Stefanía Óskarsdóttir

Stefanía Óskarsdóttir (f. 7. ágúst 1962) er stjórnmálafræðingur og dósent við Stjórnmálafræðdeild Háskóla Íslands.

Ferill breyta

Stefanía hefur starfað við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2011. Hún stundaði doktorsnám í stjórnmálafræði við Purdue University, West Lafayette, Indiana og lauk þaðan doktorsprófi árið 1995. Hún lauk MA prófi árið 1988 og BA prófi árið 1986 frá Purdue. Stefanía lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1982.

Stefanía hefur stundað rannsóknir í samanburðarstjórnmálum með áherslu á íslensk stjórnmál. Á síðustu árum hefur hún aðallega rannsakað þróun þingræðisskipulagsins á Íslandi og hvernig hagsmunasamtök koma að opinberri ákvarðanatöku. Niðurstaða Stefaníu er að íslensk stjórnskipun hafi þróast frá þingræði til forsetaþingræðis eftir hrun. Sú þróun hefur leitt af sér aukin pólitísk völd forseta Íslands varðandi löggjöf. Þessi völd veita forsetanum einnig möguleika á að styrkja vægi sitt pólitískt innan framkvæmdarvaldsins.

Fræðimenn hafa einkum skoðað þegar forsetaþingræði er skilgreint hvort framkvæmdarvaldið liggur bæði hjá ríkisstjórn og forseta. Í skilgreiningu á hugtakinu forsetaþingræði hefur löggjafarvaldið aftur á móti fengið minna vægi. Á Íslandi sýnir stjórnskipuleg þróun engu að síður að handhafar löggjafarvaldsins skipta máli í þessu sambandi. Einnig er styrkur þingsins mikilvægur þegar um er að ræða valdajafnvægi á milli forseta og ríkisstjórnar. Sá styrkur hefur m.a. áhrif á stjórnmálalega túlkun stjórnarskrárbundins hlutverks forsetans.

Varðandi aðkomu hagsmunaaðila við opinbera ákvarðanatöku þá sýna niðurstöður rannsókna Stefaníu að skipulögð hagsmunasamtök eru að jafnaði höfð með í ráðum við framkvæmd og mótun opinberrar stefnu á Íslandi. Til dæmis er hér núna í samanburði við Skandinavíu mun meira um það að ráðherrar skipi opinberar nefndir eða ráð til að móta eða framkvæma opinbera stefnu þar sem fulltrúar hagsmunasamtaka eiga sæti. Þannig formlegt samráð (e. corporatism) hefur á hinn bóginn mikið gefið eftir í Skandinavíu á undanförnum áratugum. Þróunin hérlendis er því í fræðilegu samhengi athyglisverð og endurspeglar styrk hagsmunasamtaka og jafnframt skipulag og smæð opinberrar stjórnsýslu á Íslandi.

Stefanía tekur nú þátt í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi varðandi tengsl hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka. Hún vinnur jafnframt með öðrum að rannsókn um áhrif hugveitna (e. think tanks) á opinbera stefnumótun ásamt rannsókn á upplifun af hálfu þingmanna á þingmannsstarfinu.

Æska og einkalíf breyta

Stefaníu er dóttir Guðlaugar Þorleifsdóttur og Óskars V. Friðrikssonar en þau er bæði látin. Stefanía er gift Jóni Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og eiga þau tvo syni, Benedikt Atla, fæddan 1991 og Friðrik, fæddan 2003. Stefanía er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún stundaði nám í Breiðholtsskóla frá 1969 til 1975. Hún var í Kvennaskólanum í Reykjavík frá 1975 til 1978.

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.