Sigrún Júlíusdóttir

Sigrún Júlíusdóttir er fyrrum prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og rekur meðferðarþjónustuna Tengsl[1] sem veitir sérhæfða hjóna-og fjölskyldumeðferð. .

Sigrún Júlíusdóttir
StörfPrófessor emeritus í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og rekur meðferðarþjónustuna Tengsl

Náms- og starfsferill

breyta

Sigrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965, Socionomexamen (félagsráðgjafarpróf) frá háskólanum í Lundi árið 1970, fil. kand. prófi í félagsfræði frá félagsvísindadeild Háskólans í Stokkhólmi 1972 og meistaraprófi í klínískri félagsráðgjöf 1978 frá University of Michigan, USA. Hún lauk námi í handleiðslu á vegum geðdeildar Landspítalans og Institut i familjeterapi í Gautaborg 1985 og hlaut löggilt meðferðarréttindi 1989 frá Socialstyrelsen í Svíþjóð að loknu námi við sálfræðideild Gautaborgarháskóla. Þá lauk hún doktorsprófi í fjölskyldurannsóknum frá Félagsráðgjafardeild Háskólans í Gautaborg 1993.

Sigrún var yfirfélagsráðgjafi Geðdeildar Landspítalans 1976-1990[2] og árið 1982 stofnaði hún ásamt fleirum meðferðarþjónustuna Tengsl.[3] Hún var lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands frá 1991, dósent 1994 og prófessor frá 1999 þar til hún fór á eftirlaun árið 2014. Hún vinnur nú að rannsóknum og leiðsögn meistaranema við Háskóla Íslands.[2]

Rannsóknir

breyta

Helstu rannsóknarsvið Sigrúnar[4] varða fjölskylduþróun og náin samskipti, barna- og fjölskylduvernd og rannsóknir og fagþróun í félagsráðgjöf ásamt faghandleiðslu.[5] Sigrún hefur meðal annars kannað þætti er varða seiglu og starfhæfni í parsambandi; foreldrafærni, verndandi og ógnandi þætti í uppeldisskilyrðum barna; stöðu barna sem aðstandenda við áfall, skilnað eða andlát foreldris.[6]

Sigrún hefur skrifað fjölmargar skýrslur, greinar og bókarkafla, bæði í íslenskum ritum og erlendum. Auk greina í fræðiritum hefur hún tekið þátt í umræðu samfélagsins og miðlað þekkingu til almennings, bæði með greinaskrifum í blöðum og tímaritum og einnig með þátttöku í ljósvakamiðlun.[5]

Ýmis störf og verkefni

breyta

Sigrún hefur gegnt ýmsum nefndar- og þróunarstörfum á vegum Háskóla Íslands og ráðuneyta og á Norðurlöndunum. Hún var m.a.formaður stjórnar Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF); fastafulltrúi háskólaráðs í dómnefnd á sviði félagsvísinda; fulltrúi í starfshópi rektors um fjölskyldumálefni stúdenta; og í starfshópi um málefni/starfslok prófessora við HÍ.[2]

Sigrún var í stjórn Nordic Campbell Center við Dansk Socialforskingsinstitut í Danmörku, 2002-´08 (Norræn miðstöð um mat og þróun rannsókna á félags- og menntavísindasviði, og systursamtök við International Campbell Collaboration). Árið 2000 hafði hún umsjón með menningarverkefni Háskóla Íslands, Borgarfjölskyldan þar sem fjallað var um líf borgarfjölskyldunnar frá ýmsum sjónarhornum.[7] Þá var hún skipuð af forsætisráðherra í nefnd um starfsemi vistheimila (2007-´12) samkvæmt lögum nr. 26/2007 („Breiðavíkurnefnd“).

Sigrún kom að stofnun félagsráðgjafarnáms við Háskóla Íslands 1980, og síðan að skipan og þróun meistara- og doktorsnáms ásamt því að móta nýjar þverfaglegar diplómanámsleiðir (m.a. kynfræði, handleiðslufræði). Hún beitti sér sér fyrir tilurð Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd, RBF við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands ásamt útgáfu ritraðar RBF sem hún ritstýrir.[6]

Sigrún var ritstjóri Tímarits félagsráðgjafa 2010-2015.[6][8]

Árið 2012 stofnaði Sigrún rannsóknasjóð í félagsráðgjöf. Markmið sjóðsins er að efla og styrkja rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskyldumálefna ásamt því að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf. Frá árinu 2016 heitir sjóðurinn Sigrúnarsjóður og heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands.[9]

Viðurkenningar

breyta
  • Sigrún hlaut Fálkaorðuna 2003 fyrir fræðistörf á sviði félagsvísinda.[10]
  • Heiðursstyrkur Vísindasjóðs Félagsráðgjafarfélags Íslands 2009.[11]
  • Viðurkenning Sambands norrænna félagsráðgjafarskóla 2011.

Helstu ritverk

breyta

Heimildir

breyta
  1. Tengsl. Einstaklings-, hjóna- og fjölskyldumeðferð. Sótt 31. ágúst 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Háskóli Íslands. Sigrún Júlíusdóttir. Prófessor emeritus. Ferilskrá“. Sótt 23. ágúst 2019.
  3. Félagsráðgjafafélag Íslands. Stofur félagsráðgjafa. Einkareknar meðferða- og ráðgjafastofur á vegum félagsráðgjafa.
  4. http://uni.hi.is/sigjul/ Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine [Dr. Sigrún Júlíusdóttir]. Sótt 31. ágúst 2019.
  5. 5,0 5,1 „Háskóli Íslands. Sigrún Júlíusdóttir. Prófessor emeritus. Ritaskrá“. Sótt 23. ágúst 2019.
  6. 6,0 6,1 6,2 „Vísindsvefurinn. (2018). Hvaða rannsóknir hefur Sigrún Júlíusdóttir stundað?“. Sótt 23. ágúst 2019.
  7. Mbl.is. (2000, 27. maí). Barnasmiðja opin í Odda. Borgarfjölskyldan í brennidepli í opnum háskóla.
  8. Félagsráðgjafafélag Íslands. Tímarit félagsráðgjafa. Sótt 31. ágúst 2019.
  9. Háskóli Íslands. Sigrúnarsjóður. Sótt 31. ágúst 2019.
  10. Forseti Íslands.Orðuhafaskrá Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine.
  11. Sveindís A. Jóhannsdóttir. (2010). Um Vísindasjóð: Rannsóknir og þróunarstörf eru mikilvæg[óvirkur tengill]. Tímarit Félagsráðgjafa, 1(4): 56.