bubble“ af www.historic-uk.com Skoðað 28. jan 2013
- ↑ Magnús Sveinn Helgason. (2007, 26. október). Suðursjávarblaðran: Hlutabréfaæði gekk yfir England og hlutabréfaviðskipti urðu helsta umræðuefni fólks Viðskiptablaðið, bls. 23.
Tenglar
breyta- Riding the South Sea Bubble Geymt 16 september 2012 í Wayback Machine
- THE MYTHS OF THE SOUTH SEA BUBBLE[óvirkur tengill]
- Memoirs of Extraordinary Popular Delusions and the Madness of Crowds: Chapter 2 The South-Sea Bubble