Saga Kópavogs sem bæjarfélags er ekki löng, ekki er öld síðan að í Kópavogi mátti aðeins finna örfá býli og nokkra sumarbústaði.

Elstu merki um mannaferðir eru frá 9. öld[1] við Kópavogsþing, bærinn Kópavogur reis þar skammt frá. Fram að fyrri hluta 20. aldar var aðeins að finna nokkra bóndabæi í því landi sem nú tilheyrir Kópavogi, uppbygging Kópavogs hófst ekki fyrr en í kreppunni miklu upp úr 1930.


Fram á 20. öld

breyta

Elstu merki um búsetu í landi Kópavogs eru í botni Kópavogs, norðan við ósa Kópavogslækjar, en þar fannst jarðhýsi sem talið er að geti verið frá 9. öld.[2] Önnur forn bæjarstæði í landi Kópavogs eru Digranes, Hvammur (síðar Hvammskot og Fífuhvammur) og Vatnsendi. Fyrsta ritaða heimild um búsetu á Vatnsenda er frá 1234 og nafnið Kópavogur kemur fyrst fram í heimildum árið 1523. Á Þingsnesi við Elliðavatn er stórt rústasvæði, 6000-7000 m² að stærð, sem hefur vakið mikla athygli fornleifafræðinga. Jafnvel er talið að um sé að ræða hið forna Kjalarnesþing, en elstu rústir á svæðinu eru frá 10. öld. Kópavogsþing var staðsett á Þinghól í botni vogsins, en Bessastaðir voru mikilvægur staður á 17. öld og því þörf fyrir þingstað í nágrenninu. Íslendingar vildu þingstað utan lands Bessastaða og því varð Kópavogur fyrir valinu.[3] Af heimildum virðist það hafa verið frekar stórt þing og á 16. öld voru uppi hugmyndir um að flytja Alþingi þangað, þó að til þess hafi aldrei komið. Erfðahyllingin árið 1662, oft kölluð Kópavogsfundurinn, fór fram á Kópavogsþingi. Fundurinn var haldinn til þess að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldi Danakonungs. Þetta hafði það í för með sér að allt ríkisvald komst í hans hendur. Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var erfðahyllingin notuð sem dæmi um yfirgang Dana á Íslendingum í gegnum tíðina.[4][5]

Danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund segir svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sem var gefin út árin 1877-82: „Bærinn er á leiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Árið 1870 bjuggu 46 í Kópavogi. Ekki eru til miklar heimildir um mannlíf í landi Kópavogsbæjar á síðustu öldum en þar var búið á nokkrum bæjum fram á 20. öld. Jarðirnar í Kópavogi voru leigujarðir og því voru ör skipti ábúenda. Því hefur verið haldið fram að þetta sé ástæðan fyrir að ekki er rótgróin saga í Kópavogi eða stórar ættir þaðan.[6][3]

Frumbýlisárin

breyta

Í landi Kópavogs var við upphaf 20. aldar að finna nokkur býli, Kópavogur og Digranes voru ríkisjarðir sem voru í útleigu til bænda, einnig var búskapur á Vatnsenda og í Fífuhvammi. Á kreppuárunum upp úr 1930 tók ríkisstjórnin Kópavogs- og Digranesjarðirnar úr leigu og skipti niður í smærri einingar, nýbýli og leigulönd. Samkvæmt lögum nr. 25/1936 gátu þeir sem höfðu nóg efni og ekki áttu þegar býli sótt um nýbýli og hafið þar búskap að veittu samþykki nýbýlastjóra.

1935 var lagður vegur til austurs frá Hafnarfjarðarvegi til að þjónusta komandi nýbýli. Lýður Jónsson vegaverkstjóri gaf veginum svo nafnið Nýbýlavegur sem stendur enn. Efnið í veginn var flutt með hestvögnum og verkfærin voru hamrar, sleggjur, handborar og dínamít. Ofan Nýbýlavegar voru smábýli sem voru ætluð til garðræktar, þó mátti byggja á þeim sumarbústaði. Flestir þeirra urðu þó að ársíbúðum enda húsnæðisskortur í Reykjavík. Fyrsta þéttbýlið í Kópavogi myndaðist því meðfram Nýbýlaveginum.

Nýbýlajarðirnar voru í mýrlendi í Fossvogsdal. Þær þurfti að ræsa fram og þurrka og var það gert í atvinnubótavinnu árin 1935-36. Sækja þurfti verslun, þjónustu og menntun til Reykjavíkur. Skólabörn tóku Hafnarfjarðarstrætó til Reykjavíkur þar sem flest fóru í Austurbæjarskóla. Árið 1950 hafði 10 nýbýlalöndum og 146 smábýlalöndum verið úthlutað úr landi Digraness og 198 smábýlum úr landi Kópavogs.

