Spáskáldskapur
Spáskáldskapur eða furðusögur er flokkur bókmenntagreina sem snúast um hluti sem ekki eiga sér samsvörun í veruleikanum eins og við þekkjum hann. Hugtakið er notað yfir skáldskap sem fæst við yfirnáttúrulega hluti, gerist í ímyndaðri framtíð eða hliðarveruleika. Bókmenntagreinar sem taldar eru til spáskáldskapar eru meðal annars fantasíur, hrollvekjur, vísindaskáldskapur, efsögur, útópíur og dystópíur, og ofurhetjusögur. Þessar aðalgreinar skiptast svo í fjölmargar undirgreinar og blandaðar greinar, eins og vísindafantasíur, draugasögur, vampírusögur, gufupönk og sæberpönk, og heimsendaskáldskap.