Skíðasleði
Skíðasleði eða sparksleði er lítill sleði sem samanstendur af stól sem festur er á sveiganlega járnmeiða sem koma aftur úr sleðanum sem nemur tvisvar sinum lengd stólsins. Sleðanum er ýtt áfram eins með því að sparka á jörðina með fætinum. Það er handfang fest efst á stólinn.
Sparksleði fyrir fullorðna er um 2 m langur og 400 mm breiður. Meiðarnir eru um 5 mm breiðir. Handfangið er um 900 mm frá jörðu. Sá sem sparkar sleðanum getur stýrt honum. Í sætinu getur verið farþegi eða farangur. Sparksleðar geta líka verið dregnir áfram af hundum. Sparksleði hentar vel í vel pökkuðum snjó en í lausamjöll eru sérstök breið plastskíði sett undir sleðann. Ef yfirborðið er sérstaklega hált eins og á svelli þá má ná meiri hraða og spyrnu ef sá sem knýr sleðann er með mannbrodda undir skóm. Hægt er að ná 15 - 20 km hraða á klukkustund á jafnsléttu.
Sparksleðar er algengir í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, sérstaklega þar sem vegir eru ekki sand- eða saltbornir. Slíkir sleðar henta vel á ísilögðum vötnum. Á sumum gerðum sparksleða eru hjól sem breyta sleðanum í göngustoð að sumri til. Slíkir sleðar eru sérstaklega vinsælir hjá eldra fólki.
Saga sparksleða
breytaFyrst er getið um sparksleða í dagblaði í Norður-Svíþjóð um 1870. Sparksleðar frá því tímabili voru með ósveigjanlegum meiðum og mjög þungir. Um 1900 byrjaði sænska fyrirtækið Orsaparken að framleiða sleða með mun sveigjanlegri teinum og urðu þeir útbreiddir í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.
Hraðakeppni
breytaÁ árunum 1890 til 1910 var hraðakeppni á sparksleðum vinsæl vetraríþrótt, sérstaklega í Svíþjóð. Sparksleðakeppnir voru stór viðburður í Norrænu leikunum sem sem voru undanfari Vetrarólympíuleikanna. Um 1990 varð sparksleðakeppni aftur íþróttagrein í Finnlandi. Keppnisbrautin er allt að 100 km löng og vanalegur hraði keppenda er um 30 km á klukkustund. Oft eru sparksleðakeppnir haldnar á sama tíma og hraðakeppnir á skautum á ís og nota þá sparksleðarnir sömu slóðir og skautakeppendurnir. Finnska fyrirtækið ESLA hefur fjöldaframleitt léttan sparksleða og fyrirtækið Kickbike hefur einnig framleitt slíkan sleða.
Í Kanada hefur sparksleða verið breytt þannig að hann henti til hundaíþrótta, sleði sem einn til þrír hundar draga. Slíkir hundasleðar eru mun minni og léttari en hefðbundnir hundasleðar
Í Noregi er árleg sparksleðakeppni haldin í Geilo.
Ítarefni
breyta- Sparkstöttingar by Göran Rosander; Stockholm; Nordiska Museet; 1995; ISBN 91-7108-385-5
Tenglar
breyta- Grein um ESLA sparksleða
- Grein um sparksleða Geymt 3 mars 2016 í Wayback Machine
- Kickbike framleiðandi sparksleða Geymt 22 desember 2014 í Wayback Machine
- Kicksled Handbook from Finland Geymt 13 janúar 2015 í Wayback Machine (1200 kB)
- Spark or Kicksled (23 kB)
- Safn í Svíþjóð, fyrsta þekkta greinin um sparksleða Geymt 14 desember 2007 í Wayback Machine
- Saga sparksleða Nordøsterdalsmuseet Geymt 13 janúar 2015 í Wayback Machine