Heimsstyrjöldin síðari

breyta

Vorið 1940 kom breski herinn til Íslands og vinna við vegalagningu og annað lagðist að mestu af þar sem atvinnubótavinnu þurfti ekki lengur með. Bretar settu upp nokkur herskálahverfi og auk þess nokkrir kampa á útjöðrum Kópavogi. Þau helstu voru:

  • Bournemouth Camp í landi Sæbóls
  • Skeleton Hill þar sem nú er Hamraborg, nefnt sökum beinagrinda sem fundust þar, hugsanlega þeir sem líflátnir voru á þingum í Kópavogi eða kumlateigur.
  • Hilton Camp í landi Fífuhvamms.

Kópavogslandið var nú á gráu svæði. Reykvíkingar vildu ekki leggja meira fé til vegagerðar enda landið í eigu Seltjarnarneshrepps, hreppsnefnd þar sagðist hins vegar ekki geta ráðið við vegagerð í Kópavogi.

Alls höfðu þá verið lagðir 7,76 km af vegum:

  • Nýbýlavegur 2,7 km
  • Álfhólsvegur 1,5 km
  • Hlíðarvegur 1,5 km
  • Kársnesvegur 1,7 km
  • Urðarbraut 0,36 km

Að auki hafði Fífuhvammsvegur verið til staðar 3 km að lengd en í eigu Seltjarnarneshrepps.

Framfarafélagið Kópavogur var stofnað 19. maí 1945 af mönnum úr mörgum stjórnmálaflokkum. Félagið skilaði inn skýrslu og tillögu til ríkisins um hvernig best væri að verja fjárveitingu Alþingis til vegalagningar, og mælti með lagningu Kópavogsbrautar enda þar 60 lönd og 20 hús.

Kópavogshreppur

breyta
Íbúafjöldi í Kópavogi
Ár Íbúar Hlutfall

landsmanna

1940 200 0,2%
1950 1.652 1,1%
1960 6.213 3,5%
1970 11.165 5,4%
1980 13.814 6,0%
1990 16.186 6,3%
2000 22.693 8,1%
2010 30.357 9,6%
Heimild: Hagstofa Íslands[7]

1946 voru haldnar hreppsnefndarkosningar í Seltjarnarneshreppi og komust Kópavogsbúar í meirihluta. Þeir þrýstu mjög á að fá margfalt hærri fjárveitingar til vegagerðar en náðu ekki fram nema hluta þess. Sökum mikillar fólksfjölgunar í Kópavogi og því að Seltjarnarneshreppur var nú í tveimur aðskildum hlutum eftir að Skerjafjörður var færður undir Reykjavíkurbæ, óskuðu Seltirningar eftir því að aðskilja Seltjarnarneshrepp þannig að Kópavogsbúar mynduðu eigin hrepp. Sú skipting var samþykkt og 1. janúar 1948 tók hún gildi þegar Kópavogur og þau landsvæði sem féllu í hans hlut mynduðu Kópavogshrepp. Mikil húsnæðisekkla var í Reykjavík og bjuggu þúsundir manna í herskálum og íbúðum sem taldar voru ófullnægjandi. Nóg landrými var í Kópavogi og íbúafjöldi hríðjókst á hverju ári. 1948 voru 1163 fullorðnir skráðir í Kópavogi en 1950 voru þeir orðnir 1647 og 1955 var fjöldinn orðinn 3783.

Á árunum 1949-1954 var unnið að heildarsýn í skipulagsmálum bæjarins. Framfarafélagið Kópavogur var stofnað árið 1945 og hafði á stefnuskrá sinni endurbætur í ýmsum málum, svo sem menningu, menntun, samgöngum, síma- og póstsamskiptum, vatnsveitu og jarðrækt. Rafmagn var komið í sum hús í Kópavogi árið 1940 en var komið í flest hús árið 1945. Fyrsta skólahald í Kópavogi var veturinn 1945-1946 í húsi á Hlíðarvegi. Kennsla hófst síðan í Kópavogsskóla árið 1949; í skólanum voru 232 nemendur árið 1951 en árið 1957 voru þeir orðnir 580. Árið 1946 var fyrst lögð vatnsveita í Kópavogi og árið 1948 var fyrsta holræsið lagt frá Kópavogsskóla niður í Kópavogslæk. Kópavogshöfn var byggð árið 1952-1953 og árið 1952 var póstafgreiðsla opnuð í bænum. Ungmennafélagið Breiðablik var stofnað árið 1950. Tvær litlar matvöruverslanir opnuðu í Kópavogi árið 1945 en Kaupfélag Kópavogs hóf rekstur árið 1952.[8][9]

Kaupstaður

breyta

Fyrst var kosið í bæjarstjórn í október 1955 eftir að kaupstaðarréttindi tóku gildi í maí það ár. Líkt og í öllum þremur hreppsnefndarkosningunum hélt meirihluti Framfarafélagsins við stjórnvölinn eftir það undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og það var ekki fyrr en 1962 að breyting varð á þegar Framsóknarflokkurinn gekk í lið með þeim til að mynda meirihluta og svo síðar Sjálfstæðisflokkurinn. Til að byrja með fundaði bæjarstjórn í Kópavogsskóla og síðar í Félagsheimili Kópavogs. Fyrsta stóra ágreiningsmál bæjarstjórnar var tillaga um að sameina Reykjavík og Kópavog en sú tillaga hlaut ekki hljómgrunn.

