Blöndugil er um 18 km langt gil eða gljúfur sem Blanda hefur grafið þar sem hún fellur ofan af heiðum ofan í Blöndudal. Gilið skilur á milli Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar.

Blöndugil er víða 50–100 m djúpt, sums staðar með standbjörgum og gróðurblettum. Einna hrikalegast er það hjá svonefndum Tindabjörgum, þar sem það er um 150–200 m djúpt. Gróður er víða mikill í gilinu á klettasillum og í hvömmum, og nálægt svonefndum Hosugeira er skógartorfa sem illfært er í. Grettishlaup er í gilinu, þar eru aðeins um 20 m á milli hamrabrúna. Við norðanvert Blöndugil er þvergil, Vallgil, sem gengur til vesturs.

Blöndugil er skammt frá Kjalvegi og er einna styst að suðurhluta þess sunnan við vatnið Galtaból. Gilið er í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu, en áður var það á mörkum tveggja hreppa sem hafa sameinast.

Blöndugil er á náttúruminjaskrá, ásamt Vallgili og Rugludal (svæði 412).

Heimildir

breyta
  • Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson: Landið þitt Ísland 1, Rvík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1984, 93.
  • Náttúruminjaskrá o.fl.