Slysavarnafélag Íslands

Slysavarnafélag Íslands var stofnað 29. janúar 1928. Félaginu var ætlað það hlutverk að draga úr slysum á sjó og koma upp búnaði til björgunar. Á stofnfundinum gengu 200 manns í félagið. Lögð var áhersla á að félagið yrði þverpólitískt.

Saga félagsins

breyta

Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir:

  • Guðmundur Björnsson, landlæknir
  • Magnús Sigurðsson, bankastjóri
  • Geir Sigurðsson, skipstjóri
  • Þorsteinn Þorsteinsson, skipstjóri
  • Sigurjón Á. Ólafsson, alþingismaður

Aðdragandi að stofnun SVFÍ var nokkuð langur en á þessum tíma var ekki óalgengt að tugir sjómanna létu lífið í sjóslysum á ári hverju.

Í kjölfar strands Jóns forseta við Stafnes aðfaranótt 27. febrúar 1928, þar sem 15 manns fórust en 10 var bjargað við erfiðar aðstæður, hófst stofnun slysavarnadeilda víðsvegar um landið. Fyrsta slysavarnadeildin var Sigurvon í Sandgerði.

Ásamt stofnun slysavarnadeilda beitti Slysavarnafélagið sér fyrir útbreiðslu svokallaðra fluglínutækja til slysavarnadeildanna um landið, en fluglínutæki eru sérhæfður búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum.

Fyrsta björgun með fluglínutækjum var þegar Slysavarnadeildinni Þorbirni í Grindavík auðnaðist sú mikla gæfa að bjarga 38 manna áhöfn franska síðutogarans Cap Fagnet frá Fécamp, sem strandaði í slæmu veðri við bæinn Hraun, austan Grindavíkur, aðfaranótt 24. mars 1931. Slysavarnadeildin Þorbjörn hafði verið stofnuð röskum 5 mánuðum áður eða þann 2. nóvember 1930. Síðan þá hefur þessari einu slysavarnadeild og björgunarsveit hennar tekist að bjarga 205 sjómönnum með fluglínutækjum úr strönduðum skipum, en samtals eiga 232 sjómenn þessari einu slysavarnadeild líf sitt að launa.

Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjum og íslenskum slysavarnadeildum og björgunarsveitum líf sitt að launa.

Björgunarskip

breyta

Slysavarnafélag Íslands beitti sér einnig fyrir kaupum á björgunarbátum og -skipum. Fyrsti björgunarbátur félagsins kom til landsins í apríl 1929 og var nefndur Þorsteinn, eftir Þorsteini Þorsteinssyni skipstjóra sem gaf félaginu andvirði bátsins. Þorsteinn, sem var keyptur notaður af hinu konunglega breska björgunarbátafélagi Royal National Lifeboat Institution (RNLI), var fyrst um sinn staðsettur í Reykjavík en var síðar komið fyrir í Sandgerði. Þorsteinn var drifinn með seglum og árum en seinna var sett vél í bátinn. Síðar var hann að nýju staðsettur í Reykjavík uns hann varð fyrir skemmdum og í kjölfarið tekinn úr notkun. Þorsteinn er varðveittur í Sandgerði.

Fljótlega eftir stofnun Slysavarnafélagsins komu fram hugmyndir um hafa björgunarskútur í hverjum landsfjórðungi og voru stofnaðir sérstakir björgunarskútusjóðir til að halda utan um fjármagn sem safnaðist. Vegna nafngiftar sjóðanna voru þau björgunarskip sem sjóðirnir styrktu smíði á oft kölluðu björgunarskútur þrátt fyrir að aðeins eitt þessara skipa hafi í raun verið skúta. Vel gekk að safna fyrir björgunarskútu fyrir Faxaflóasvæðið og árið 1937 kom til landsins björgunarskútan Sæbjörg sem sérsmíðuð var fyrir félagið. Sæbjörg var seglskip með hjálparvél og var í raun strax óhentug þar sem útgerð seglskipa var að leggjast af og flest önnur skip af sömu stærð mun öflugri. Hugmyndin hafði hins vegar verið sú að lágmarka útgerðarkostnað en seglabúnaður skipsins var óhentugur og hin litla vél því væntanlega mikið notuð. Árið 1945 var tekin ákvörðun um gera umtalverðar breytingar á Sæbjörgu. Var hún m.a. lengd og sett í hana mun öflugri vél auk þess sem byggð var á hana ný brú. Í apríl 1948 tók íslenska ríkið Sæbjörgu á leigu og gerði Landhelgisgæslan hana út sem björgunar- og varðskip til ársins 1965.

Næsta björgunarskúta var smíðuð fyrir Vestfirði. Árið 1950 fékk félagið afhent björgunarskip sem fékk nafnið María Júlía. Hluti af andvirði hennar var greiddur af Björgunarskútusjóði Vestfjarða. María Júlía var smíðuð úr eik og var tæpar 140 brúttórúmlestir að stærð. Eftir að hætt var að gera Maríu Júlíu út sem björgunarskip var henni breytt í fiskiskip og hún gerð út sem slík til margra ára. María Júlía liggur nú í höfninni á Ísafirði en til stendur breyta henni í safn.

