Rugludalur er lítill dalur í Austur-Húnavatnssýslu, í beinu framhaldi af Blöndudal. Nafnið mun dregið af konunni Ruglu sem bjó þar. Við mynni Rugludals beygir Blöndudalur til suðvesturs, og þar kemur áin Blanda fram úr djúpu og hrikalegu gili, Blöndugili.

Rugludalur er við vesturjaðar Eyvindarstaðaheiðar. Dalurinn er grunnur og grösugur og í mynni hans var áður bærinn Rugludalur sem er nú í eyði og tilheyrir afréttinni. Þar var áður nægur skógur til kolagerðar, en var mjög eyddur 1708. Eftir Rugludal rennur Rugludalskvísl og vestan dalsins er Rugludalsbunga, 562 m y.s. Vestan hennar er Blöndugilið. Rugludalur er á náttúruminjaskrá, ásamt Blöndugili og Vallgili (svæði 412).

Rugludalur tilheyrði áður Bólstaðarhlíðarhreppi en nú er hann hluti af Húnabyggð.

Heimildir

breyta
  • Náttúruminjaskrá o.fl.