Skúlamálin voru samsafn ákæra og ásakana á hendur Skúla Thoroddsen, þá sýslumanni Ísfirðinga, á tíunda áratug nítjándu aldar sem leiddu til þess að Skúli var leystur frá störfum. Haft hefur verið fyrir satt að málið hafi verið pólitísk ofsókn andstæðinga Skúla gegn honum í því skyni að bola honum úr embætti. Málið lifir í minningunni sem eitt svæsnasta hneykslismál íslenskrar réttarsögu.

Um Skúla Thoroddsen breyta

Skúli Thoroddsen (1859 – 1916) var áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum og sjálfstæðisbaráttu í kring um aldamót 19. og 20. aldar. Hann var einn af stofnfélögum stjórnmálahreyfingarinnar Velvakanda, söfnuðar íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn sem skáru sig úr meðal annarra þjóðernissinna með óvægnum árásum á íslensku embættismannastéttina, klíkuskap þeirra og himinhá laun. Skúli lét einna mest til sín taka sem ritstjóri Þjóðviljans, sem kom út á Ísafirði og var dreift um land allt. Þjóðviljinn var herskátt blað sem ætlað var að berjast við yfirráð Dana á Íslandi, boða lýðræði, trúfrelsi, kvenréttindi og önnur mannréttindi og vekja stéttarvitund alþýðunnar gegn kaupmanna- og embættismannavaldi. Skúli komst svo að orði að með blaðinu vildi hann „radikalisera Ísfirðinga dálítið“[1] og „umfram allt setja fjör í þá.“ Atferli Skúla bakaði honum eðlilega marga óvini í „höfðingjaklíkunni“ sem hann hataðist svo við, meðal annars Hannes Hafstein landshöfðingjaritara, sem taldi Skúla vera þjóðernisöfgamann,[2] og Magnús Stephensen landshöfðingja, sem leit á Skúla sem eins konar uppreisnarmann meðal embættismanna. Skúli var tvívegis Alþingismaður, fyrst fyrir Eyfirðinga á árunum 1890 – 1892 og svo fyrir Ísfirðinga 1892 – 1902 og Norður-Ísfirðinga 1903 – 1915.[3] Hann var sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði frá 1884 – 1892, eða þar til honum var vikið úr embætti í sambandi við Skúlamálið.

Skurðsmálið breyta

Skúlamálið á rætur sínar að rekja í annað mál sem viðkom dauða manns að nafni Salómon Jónsson, sem fannst látinn þann 22. desember 1891 í snjóskafli í Klofningsdal. Salómon þessi hafði verið í för með fjórum öðrum mönnum á leið yfir Sauðanesfjall og Klofningsheiði frá Flateyri til Súgandafjarðar kvöldið áður, en hafði ekki skilað sér á áfangastað ásamt ferðafélögum sínum.

Snemma lá grunur um að morð hefði verið framið og að Sigurður „skurður“ Jóhannsson, einn af förunautum Salómons, væri sökudólgurinn. Þannig var búið um líkið í skaflinum að höfði Salómons virtist hafa verið stungið inn og honum haldið þar uns hann kafnaði. Áverkar á hálsi Salómons renndu frekari stoðum undir þá kenningu. Í kringum skaflinn voru fótspor sem voru of lítil til að vera eftir Salómon sjálfan en nógu stór til að geta tilheyrt Sigurði. Auk þess var Sigurður þekktur óbótamaður, hafði lent í útistöðum og slagsmálum við Salómon á leiðinni til Súgandafjarðar og látið falla orð sem mátti túlka sem morðhótun. Nánast enginn á Flateyri efaðist um sekt Sigurðar en lögvaldið gat þó ekki nýtt sér gögnin sem voru fyrir hendi vegna þess hve svifasein viðbrögð þeirra voru. Jólin voru á næsta leiti og líklega hafa embættismenn viljað byrja hátíðarhöldin óáreittir – Guðmundur Eiríksson hreppstjóri hreyfði lítið við málinu fyrr en eftir jól og Skúli sýslumaður fékk ekki tilkynningu um málið fyrr en 27. desember. Þá voru fimm dagar liðnir frá líkfundinum og versummerkin á vetvangi glæpsins vitaskuld horfin vegna óviðris. Skúli hafði því fá gögn til að vinna með önnur en vitnisburði og líkrannsóknarskýrslu Halldórs Torfasonar aðstoðarhéraðslæknis, sem komst ekki að ótvíræðri niðurstöðu um að Salómon hefði verið ráðinn bani og eyddi reyndar ófáum orðum í að gagnrýna meðferð líksins og áverka á því vegna músagangs.