Þriðju björgunarskútuna fékk Slysavarnafélagið árið 1956. Skipið sem var um 200 brl. stálskip fékk nafnið Albert og var hann annað stálskipið sem smíðað var á Íslandi. Hluti af andvirði Alberts var greiddur af Björgunarskútusjóði Norðurlands. Við smíði bæði Maríu Júlíu og Alberts var samið við íslenska ríkið um að skipin yrðu gerð út af Landhelgisgæslunni sem björgunar- og varðskip.

Árið 1956 kom einnig til landsins nýr og fullkominn björgunarbátur sem staðsettur var í Reykjavík. Báturinn var nefndur Gísli J. Johnsen í höfuðið á Gísla J. Johnsen stórkaupmanni sem gaf félaginu andvirði bátsins. Árið 1989 keypti félagið notað björgunarskip af RNLI sem leysti Gísla J. Johnsen af hólmi og fékk það nafnið Henry A. Hálfdansson. Árið 1993 keypti félagið notað björgunarskip af þýska slysavarnafélaginu og staðsetti í Sandgerði. Var það nefnt Hannes Þ. Hafstein. Árið 1996 keypti félagið notuð björgunarskip af hollenska slysavarnafélaginu og staðsetti á Neskaupstað, Raufarhöfn og á Rifi og árið 1997 voru enn keypt notuð skip af Þjóðverjum og staðsett á Siglufirði og Ísafirði. Öll þessi skip hafa verið tekin úr notkun.

Í dag eru gerð út 13 björgunarskip allt í kringum landið auk fjölmargra minni björgunarbáta, þ.e. slöngubáta og harðbotna slöngubáta, og hefur félagið alla tíð notið velvilja og stuðnings landsmanna til kaupa og reksturs þeirra. Flest núverandi björgunarskipa eru af svokallaðri ARUN gerð og keypt af Konunglega breska björgunarbátafélaginu RNLI. Fyrsta slíka skipið var staðsett í Grindavík árið 1998 og fékk það nafnið Oddur V. Gíslason, eftir hinum kunna presti sem þjónaði á Stað í Grindavík á seinni hluta 19. aldar, en hann var frumkvöðull slysavarna á Íslandi. ´

Fyrsta þyrlan

breyta

Árið 1947 stóð Elding Tranding Co. fyrir innflutningi á þyrlu til kynningar sem mögulegu björgunartæki i samstarfi við Slysavarnafélagið. Þyrlan var af gerðinni Bell 47J og bar einkennisstafina TF-HET.[1] Röskum tveimur áratugum síðar, eða árið 1968, keyptu Slysavarnafélagið og íslenska ríkið saman fyrstu þyrluna, TF-EIR.

Tilkynningaskyldan

breyta

Árið 1968 fól ríkið Slysavarnafélaginu að koma á fót og reka Tilkynningaskyldu íslenskra skipa. Mikil umræða hafði verið árin þar á undan um mikilvægi slíkrar þjónustu og höfðu Vestmannaeyingar verið með vísi af einhvers konar tilkynningaskyldu fyrir sína báta. Það var þó ekki fyrr en síldarbáturinn Stígandi fórst djúpt norður í höfum í ágúst mánuði árið 1967 að málið komst á rekspöl. Á þessum tíma voru engar markvissar upplýsingar um ferðir skipa. Þó var vitað að Stígandi væri á landleið. Þegar skipið skilaði sér ekki til lands var farið að óttast um að og fljótlega hófst mikil leit. Rétt tæpum fimm sólarhringum eftir slysið fannst áhöfn skipsins á reki í björgunarbátum. Er þetta lengsti tími sem íslenskir sjómenn hafa þurft að dvelja í björgunarbátum svo vitað sé. Samhliða Tilkynningaskyldunni rak Slysavarnafélagið björgunarmiðstöð sem stjórnaði leit og björgun á hafinu. Slysavarnafélagið sá um rekstur Tilkynningaskyldunnar til ársins 2004 þegar hún varð hluti af vaktstöð siglinga en vaktstöðin er nú hluti af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Önnur verkefni

breyta

Árið 1985 stofnaði Slysavarnafélagið Slysavarnaskóla sjómanna sem heldur úti kennslu í öryggismálum sjómanna.

Slysavarnafélag Íslands hefur verið frumkvöðull að ýmsum stórum þáttum í björgunar- og öryggismálum og hefur ætíð látið til sín taka á þeim vettvangi. Má þar meðal annars nefna þætti eins og Slys í landbúnaði og Vörn fyrir börn. Oftast þurfti félagið að bera kostnað af slíkum verkefnum fyrstu árin en síðar fóru íslenska ríkið eða aðrir aðilar að taka þátt í rekstrarkostnaði þeirra.

2. október 1999 sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg - landssamband björgunarsveita í ein slysavarna- og björgunarsamtök; Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Heimildir

breyta
  1. Halldór A. Ásgeirsson (28. desember 2014). „Þyrlan sem hellti upp á kampavín“. Morgunblaðið. Sótt 10. júlí 2022 – gegnum Tímarit.is.

Tengill

breyta