Reynistaðarbræður

(Endurbeint frá Reynistaðabræður)

Reynistaðarbræður voru tveir ungir bræður frá Reynistað í Skagafirði sem fórust ásamt þremur förunautum sínum á Kili í vetrarbyrjun 1780 og hafa örlög þeirra verið mönnum ráðgáta allar götur síðan.

Fjárkaupaferð

breyta

Fjárkláðanum sem geisaði á Norðurlandi seint á 18. öld var útrýmt með niðurskurði á sýktum svæðum. Í Skagafirði var skorið niður 1778-1779, þar á meðal á Reynistað hjá Halldóri Vídalín klausturhaldara og Ragnheiði Einarsdóttur konu hans. Sumarið 1780 sendu hjónin ráðsmann sinn, Jón Austmann Þorvaldsson, sem sagður er hafa verið hreystimenni mikið, suður á land til að kaupa nýjan fjárstofn og með honum Bjarna son sinn. Síðar um sumarið sendu þau Sigurð Þorsteinsson á Daufá, landseta sinn, einnig suður til að aðstoða við reksturinn og með honum Einar son sinn, sem var 11-12 ára.

Ekki er vitað fyrir víst hve gamall Bjarni var, það kemur ekki fram í neinni samtímaheimild. Jón Espólín segir löngu seinna að hann hafi verið um tvítugt og í síðari tíma frásögnum er hann yfirleitt sagður 19 ára en Hannes Pétursson skáld hefur leitt að því góð rök að hann hafi verið 14 ára og styðst meðal annars við dagbókarfærslu Nikulásar Magnússonar á Halldórsstöðum, systursonar Reynistaðarbræðra, sem skrifuð var þegar bein þeirra voru jarðsett.

Feigðarferð

breyta

Fimmti maðurinn slóst í för með þeim syðra, Guðmundur Daðason úr Mýrdal. Þeir félagar keyptu tæplega 200 kindur, aðallega í Skaftafellssýslu, og voru líka með 16 hesta í för. Þeir urðu seinir fyrir um haustið og lögðu ekki á fjöllin fyrr en um mánaðamótin október-nóvember. Þá var allra veðra von og kom jafnvel til tals að drengirnir yrðu eftir syðra og Bjarni settist í Skálholtsskóla um veturinn. Þó varð ekki af því.

Ferðalangarnir komust með reksturinn upp á Kjalveg og allt norður fyrir Kjalfell. Þar tjölduðu þeir við hraunborg sem síðan hefur verið kölluð Beinahóll eða Líkaborg og eftir það veit enginn hvað gerðist. Sögur segja að norðanstórhríð hafi brostið á og staðið dögum saman og þeir félagar þá dáið úr vosbúð en ýmsar aðrar kenningar hafa verið settar fram, meðal annars sú að a.m.k. bræðurnir hafi kafnað úr loftleysi í þéttu vaðmálstjaldinu þegar snjór hlóðst að því.

Það var komið fram á jólaföstu þegar Reynistaðarhjón sendu menn suður að spyrjast fyrir um ferðir þeirra og var annar þeirra Björn Illugason vinnumaður á Reynistað. Þegar sendimennirnir komu aftur með þær fregnir að Reynistaðarmenn hefðu lagt á fjöll meira en mánuði fyrr var ljóst hvað orðið var.

Líkfundir - með 65 ára millibili

breyta

Tjaldið fannst um vorið og dauðir hestar og kindur allt í kring en í tjaldinu voru aðeins tvö lík. Þeir sem fyrstir fundu tjaldið töldu sig raunar hafa séð þrjú eða fjögur lík en höfðu ekki aðgætt það betur, enda tjaldið fallið, líkin tekin að rotna og mikill fnykur í tjaldinu. Þeir sem komu næstir á eftir að tjaldinu, Björn Illugason, Jón Egilsson bóndi á Reykjum og Sigurður sonur hans, töldu sig aðeins hafa séð tvö lík og þegar sendimenn Reynistaðahjóna komu að sækja líkin fundust lík bræðranna og Jóns Austmanns hvergi þrátt fyrir mikla leit.

Líklegt er talið að Jón Austmann hafi freistað þess að komast til byggða eftir hjálp en af honum fannst aldrei tangur né tetur þótt þjóðsögur segi raunar að hönd hafi fundist í Blöndugili sem talin var af honum. Bein bræðranna – eða bein sem talin eru vera þeirra – fundust 65 árum seinna, dysjuð undir steinahrúgu skammt frá Kjalvegi en þó býsna langt frá Beinahóli. Voru þau flutt að Reynistað og jarðsett þar 11. nóvember 1846 að viðstöddum fáeinum ættingjum.

Líkránsmálið

breyta

Miklar sögur fóru fljótt á kreik í Skagafirði og víðar um að einhverjir hefðu komið að tjaldinu um sumarið áður en líkin voru sótt, rænt þau og falið lík bræðranna. Þó bendir fátt til þess að þeir hafi haft margt fémætt með sér og vandséð í hvaða tilgangi menn hefðu átt að drösla rotnuðum líkum með sér langar leiðir til að urða þau. En af þessu urðu málaferli gegn þeim Birni Illugasyni, Jóni á Reykjum og Sigurði, sem stóðu árum saman og lauk þeim þannig að sakborningunum var dæmdur synjunareiður í héraði, sem var svo staðfestur á Alþingi, með þeim orðum að ekki nokkurs staðar finndust bevís fyrir því að sakborningarnir væru sekir. Aldrei var gengið eftir synjunareiðunum.

Þjóðsögur og hjátrú

breyta

Fáir atburðir í Íslandssögunni hafa orðið tilefni fleiri þjóðsagna en örlög Reynistaðarbræðra. Alls konar sögur fóru af stað tengdar þeim, hvarfi þeirra, förunautum þeirra og þeim sem áttu að hafa komið að þeim og falið líkin. Sögnin um „bölvun Reynistaðarbræðra“ er líka alþekkt en það er sú hjátrú sem verið hefur uppi hjá sumum afkomendum systkina þeirra bræðranna að engan dreng af ættinni megi nefna Bjarna og enginn – eða að minnsta kosti enginn karlmaður – megi klæðast grænu eða ríða bleikum hesti. Hjá sumum af ættinni mun þessi trú vera mjög sterk enn í dag en aðrir jafnskyldir hafa aldrei tekið mark á henni, ganga grænklæddir frá hvirfli til ilja ef þeim sýnist svo og virðist ekki verða þeim að meini.

Heimildir

breyta
  • „Hvað gerðist á Kili 1780? Lesbók Morgunblaðsins 19. október 1969“.
  • „Í klettaskoru krepptir liggjum báðir. Lesbók Morgunblaðsins 26. október 1969“.
  • Hannes Pétursson (1990). Aldur Reynistaðarbræðra. Í Frá Ketubjörgum til Klaustra. Sögufélag Skagfirðinga.