Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir (f. 23. maí 1966 í Keflavík) er fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og var oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar 2007-2010. Hún var bæjarstjóri á Akureyri, fyrst kvenna, í tvö og hálft ár, frá 9. janúar 2007 til 9. júní 2009.
Sigrún Björk er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist úr IHTTI hótelstjórnunarskólanum í Sviss árið 1990. Einnig hefur hún lokið námi í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar HA. Sigrún hefur starfað sem hótelstjóri á Hótel Austurlandi, í sölu- og markaðsdeild Hótel Íslands, verið hótelstjóri á Hótel Norðurlandi, deildarstjóri hjá Úrvali-Útsýn, verkefnastjóri hjá Menntasmiðjunni á Akureyri og verkefnastjóri hjá Price Waterhouse Coopers.
Sigrún Björk var bæjarfulltrúi á Akureyri 2002-2010 og var forseti bæjarstjórnar Akureyrar 2006-2007 og aftur 2009-2010 auk þess að vera formaður bæjarráðs. Hún sagði af sér 31. maí 2010 eftir afhroð Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum 2010, þar sem flokkurinn missti þrjá af fjórum bæjarfulltrúum sínum.
Sigrún Björk var hótelstjóri Icelandair Hótel, í Þingvallastræti, á Akureyri 2011-2018 og hefur verið framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu í Reykjavík frá 2018.