Salka Sól Eyfeld
Salka Sól Eyfeld Hjálmarsdóttir (fædd 18. apríl 1988) er íslensk fjölmiðla-, tónlistar- og leikkona, betur þekkt einfaldlega sem Salka Sól (stundum: Salka de La Sól).
Salka Sól Eyfeld | |
---|---|
Fædd | Salka Sól Eyfeld Hjálmarsdóttir 18. apríl 1988 Reykjavík, Ísland |
Störf | Leikkona, tónlistarkona, fjölmiðla- og dagskrárgerðarkona, söngkona og rappari |
Þekkt fyrir | Ófærð, AmabAdamA, Ronja Ræningjadóttir, The Voice Ísland |
Foreldrar | Hjálmar Hjálmarsson Guðbjörg Lóa Ólafsdóttir |
Æviágrip
breytaSalka Sól fæddist í Reykjavík árið 1988 en flutti í Kópavog þegar hún var 7 ára gömul. Hún hefur talað opinskátt um einelti sem hún varð fyrir á skólaárum sínum í Kópavogi.[1][2]
Salka er dóttir Hjálmars Hjálmarssonar leikara og Guðbjargar Lóu Ólafsdóttur kennara.[3] Hún er elst þriggja systkina og á tvo bræður. Salka Sól er gift Arnari Frey Frostasyni, viðskiptafræðingi og rappara í hljómsveitinni Úlfur Úlfur.[4]
Hún sagðist aldrei hafa ætlað að verða leikari þegar hún yrði eldri, heldur kennari, eins og móðir hennar. Faðir hennar er þekktastur fyrir að ljá teiknimyndum rödd sína á íslensku.[5]
Salka Sól var í skólahljómsveit Kópavogs og segist hún hafa spilað mikið og kennt sjálfri sér á mörg hljóðfæri sem stóðu til boða þar.
Hún fór í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og vann söngvakeppnina þar.[6] Hún lauk BA-prófi í leiklist fyrir hljóðfæraleikara frá Rose Bruford í London.[7]
Ferill
breytaSalka Sól hefur leikið í sjónvarpi, kvikmyndum og á sviði. Hún samdi tónlist og lék í uppsetningu Þjóðleikhússins á Í hjarta Hróa Hattar árið 2016 og lék Ronju Ræningjadóttur hjá sama leikhúsi 2018. Hún leikur Soffíu í sjónvarpsþættinum Ófærð. Einnig hefur hún talað inn á fjölda teiknimynda með íslensku tali, t.a.m. Skrímsli ehf. og LEGO-myndina.
Salka Sól var lengi þáttastjórnandi á Rás 2 og stjórnaði meðal annars þættinum Rabbabara til ársins 2018 en hætti þegar hún tók að sér hlutverk Ronju Ræningjadóttur í Þjóðleikhúsinu.
Salka hefur einnig rappað með Reykjavíkurdætrum og rapparanum Arnari Úlfi. Salka Sól kemur fram undir eigin nafni en einnig syngur hún og semur tónlist með reggae hljómsveitinni AmabAdamA, sem einnig er skipuð Steinunni Jónsdóttur og Magnúsi Jónssyni. Skömmu eftir stofnun hljómsveitarinnar gáfu þau út smellinn Hossa Hossa. Salka hlaut titilinn Söngkona árisns á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014, en þá var AmabAdama tilnefnd í nokkrum flokkum, meðal annars í flokkunum Flytjandi ársins og Nýliði ársins.[8]
Salka hefur tekið að sér hlutverk kynnis og þáttastjórnanda bæði í sjónvarpi og útvarpi. Hún hóf þann feril á sjónvarpsstöðinni Bravó og fór þaðan til Ríkisútvarpsins eftir að hafa heyrt af lausri stöðu í morgunútvarpsþætti á Rás 2. Hún og Doddi litli leystu Virka morgna af í þættinum Sumarmorgnar sem var upphafið af störfum hennar sem þáttastjórnandi á RÚV.
Árið 2014 var Salka Sól útnefnd Bæjarlistamaður Kópavogs.[9]
Salka var einn af fjórum dómurum í The Voice Ísland[10] og hefur einnig verið kynnir í Söngvakeppni sjónvarpsins[11] og hún vann Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2014 og 2015 í flokknum Söngkona ársins.[12]
Kvikmyndaferill
breytaSjónvarp
breyta- Ófærð (sjónvarpsþættir) sem Soffía
Íslensk talsetning
breyta- Skrímsli ehf. (2001)
- Töfralandið Narnía: Ljónið, nornin og skápurinn (2005)
- Töfralandið Narnía: Kaspían konungsson (2008)
- Rústaðu þessu Ralph (2012)
- Skrímslaháskólinn (2013)
- LEGO-myndin (2014)
- Hótel Transylvanía 2 (2015)
- Á röngunni (2015)
- Encanto (2021)
Ytri tenglar
breytaTilvísanir
breyta- ↑ „Fór að hágráta á miðju sviðinu“. Hringbraut. 20. janúar 2017. Sótt 20. janúar 2018.
- ↑ „Vilja fá Sölku Sól til að ræða eineltið“. Morgunblaðið. 24. október 2017. Sótt 20. janúar 2018.
- ↑ Ingileif Friðriksdóttir (22. maí 2017). „Sagan af Sölku Sól sem varð að Sögu“. Morgunblaðið. Sótt 20. janúar 2018.
- ↑ Kolbeinn Tumi Daðason (25. ágúst 2017). „Brúðkaup í kortunum hjá Arnari Frey og Sölku Sól“. Vísir.is. Sótt 20. janúar 2018.
- ↑ „Aðrir pæla meira í því að ég sé kona“. Stúdentablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. apríl 2016. Sótt 22. mars 2016.
- ↑ Kolbeinn Tumi Daðason (26. febrúar 2015). „Salka Sól "leiðinlega hæfileikarík gella"“. Vísir.is. Sótt 20. janúar 2018.
- ↑ Mbl.is, „Salka Sól Eyfeld“ (skoðað 29. mars 2020)
- ↑ „Íslensku Tónlistarverðlaunin – Nominations 2014“. iston.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. mars 2016. Sótt 22. mars 2016.
- ↑ „Heiðurslistamaður og bæjarlistamenn útnefndir“. Kópavogsblaðið (bandarísk enska). Sótt 22. mars 2016.
- ↑ Jónasdóttir, Marta María (16. október 2015). „Salka Sól og Arnar Freyr glowing“. Morgunblaðið. Sótt 22. mars 2016 – gegnum www.mbl.is.
- ↑ „Eurovision Watch now: Iceland's Söngvakeppnin 2015 Final“. esctoday.com (bandarísk enska). Sótt 22. mars 2016.
- ↑ Robert, Zoe (23. febrúar 2015). „Icelandic Music Award Winners Announced“. Icelandic Music Award Winners Announced. Iceland Review. Sótt 22. mars 2016.