Sigurður Haukur Guðjónsson

Sigurður Haukur Guðjónsson, (25. október 1927 – 13. ágúst 2007) var íslenskur prestur. Hann starfaði mikið að félagsmálum, bæði innan og utan þjóðkirkjunnar, og ritstörfum.

Ætt og uppruni

breyta

Haukur, eins og hann var oftast nefndur, var fæddur í Hafnarfirði. Hann var sonur hjónanna Þórunnar Guðmundsdóttur,f. 20.06.1899, d. 27.08.1976, og Guðjóns A. Sigurðssonar, f. 12.09.1899, d. 11.07.1976, garðyrkjubónda að Gufudal í Ölfusi. Sigurður Haukur var kvæntur Kristínu Sigríði Gunnlaugsdóttir.

Nám og starfsferill

breyta

Sigurður Haukur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Hann innritaðist í Guðfræðideild Háskóla Íslands að loknu stúdentsprófi og varð cand. theol. árið 1954. Hann stundaði framhaldsnám í Edinborg 1977 og aftur við Háskóla Íslands 1989-1990.[1] Hann var vígður til Hálsprestakalls í Suður-Þingeyjarsýslu 5. júní 1955, og þjónaði því til ársins 1963.[2] Hinn 1. desember 1963 var Sigurður Haukur kosinn lögmætri kosningu sem sóknarprestur í Langholtsprestakalli í Reykjavík, og skipaður í það starf frá 1. janúar 1964.[3] Hann var bóndi í Gljúfurholti 1950-1951 ásamt föður sínum, starfaði við bókhald hjá Sambandi íslenskra Samvinnufélaga 1954-1955, og kennari við Vogaskóla 1964-1967. Sóknarprestur í Langholtsprestakalli til 1991 að hann lét af störfum við kirkjuna.Í starfi sínu við Langholtskirkju fór séra Sigurður Haukur stundum ótroðnar leiðir. Hann varð fyrstur íslenskra presta til að innleiða poppmessur í starf kirkjunnar, og vildi hann með því ná til unga fólksins. Hann bauð AA-samtökunum einnig fundaraðstöðu í safnaðarheimili Langholtskirkju, sem varð upphaf þess að AA-deildir hafa víða um land notað safnaðarheimili kirkna til starfsemi sinnar. Að félagsmálum starfaði hann mikið, var formaður skólanefndar Hálshrepps 1958-1963, sat í stjórn Prestafélags Íslands og í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, BSRB. Hann var forseti Sálarrannsóknafélags Íslands og Sálarrannsóknafélags Hafnarfjarðar 1964-1965. Afstaða séra Sigurðar Hauks til spíritismans, auk nýjunga þeirra sem hann tók upp í kirkjulegu starfi, vöktu athygli og ekki voru allir sammála um þessa hluti. Þeir sem skrifuðu minningarorð að honum látnum voru á einu máli um að hann hafi verið ræðumaður sem tekið var eftir og einlægur trúmaður.

Ritstörf

breyta

Sigurður Haukur skrifaði bókagagnrýni í Morgunblaðið í nokkra áratugi. Auk fastra þátta í DV, Pressunni og Alþýðublaðinu ritaði hann margar greinar í ýmis blöð og tímarit. Endurminningar hans komu út í bókinni Guð almáttugur hjálpi þér árið 1988, en Jónína Leósdóttir skráði. Hann valdi einnig efni að hluta í bókina Helgi Sveinsson - presturinn og skáldið, sem kom út í Reykjavík 1969.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. „Sigurður Haukur Guðjónsson“.
  2. „Kirkjuritið 1955“.
  3. „Innlendar fréttir, Kirkjuritið 1964“.
  4. „Helgi Sveinsson - presturinn og skáldið“.