Eftir að hafa lesið skýrsluna hélt Skúli loks til Önundarfjarðar og kom þangað tólf dögum eftir að líkið hafði fundist. Þar yfirheyrði hann heimamenn og sannfærðist fljótt um að Sigurður skurður hefði ráðið Salómon af dögum. Rannsókn Skúla var í meira lagi óformleg – hann lét vera að festa yfirheyrslurnar í skýrslu, rekja slóð mannanna sem fóru yfir Klofningsheiði og virða fyrir sér líkfundarstaðinn. Vera má að honum hafi þótt gögnin gegn Sigurði svo yfirgnæfandi að óþarfi væri að eltast við smáatriði. Skúli handtók Sigurð með þeirri röksemdafærslu að framburður hans samræmdist ekki vitnisburði félaga hans og flutti hann með sér til Ísafjarðar, þar sem hann var lokaður inni í fangahúsi kaupstaðarins þann 7. janúar.

Skúli virðist hafa beitt Sigurð meira harðræði en hann var vanur – þegar Sigurður neitaði að hætta að syngja á nóttunni var hann sviptur ljósglætu, síðan tóbaki og loks bókum og skriffærum. Skúli réttlætti aðferðir sínar á þá leið að Sigurður hefði játað sekt sína við hann undir fjögur augu en svo neitað að endurtaka játninguna fyrir framan vitni. Skúli setti Sigurð tvívegis í fimm daga vist upp á vatn og brauð, en leyft var að nota slíkar refsingar ef sakborningur neitaði að svara spurningum dómarans. Skúli lét hins vegar vera í seinna skiptið að færa í skýrslu hvaða spurningum Sigurður hefði neitað að svara og gat ekki gert grein fyrir því þegar hann var yfirheyrður seinna meir. Skúli vildi framlengja fangavist Sigurðar og sendi skýrslu um málið í því skyni til Kristjáns Jónssonar amtmanns, en biðin eftir svari Kristjáns dróst svo á langinn að Skúli neyddist til að sleppa Sigurði þann tuttugasta febrúar. Kristján ávítaði Skúla lítillega fyrir mistök hans í meðferð málsins en virðist ekki hafa litið svo á að Skúli hefði gert neitt saknæmt eða refsivert. Magnús Stephensen landshöfðingi greip upplýsingarnar um villurnar í málsmeðferðinni hins vegar á lofti þegar Kristján orðaði þær við hann og túlkaði samtal þeirra Kristjáns sem svo að Kristján hefði kært Skúla fyrir sér. „Nú höfum við höggstað á Skúla,“[4] á Hannes Hafstein landsritari að hafa sagt um þessar mundir.

Skúlamálið breyta

Þann tíunda maí sendi Magnús Íslandsmálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn fyrirspurn um hvort Skúli skyldi ákærður, honum vikið tímabundið úr starfi og annar sýslumaður skipaður til þess að rannsaka mál hans. Í bréfinu gerði Magnús mikið úr málinu, fullyrti ranglega að Kristján amtmaður hefði kært til sín athæfi Skúla og afbakaði skýrslu Skúla í danskri þýðingu til að gefa til kynna að hann hefði sett Sigurð skurð upp á vatn og brauð til þess að neyða fram játningu. Magnús mælti sérstaklega með því að Lárus Bjarnason, málflutningsmaður við Landsyfirréttinn, færi með málið og bað um svar sem fyrst því Lárus væri reiðubúinn til að halda til Ísafjarðar þegar í stað með næsta skipi. Þetta er eftirtektarvert því greinilegt er að Magnús hefur skipulagt aðkomu Lárusar að málinu fyrirfram og sammælst um það við hann að Lárus færi til Ísafjarðar í því skyni að koma Skúla úr embætti. Einnig er eftirtektarvert að Magnús hafði Kristján amtmann ekki með í ráðum þegar hann sendi bréfið og útnefndi Lárus og lét hann ekki vita að hann hefði kært Skúla til ráðuneytisins – Kristján hafði skipað Skúla að halda rannsókn málsins áfram í svari sínu til hans og var því greinilega ekki þeirrar skoðunar að mistök Skúla gerðu hann óhæfan til að fara með það.

