Steinunn Gestsdóttir

Steinunn Gestsdóttir (f. 17. júní 1971) er prófessor í sálfræði og aðstoðarrektor kennslumála og þróunar við Háskóla Íslands.[1] Rannsóknir hennar beinast að sjálfstjórnun barna og ungmenna og hvernig hún tengist farsælli þroskaframvindu.

Steinunn Gestsdóttir
StörfPrófessor í sálfræði og aðstoðarrektor kennslumála og þróunar við Háskóla Íslands

Ferill breyta

Steinunn lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1996, MA-prófi í sálfræði frá Boston University í Bandaríkjunum 2001 og doktorsprófi í þroskasálfræði (Applied Child Development) frá Tufts University, Medford, Massachusetts, 2005. Árin 2005-2008 var Steinunn lektor í þroskasálfræði við Kennaraháskóla Íslands, síðan Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2008-2009. Hún var dósent við Menntavísindasvið 2009-2013 og við Sálfræðideild Háskóla Íslands 2013-2015.[2] Steinunn hefur verið prófessor við Sálfræðideild HÍ frá 2015[3] og varð þar með fyrsti kvenprófessorinn við deildina.[4] Hún hefur einnig verið aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands frá 2016.[5]

Kennsla Steinunn er á sviði þroskasálfræði, sálfræði náms og menntunar, áhættuhegðunar og seiglu ungmenna, auk aðferðafræði rannsókna. Hún hefur auk þess verið leiðbeinandi í fjölmörgum lokaverkefnum á grunnnáms- og framhaldsnámsstigi, í doktorsverkefnum og átt sæti í doktorsnefndum.[6]

Rannsóknir breyta

Rannsóknir Steinunnar spanna vítt svið innan þroskasálfræði um þroska barna og unglinga og hefur hún átt samstarf við erlenda og íslenska rannsakendur. Hún hefur stýrt og tekið þátt í fjölda langtímarannsókna sem snúa helst að sjálfstjórnun, farsælum þroska, námsáhuga og námsgengi barna og ungmenna, allt frá leikskólaaldri og fram á fullorðinsár.[7][2]

Birtingar Steinunnar snúa að þróun sjálfsstjórnunar og hlutverki hennar í farsælum þroska og námsgengi. Hún hefur einna helst skoðað hvernig sjálfsstjórnun þróast og breytist á unglingsárum og hvaða þýðingu það hefur fyrir annan þroska ungmenna. Hún hefur sérstaklega tengt sjálfsstjórnun við farsælan þroska ungmenna (e. positive youth development), sem vísar í ýmsa styrkleika sem ungmenni hafa til að bera, svo sem heilbrigða sjálfsmynd, trú á eigin getu, góð samskipti, umhyggju og siðferðisþroska. Rannsóknir Steinunnar hafa einnig skoðað tengsl sjálfstjórnunarhæfni við námsgengi, svo og ýmsa erfiðleika, t.a.m. áhættuhegðun og einkenni kvíða og þunglyndis. Steinunn og samstarfsfólk hennar hafa gert samanburð á slíkum niðurstöðum sem þau fengu með íslenskum ungmennum og bandarískum jafnöldrum þeirra. Í rannsóknum sínum hefur Steinunn einnig beint sjónum að sjálfsstjórnun yngri barna, bæði á leikskólaaldri og við upphaf grunnskólagöngu. Niðurstöður hennar og samstarfsfólks sýna að slík geta tengist velferð barna síðar meir, ekki síst námsgengi, t.a.m. í stærðfræði og lestri.[8][9]

Í rannsóknum Steinunnar hafa hún og samstarfsfólk hennar að auki borið saman sjálfstjórnunarfærni stúlkna og drengja á Íslandi við niðurstöður barna í Þýskalandi og Frakklandi.[10]

Þær niðurstöður sem hér hefur verið lýst (og aðrar) hafa verið birtar í fjölda ritstýrðra vísindarita og bóka, þ.m.t. í handbókum og alfræðiorðabókum.

Ýmis störf og verkefni breyta

Steinunn hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum á sviði vísinda og æðri menntunar, hún hefur m.a. átt sæti í stjórnum Rannsóknasjóðs Íslands, Vísindafélags Íslendinga, Nýsköpunarsjóðs námsmanna og ritstjórn Sálfræðiritsins, auk þess að sitja í Vísinda- og tækniráðs Íslands, m.a. sem varaformaður Vísindanefndar ráðsins. Hún hefur setið í ýmsum nefndum innan Háskóla Íslands á sviði stefnumótunar, rannsókna og kennslu, m.a. sem formaður stýrihóps Heildarstefnu skólans (2015-2016), Kennslumálanefndar HÍ (frá 2016), stjórnar Menntavísindastofnunar HÍ (2009-2013) og rannsóknarráðs Menntavísindasviðs HÍ (2009-2013). Hún hefur einnig setið í Úttektarnefnd (2012) og Vísindanefnd (2009-2013) skólans.[2][5]

Viðurkenningar breyta

Árið 2015 fékk Steinunn Fjöruverðlaunin sem einn af höfundum bókarinnar „Ofbeldi á heimili: Með augum barna“[11] og verðlaun Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna fyrir sömu bók.[12]

Einkalíf breyta

Steinunn er gift Atla Magnússyni atferlisfræðingi. Þau eiga þrjú börn.[4]

Heimildir breyta

  1. Háskóli Íslands. Aðstoðarrektor kennslumála og þróunar. Steinunn Gestsdóttir. Sótt 14. ágúst 2019
  2. 2,0 2,1 2,2 „Háskóli Íslands. Steinunn Gestsdóttir. Aðstoðarrektor kennslu og þróunar. Prófessor í sálfræði. Ferilskrá“. Sótt 14. ágúst 2019.
  3. Háskóli Íslands. (2015). Átta fengu framgang í starfi á Heilbrigðisvísindasviði. Sótt 14. ágúst 2019
  4. 4,0 4,1 „Gunnþóra Gunnarsdóttir. (2015, 3. júlí). Tímabært að kominn sé kvenprófessor í sálfræði. Visir.is“. Sótt 14. ágúst 2019.
  5. 5,0 5,1 „Háskóli Íslands. (2016). Aðstoðarrektorar og framkvæmdastjóri stjórnsýslu ráðnir“. Sótt 14. ágúst 2019.
  6. Háskóli Íslands. Aðstoðarrektor kennslumála og þróunar. Steinunn Gestsdóttir. Ferilskrá. Sótt 14. ágúst 2019
  7. Háskóli Íslands. Sjálfsstjórn mikilvæg fyrir gengi í skóla. Steinunn Gestsdóttir, dósent við Uppeldis- og menntunarfræðideild. Sótt 14. ágúst 2019
  8. ORCID. Steinunn Gestsdóttir. Sótt 14. ágúst 2019
  9. ResearchGate. Steinunn Gestsdóttir. Sótt 14. ágúst 2019
  10. Vísindavefurinn. (2018). Hvað hefur vísindamaðurinn Steinunn Gestsdóttir rannsakað? Sótt 14. ágúst 2019
  11. Háskóli Íslands. (2015). Hlutu Fjöruverðlaunin fyrir fræðibók og unglingabók. Sótt 14. ágúst 2019
  12. Hagþenkir félag höfunda fræðirita og kennslugagna. (2015). Viðurkenning Hagþenkis 2014: Ofbeldi á heimili – Með augum barna Geymt 15 ágúst 2019 í Wayback Machine. Sótt 14. ágúst 2019