Í bæjarstjórnartíð sinni lagði Finnbogi mikla áherslu á að opinberar byggingar í bænum stæðu efst á Digraneshálsi, en það er ólíkt því sem var með flesta bæi landsins á þessum tíma. Víðast hvar í rótgrónari byggðarlögum voru opinberar stofnanir oftast niður við sjó eða í dalverpum, í lægi undan vindi og veðrum. Þetta viðhorf Finnboga hafði mikil áhrif á mótun bæjarmyndarinnar. Árið 1957 keypti Kópavogsbær land Digraness og Kópavogs og gat þá skipulagt það til lengri tíma. Á áratugunum á eftir var hröð uppbygging í innviðum svo sem menntun og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Á sama tíma varð mikill vöxtur í ýmiss konar iðnaði og þjónustu í bænum. Í lok 9. áratugarins voru aðalatvinnugreinar í Kópavogi húsgagnaiðnaður, matvælaiðnaður, bifreiðaumboð og almenn verslun.[10]

Kópavogskirkja var teiknuð árið 1957 af Herði Bjarnasyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og vígð árið 1962. Lestrarfélag Kópavogs var stofnað árið 1953, en Jón úr Vör var mesti hvatamaðurinn að baki því. Lestrarfélagið myndaði grunn að Bókasafni Kópavogs. Tónlistarskóli Kópavogs var stofnaður árið 1963 og Skólahljómsveit Kópavogs árið 1966. Kópavogsvöllur var tilbúinn árið 1975 og íþróttahúsið Digranes árið 1983. Ný og stór heilsugæslustöð hóf starfsemi árið 1981 og hafði þá verið mörg ár í byggingu. Kópavogshöfn var stækkuð á árunum 1989-1992. Náttúrufræðistofa Kópavogs var stofnuð árið 1983, en Gerðarsafn var opnað árið 1994 og hefur nú yfir 3000 verk í vörslu.[10][11] Árið 1999 var Tónlistarskóli Kópavogs fluttur í nýtt menningarhús við hlið Gerðarsafns en í húsinu var einnig Salurinn sem var þá fullkomnasti tónlistarsalur landsins. Árið 2002 voru náttúrufræðistofan og bókasafnið flutt í annan áfanga menningarhússins.

Árið 1958 var lokið við fyrsta skipulagsuppdrátt Kópavogs. Á næstu áratugum voru talsverðar deilur um skipulagsmál í bænum, einkum vegna hraðrar umskiptingar úr sveit í þéttbýli en einnig vegna landadeilna við Reykjavík. Miðbær Kópavogs var hannaður í áföngum á 8. áratugnum og framkvæmdum við Hamraborg var að mestu lokið árið 1984.[10] Frá 1990 hefur íbúafjöldi Kópavogs tvöfaldast og stórt verslunar- og þjónustuhverfi risið í Kópavogsdal. Austan Reykjanesbrautar hefur verið mikil uppbygging og þar risið íbúðahverfi kennd við Lindir, Salir, Kórar, Þing og Hvörf. Smáratorg var opnað árið 1997, verslunarmiðstöðin Smáralind árið 2001 og hinn 20 hæða turn á Smáratorgi 3 árið 2008.[12][13]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Guðrún Sveinbjarnardóttir, Rannsókn á Kópavogsþingstað, Kópavogskaupstaður 1986, bls. 77
  2. Guðrún Sveinbjarnardóttir. Rannsókn á Kópavogsþingstað. Kópavogskaupstaður, 1986, bls. 77.
  3. 3,0 3,1 Árni Waag (ritstj.), Saga Kópavogs - Saga lands og lýðs á liðnum öldum (Lionsklúbbur Kópavogs, 1990).
  4. „Konungsbréf“.
  5. „Kópavogsbærinn og Þinghóll“.
  6. „Ferlir - Kópavogur - fornleifar“.
  7. Tölur fengnar af vefsíðu Hagstofu Íslands
  8. Adolf J. E. Petersen (ritstj.), Saga Kópavogs - Frumbyggð og hreppsár (Lionsklúbbur Kópavogs, 1983).
  9. Helga Sigurjónsdóttir. Sveitin mín - Kópavogur. Frásagnir bekkjarsystkina. Skóli Helgu Sigurjónsdóttur, Kópavogi, 2002.
  10. 10,0 10,1 10,2 Ándrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson (ritstj.), Saga Kópavogs - Þættir í kaupstaðarsögunni 1955-1985 (Lionsklúbbur Kópavogs, 1990).
  11. „Gerðarsafn.is“.
  12. „Smáratorg 1“.
  13. „Smáratorg 3“.

Heimildir

breyta
  • Árni Waag (ritstj.) (1990). Saga Kópavogs - Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Lionsklúbbur Kópavogs.
  • Adolf J. E. Petersen (ritstj.) (1983). Saga Kópavogs - Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Lionsklúbbur Kópavogs.
  • Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson (ritstj.) (1990). Saga Kópavogs - Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Lionsklúbbur Kópavogs.