Johannes M. V. Nelleman Íslandsráðherra taldi of snemmt að víkja Skúla úr embætti, en féllst þó á að skipa Lárus sérstakan konunglegan umboðsdómara til þess að rannsaka málið. Lárus fór til Ísafjarðar þann sextánda júní með skipinu Lauru og hófst handa við rannsóknina. Fyrsta daginn sem Lárus var á Ísafirði hafði hann alls ekki samband við Skúla til að greina honum frá erindagjörðum sínum, heldur leitaði hann uppi réttarvotta Skúla úr yfirheyrslunni yfir Sigurði og yfirheyrði þá óundirbúna til að draga upp með réttu eða röngu þá niðurstöðu að Skúli hefði beitt vatns- og brauðsmeðferðinni til að neyða Sigurð til játningar.

Skúli var yfirheyrður daginn eftir og spurður spjörunum úr um villurnar í meðferð Skurðsmálsins – hví hann hefði brugðist svo seint við dauða Salómons Jónssonar, hví hann hefði ekki sjálfur kannað staðinn þar sem lík Salómons fannst, á hvaða forsendum hann hefði sett Sigurð skurð upp á vatn og brauð og hvers vegna misræmi væri milli frásagnar hans af rannsókninni og skýrslugerðar hans. Þegar Skúli fékk réttarvotta sína til að undirrita yfirlýsingu sem tók af allan vafa um að Sigurður hefði neitað að svara spurningum hans áður en hann var settur upp á vatn og brauð, þvert á fyrri niðurstöðu úr yfirheyrslu Lárusar, bættist við sú ásökun að Skúli væri að reyna að fá vitni til að bera rangt fyrir rétti. Á næstu dögum hélt Lárus áfram og yfirheyrði vinnufólk Skúla um það hvort Sigurði hefði verið misþyrmt í gæsluvarðhaldi hjá sýslumanninum. Eftir að hafa kannað meðferðina á Sigurði og aðstæður í fangavist hans tefldi Lárus fram læknaskýrslu Þorvaldar Jónssonar héraðslæknis, sem hafði tekið Sigurð í læknisskoðun eftir að hann var leystur úr haldi og fengið hann til harðorðra lýsinga á illri meðferð sinni í fangelsinu.

Þann 27. júní sendi Magnús Stephensen réttarpróf og yfirheyrslur Lárusar til Íslandsmálaráðuneytisins í Kaupmannahöfn ásamt bréfi þar sem hann bað um að Skúli yrði ákærður fyrir brot á hegningarlögum um að neyða mann til játningar og að honum yrði vikið úr embætti þar til dómur yrði kveðinn. Í svari ráðuneytisins, sem barst þann 15. ágúst, voru kröfur Magnúsar samþykktar og gott betur – í stað brots á einum hegningarlögum var Skúli ákærður fyrir fimm og Magnúsi boðið að tilnefna nýjan sýslumann til að ljúka málinu. Þar sem Magnús hafði aðeins tilgreint brot á einu lagaákvæði í upprunalega bréfinu til ráðuneytisins átti Skúli seinna eftir að taka þetta svar þeirra sem sönnun fyrir því að Magnús hefði í millitíðinni sent ráðamönnum í Danmörku leynilegt einkabréf þar sem hann tilgreindi öll fimm lagaákvæðin, en Magnús neitaði því statt og stöðugt að hafa sent annað bréf.[5]

Allsherjarrannsókn á embættisferli Skúla breyta

Næst gekk Magnús lengra en samþykki ráðuneytisins á málssókninni hafði strangt til tekið gefið leyfi fyrir: Í stað þess að sækja Skúla einungis til saka fyrir meðferð hans á Skurðsmálinu átti Lárus nú að rannsaka allan embættisferil Skúla á Ísafirði og allt sem kynni að vera tortryggilegt við framkomu hans sem dómara. Með bréf landshöfðingja í hönd hóf Lárus nú í byrjun september að róta í öllum sýsluplöggum Skúla í leit að mistökum úr hverju einasta máli sem hann hafði sinnt í embætti sínu. Lárus fór fram með slíku offorsi gegn Skúla og þeim vitnum sem voru honum hagstæð að sú skoðun styrktist að hann beitti vitni ofbeldi, hótunum, gerði þeim upp skoðanir og bókaði ummæli þeirra rangt.

