Rokkabillí
Rokkabillí er eitt elsta form rokktónlistar og kom fyrst fram á 6. áratug 20. aldar. Rokkabillí á rætur sínar að rekja til suðurríkja Bandaríkjanna og tónlistin er blanda af kántrí, sveiflu og takti og trega. Nafnið rokkabillí kemur frá plötugagnrýnendum þessa tíma en þeir sögðu að þarna væru „hillbillies“ (ísl. sveitadurgar) að spila rokk og ról.[1]
Rokkabillí | |
---|---|
Uppruni | Um miðjan sjötta áratug 20. aldar í Bandaríkjunum |
Hljóðfæri | Píanó, Gítar, Kontrabassi, Trommur, Blásturshljóðfæri |
Vinsældir | Náði heimsathygli í kringum 1956 |
Tengdar stefnur | |
Rokk – Kántrí - Blús |
Uppruni
breytaHægt er að segja að saga rokkabillí nái alveg aftur á 3. áratugs 20. aldar þegar tónlistarmenn fóru að blanda saman kántrí og blús en það var ekki fyrr en afgerandi rokktaktivar bætt við að stefnan myndaðist.
Gullöld rokkabillí var stutt lifuð en hún byrjaði um miðjan 6. áratug seinustu aldar. Þá hafði stefnan mótað með sér afgerandi einkenni í bæði hljóm og lagasmíð. Þessi einkenni voru, meðal annars, hraður ryþmagítar, handplokkaður bassi og oftar en ekki dansvænn taktur.[2]
Með fyrstu tónlistarmönnunum til að ná vinsældum innan rokkabillí stefnunnar var Bill Haley en hann spilaði með hljómsveit undir nafninu Bill Haley & His Comets. Árið 1954 gáfu þeir út lagið „Rock Around The Clock“ sem fyrst um sinn náði takmörkuðum vinsældum en stuttu eftir það slógu þeir í gegn með laginu „Shake, Rattle and Roll“. Líkt og mörg lög innan þessarar stefnu var lagið ábreiða af lagi með svörtum tónlistarmanni. Það er einmitt einkennandi fyrir rokkabillí að nánast allir tónlistarmenn innan stefnunnar voru hvítir karlmenn enda þróaðist stefnan í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem svartir höfðu lítil sem engin réttindi eða áhrif.[2][3]
Seinna sama ár gaf Elvis Presley, þá 19 ára og óreyndur, út sína fyrstu smáskífu með laginu „That’s Allright“ sem var einnig ábreiða á lagi eftir svartan tónlistarmann. Platan var gefin út af plötuútgáfunni Sun Records sem seinna átti eftir að koma mörgum helstu rokkabillístjörnum þessa tímabils á framfæri.[1][4]
Einn af þeim tónlistarmönnum var Johnny Cash sem hafði verið að reyna fyrir sér sem kántrí og gospel söngvari þar til hann hóf samastarf með Sun Records. Fyrsta smáskífa hans var lagið „Cry! Cry! Cry!“ en sú plata náði 14. sæti á Billboard listanum í Bandaríkjunum.[5]
Rokkabillí náði loks heimsathygli í kringum árið 1956 með slögurum á við „Blue Suede Shoes“ með Carl Perkins (sem Elvis Presley flutti síðar), „Folsom Prison Blues“ með Johnny Cash og „Be-Bop-A-Lula“ með Gene Vincent.[6]
Konur í Rokkabillí
breytaÞó að rokkabillí hafi fyrst og fremst verið tónlist hvítra karla þá áttu nokkrar konur farsælan rokkabillí feril þó þær hafi flestar vera seinna í því en karlarnir. [1]
Sú frægasta er án efa Wanda Jackson en hún hefur bæði verið kölluð drottning og forsetafrú rokkabillísins. Hún gaf út sína fyrstu plötu, „I gotta know“ árið 1956 hjá plötuútgáfunni Capitol en sú smáskífa náði hæst 15. sæti á vinsældarlista í Bandaríkjunum. Wanda átti síðan fleiri smelli á við „Mean, Mean Man“, „Fujiyama Mama“ (sem náði efsta sæti á vinsældarlista í Japan), „Let’s Have A Party“, „Riot In Cell Block #9“ og fleiri en lög hennar einkenndust af því að blanda saman rokkabillí og kántrí og urðu þau því vinsæl víða.[7]
