Reynir í Mýrdal

sveitabær á Suðurlandi

Reynir (einnig þektur sem Reynir í Mýrdal eða Reynir í Reynishverfi) er sveitabær, kirkjustaður og áður prestssetur í Reynishverfi í Mýrdal og er einn af syðstu bæjum á Íslandi. Reynir er landnámsjörð og bjó þar landnámsmaðurinn Reyni-Björn, sem nam land á milli Hafursár og Kerlingadalsár samkvæmt Landnámabók.

Reyniskirkja og Reynisfjall í baksýn.
Séð af Reynisfjalli vestur Reynisfjöru til Dyrhólaeyjar.

Reynisfjara, sem kennd er við bæinn, er á milli Dyrhólaeyjar og Reynisfjalls og þykir sérlega falleg og tilkomumikil en brimasöm og hættuleg. Þó var töluvert útræði þaðan á árum áður og á meðal þeirra sem þaðan reru voru séra Jón Steingrímsson, sem var bóndi á Hellnum í Mýrdal um tíma, og Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur. Legstaður Sveins er í Reyniskirkjugarði.

Kirkja hefur verið á Reyni frá því skömmu eftir kristnitöku. Um miðja 19. öld var fyrsta timburkirkja í Vestur-Skaftafellssýslu byggð á Reyni en það er votviðrasamt í Mýrdalnum og hún fúnaði fljótt. Önnur kirkja var reist í stað hennar skömmu fyrir aldamótin 1900 en það fór á sömu leið fyrir henni. Árið 1966 var svo steinkirkjan sem nú stendur reist. Prestssetrið var flutt til Víkur í Mýrdal árið 1932.

Kirkjusmiðurinn

breyta

Til er gömul þjóðsaga um kirkjusmíði á Reyni og er hún svona:

 
Áður en kristni var lögtekin hér á landi vildi bóndinn á Reynir í Mýrdal byggja kirkju. Hafði hann aflað viðarins en vantaði smiðinn og gat hvergi fengið. Einhvert sinn kom til hans maður ókenndur og bauðst til að smíða kirkjuna fyrir hann. Vildi hann ekki segja til nafns og sagðist ekki vilja önnur laun heldur en þau að bóndi gæti upp á nafni sínu. Átti bóndi að fá honum son sinn fimm vetra ef honum mistækist að geta upp á nafni hans. Samþykkti bóndi þetta. Smíðaði smiðurinn fljótt og vel en bóndi lét teikna upp öll þau mannsnöfn sem fólk hafði heyrt því að smiðurinn sagðist heita algengu nafni. Þegar líða fór á smíðarnar fór bóndi að bera fram tilgátur sínar án árangurs. Fór bóndi nú einförum í óyndi sínu og upp í dal einn sem er neðan til í Reynisfjalli. Hét hann þar á guð og helga menn sér til hjálpar. Lagðist hann þar niður og sofnaði. Sá hann þá dyr opnast vestan megin dalsins í hól sem þar er; þangað þóttist hann ganga og sá þar kerlingu inni í með barn í fangi og kvað hún fyrir því aftur og aftur:
Vertu góður drengur minn,
senn kemur hann Finnur
faðir þinn frá Reyn
með þinn litla leiksvein.

Eftir þetta vaknaði bóndi og mundi drauminn. Til nafnsins Finns sem getið var um í vísunni hafði hvorki hann né aðrir munað. Flýtti bóndi sér til kirkjunnar og var smíðinni þá næstum því lokið. Sagði hann þá við smiðinn: ,,Senn ertu búinn Finnur minn!" Smiðurinn formælti og hvarf á braut, en bóndanum notaðist vel verkið.

 
 
— Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Heimildir

breyta
  • „„Kirkjur Reynisþinga: Reynir". Lesbók Morgunblaðsins, 8. maí 1966“.
  • „Heimasíða Mýrdalshrepps. Skoðað 30. apríl 2011“.