Rannsókn Lárusar beindist nú að tveimur sakamálum sem Skúli hafði haft til meðferðar: Annað þeirra gegn Rögnvaldi Guðmundssyni og hitt gegn Steindóri Markússyni. Í báðum málunum bar verjandinn Grímur Jónsson vitni um að Skúli hefði beitt bellibrögðum til að koma í veg fyrir að sakborningar fengju sanngjarna vörn. Ein alvarlegasta ásökunin sem Lárus bar upp á Skúla var þó að hann hefði falsað undirskriftir í dómsmálabók fyrir manntalsþing – skýringin var sú að þegar Skúli hélt manntalsþing á Djúpi vorið 1892 hafði hann gleymt bókinni og látið þingvotta undirrita þinghöldin á pappírsarkir sem Skúli afritaði svo í þingmálabókina heima fyrir með hjálp konu sinnar.

Lárus kvað loksins upp dóm sinn þann 10. júlí 1893 og sakfelldi Skúla fyrir vanrækslu í embætti, valdníðslu í Skurðsmálinu, fölsun undirskrifta, rangar bókanir og ýmsa aðra glæpi úr málum sem hann hafði grafið upp úr embættisferli Skúla. Skúli áfrýjaði dómnum umsvifalaust til Landsyfirréttar, en rannsókn málsins þar var í raun fyrsta skipti sem litið var á það af yfirvegun og hlutlægni. Tvennt kom í ljós sem skipti sköpum fyrir mál Skúla: Í fyrsta lagi var nær stöðugur ágreiningur milli vitna og dómara um það hvernig framburður þeirra hefði verið skráður, en slíkur ágreiningur var ekki leyfilegur þar sem vitni áttu rétt á að ráða því hvernig framburður þeirra var skráður. Í öðru lagi voru brotin sem Skúli var ákærður fyrir flest ekki nærri því nógu alvarleg til að varða embættismissi. Niðurstaðan var sú að dómi Lárusar var hnekkt og Skúli var eingöngu dæmdur til 600 króna sektar fyrir brot á hegningarlögum gegn Sigurði skurði.

Magnús Stephensen lét sér þessa niðurstöðu sér ekki lynda og áfrýjaði dómnum til Hæstaréttarins í Kaupmannahöfn, enda vildi hann að Skúli yrði sviptur embætti en ekki aðeins sektaður. Hugsanlega átti hann von á að Skúli ætti hvorki fé né orku til að útvega sér sterka málsvörn í dönskum rétti. Í Danmörku fór málið þó á allt aðra vegu en Magnús hafði vonað, því það kallaðist óþægilega á við svipuð hneykslismál í stjórnmálum þar í landi. Skúlamálið minnti um of á svipaðar pólitískar ofsóknir í stjórnartíð J. B. S. Estrup, sér í lagi fangelsun vinstrileiðtogans Christen Berg fáeinum árum fyrr. Svo viðkvæmt varð „íslenska réttarhneykslið“ fyrir dönsk dómsyfirvöld að í þeirra höndum var tekið enn mýkra á máli Skúla en Landsyfirréttur hafði gert. Þann 15. febrúar 1895 kvað Hæstiréttur upp dóm og sýknaði Skúla af öllum ákæruatriðum.