Wanda hélt áfram að spila rokkabillítónlist þegar leið á 7. áratuginn, þó svo að tónlistin væri farin að tapa vinsældum en árið 1965 sneri hún sé alfarið yfir í kántrí tónlist. Hún hefur síðan hlotið miklar vinsældir nýlega eftir að hún gaf út plötuna The Party Ain't Over með tónlistarmanninum Jack White árið 2011.[7]
Fleiri kvennrokkabillí söngkonur voru Jo Ann Campbell, hin unga Janis Martin (frægust fyrir smellina „Drugstore Rock’n’Roll“ og „My Boy Elvis“ og „kvenkyns Elvis“ Alis Lesley sem kom fram með hárið sleikt aftur og gítar um hálsinn líkt og átrúunargoðið sjálft, Elvis Presley.[8]
Hnignun
breytaVinsældir rokkabillís í Bandaríkjunum fóru dvínandi upp úr 1960 en stefnan hélt þó þónokkrum vinsældum í Bretlandi vel fram á 7. áratug 20. aldar. Hnignun vinsælda rokkabillís má rekja til nokkurra atburða en þó aðallega til þess að margir vinsælustu tónlistarmenn stefnunnar sneru aftur til kántri uppruna sinna og það að Elvis gekk í herinn.[6]
Dauði tónlistarmanna á við Buddy Holly og Ritchie Valens er einnig talinn hafa minnkað áhuga almennings á geiranum.[1]
Endurreisn Rokkabillí
breytaÁ seinni hluta 8. áratugarins, þá sérstaklega í kjölfar dauða Elvis árið 1977, fór rokkabillí tímabilið og allt sem því fylgdi að njóta vinsældar aftur. Rokkabillí endurreisnarmenn voru upp á sitt besta á 9.áratugnum en þá komu tónlistarmenn eins og Stray Cats, Sha Na Na og Shakin’ Stevens fram.[9]
Eldri tónlistarmenn líkt og Charlie Feathers og Johnny Burnette’s Rock and Roll Trio urðu einnig mikið vinsælli þá en þeir höfðu áður. Þar sem endurreisn rokkabillís var grasrótarstefna kemur ekki á óvart að hún hafi blandast við aðrar neðanjarðarstefnur í gangi á þessum tíma. Sækóbillí kom þá fram en þar spiluðu hljómsveitir líkt og The Cramps og Mojo Nixon tónlist í anda gamla rokkabillísins en með hráleika og hávaða pönksins.[10]
Endurreisn rokkabillís fylgdi einnig mjög afgerandi tíska en fólk fór að klæða sig eins og svokallaðar „greasers“ sem voru gerðir svo ódauðlegir í myndinni Grease. Strákar í leðurjökkum og með sleikt aftur hárið og stelpur í gamaldags kjólum með stórum pilsum og klút í hárinu voru í anda „pin-up“ fyrirsæta 6. áratugarins en fyrirbæri eins og tattúveringar, ýktar túbereraðar hárgreiðslur og klæðnaður í anda hryllings B-mynda voru einnig viðloðandi stefnuna.
Íslenska sveitin Langi Seli og skuggarnir (stofnuð 1988) spilar rokkabillí. Danska sveitin Volbeat (stofnuð 2001) blandar saman rokkabillí og þungarokki.
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 Cramton, Luke og Dafydd Rees. Rock and Pop; Year by Year - The Fifties. bls. 10-89 (Dorling Kindersley Limited, London.)
- ↑ 2,0 2,1 „Rockabilly“, Allmusic. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ Eder,Bruce. „Bill Haley“, Allmusic. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ Unterberger, Richie. „Elvis Presley“, Allmusic. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ Erlewine, Stephen Thomas. „Johnny Cash“, Allmusic. Skoðað 1.maí 2012.
- ↑ 6,0 6,1 Morrison, Craig. „Rockabilly“, Britannica. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ 7,0 7,1 Wolff, Kurt. „Wanda Jackson“, All Music. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ Stollak, Sarah. „Rockabilly Women“ Geymt 5 janúar 2012 í Wayback Machine, All Music. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ „Rockabilly Revival“ Geymt 26 janúar 2012 í Wayback Machine, All Music. Skoðað 1. maí 2012.
- ↑ All Music „Psychobilly“ Geymt 28 desember 2011 í Wayback Machine, All Music. Skoðað 1. maí 2012.