Eftirmál og viðbrögð Magnúsar Stephensen breyta

Skúlamálið varð mjög umtalað það sem eftir var af ferli Magnúsar landshöfðingja. Niðurstaða málsins spillti sambandi Magnúsar bæði við hinn íslenska þingheim og við stjórnvöld í Danmörku, sem gerðu ekkert til að hlífa honum við skellinum af „íslenska réttarhneykslinu“. Viðbrögð Magnúsar við úrlausn málsins eru þó eitt skýrasta merkið um hinn rammpólitíska ásetning að baki þess og um þær pólitísku ofsóknir sem málið hafði snúist upp í – eftir lok Skúlamálsins sendi Magnús bréf til Íslandsmálaráðuneytisins og mælti harðlega gegn því að Skúli fengi aftur sýslumannsembætti sitt. Hann úthúðaði Skúla sem pólitískum æsingarmanni sem hefði rekið fjandsamlegan áróður gegn landsstjórninni. Hann færði jafnframt rök fyrir því að fullkomin uppreisn æru Skúla yrði skaðleg landi og þjóð og myndi valda sundrungu milli þjóðar og stjórnar.

Áhuga vekur að í röksemdum Magnúsar var ósk hans um að Skúla yrði haldið frá embætti loksins aðskilin frá ásökunum um bein afbrot – meginástæðan sem Magnús gaf ráðuneytinu fyrir því að Skúla ætti ekki að vera skilað embættinu var sú að Skúli væri ótrúr landsstjórninni og myndi nota hæfileika sína til að spilla fyrir henni. Svipaðar röksemdir endurtók Magnús seinna þegar málið kom til kasta Alþingis – að ástæðan fyrir því að Skúli hefði ekki endurheimt embætti sitt hefði ekkert með sekt eða sakleysi að gera, heldur aðeins með framkomu hans gegn stjórninni og tilraunir Skúla til að spilla fyrir samvinnu stjórnvalda og alþýðu. Á vissan hátt viðurkenndi Magnús blátt áfram með þessum málflutningi að Skúlamálið hefði verið rekið áfram í nafni pólitískra deilna og persónulegrar andúðar frekar en lagalegra hugsjóna.

Að lokum var gerð sú málamiðlun að Skúla var boðið sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu í stað þess á Ísafirði. Þetta embætti var talsvert tekjulægra en hið fyrra og því hafnaði Skúli því að taka það að sér. Hugsanlega sá Magnús fyrir að Skúla yrði embættið ekki þóknanleg sárabót og að hann myndi hafna því. Hvað sem því líður tókst Magnúsi með þessu móti að lokum að hrekja Skúla frá embætti, en ekki án frekari eftirmála: Að áeggjan Skúla veitti Alþingi honum í júlí 1895 fimm þúsund króna skaðabætur vegna málskostnaðar og fjártjóns hans sökum atvinnumissisins. Það að þessi „kinnhestur“ Alþingis á landsstjórnina hafi verið samþykktur (en þó með naumum þingmeirihluta sem studdur var af atkvæði Skúla sjálfs) sýnir glöggt hve víðtæk sú skoðun var orðin að framganga stjórnarinnar gegn Skúla hafi verið pólitísk ofsókn.

Sú skoðun hlaut enn sterkari grunn þegar sérstök rannsóknarnefnd var skipuð til að rannsaka meðferð Skúlamálsins. Nefndin gerði athugasemdir við ýmsar aðgerðir landshöfðingjans í málinu og dró athygli að leyndinni sem hafði ríkt yfir kærunni á hendur Skúla, strangri sérmeðferðinni sem mál Skúla virtist hafa fengið miðað við önnur sambærileg brot embættismanna og því að Magnús hafi heimilað allsherjarrannsókn á ferli Skúla án leyfis frá Íslandsmálaráðuneytinu. Öll þessi atriði og fleiri slík í framgöngu Lárusar Bjarnasonar eiga þátt í því að Skúlamálsins er minnst sem eins óskammfeilnasta ofsókarmáls í Íslandssögunni.

Tilvísanir breyta

  1. Jón Guðnason, Skúli Thoroddsen, fyrra bindi, bls. 110.
  2. Guðjón Friðriksson, Ég elska þig stormur, bls. 222.
  3. „Skúli Thoroddsen“. Alþingi. Sótt 5. ágúst 2022.
  4. Jón Guðnason, Skúli Thoroddsen, fyrra bindi, bls. 169.
  5. „„Paragrapharnir". Þjóðviljinn ungi. 31. janúar 1893. Sótt 8. apríl 2018.